Skip to main content
search
Fréttir

Hinsegin dagar nálgast

By 28. júlí, 2009No Comments

Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast fimmtudaginn 6. ágúst með opnunarhátíð í Háskólabíói og hátíðin nær síðan hámarki með gleðigöngu og útiskemmtun við Arnarhól laugardaginn 8. ágúst. Kaupfélag Hinsegin daga er nú starfrækt á Laugavegi 28 og þar er til sölu hátíðarvarningur, VIP-kort og aðgöngumiðar að einstökum viðburðum.

Stjórn Hinsegin daga hvetur allt það fólk sem ætlar að kaupa VIP-kort að nálgast þau fyrr en seinna, því að upplag þeirra er takmarkað að vanda. Þau eru í raun afsláttarkort og borga sig fljótt ef fólk tekur þátt í nokkrum helstu viðburðum hátíðarinnar. Í Kaupfélaginu er einnig hægt að kaupa staka miða á opnunarhátíðina í Háskólabíói, á dansleiki stelpna og stráka á föstudagskvöldi, á dragshow Creamgirls (eitt sinn Rut & Vigdís) og tónleika Robotron á Sódóma-Reykjavík á laugardagskvöldi svo og á dansleik með Páli Óskari á NASA sama kvöld. Í Kaupfélaginu er líka að finna fjölbreyttan varning, m.a. boli ársins og margvíslegt fjölskylduvænt skraut til að bera í gleðigöngunni

Dagskrárriti Hinsegin daga hefur verið dreift um allt land og vonandi hefur það borist nú þegar til flestra.

Verkstæði Hinsegin daga er í ár staðsett í húsnæði Strætó við Kirkjusand í Reykjavík. Þar höfum við til ráðstöfunar tvær rúmgóðar skemmur. Þau sem vilja nýta sér þessa þjónustu hafi samband við Katrínu í síma 867 2399, Fríðu í síma 866 8246 eða Völu Möggu í síma 691 4964, og þær leiða viðkomandi í nánari sannleika um það hvernig hægt er að athafna sig á verkstæðinu á Kirkjusandi.

Loks minnum við allt það fólk sem er með formleg atriði í gleðigöngunni að skrá sig á vefsíðu Hinsegin daga, www.gaypride.is og hafa síðan samband við Katrínu göngustjóra (867 2399) sem allra fyrst. Eins og hin fyrri ár er mikilvægt að mæta tímanlega á Hlemm á laugardegi þegar göngunni er stillt upp og hlíta í einu og öllu fyrirmælum göngustjóra um uppröðun og annað sem gönguna varðar. Það fólk sem ekki mætir tímanlega verður óhjákvæmilega staðsett aftast í göngunni.

Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride

Leave a Reply