Skip to main content
AlþjóðamálFréttirSamkynhneigðYfirlýsing

HM í hómófóbíu 2018

By 16. júní, 2018janúar 26th, 2020No Comments
Varla er búið flauta til leiks á Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Rússlandi, en afleiðingarnar af ríkisstuddu hatri á hinsegin fólki eru strax farnar að segja til sín. Á sjúkrahúsi í Sankti Pétursborg liggur franskur hommi, kjálkabrotinn og með heilaskaða, eftir fólskulega líkamsárás á hann og kærasta hans. Meðan íslenska þjóðin bíður í ofvæni eftir því að strákarnir okkar gangi inn á völlinn á HM í fyrsta sinn bíða aðstandendur þessa manns fregna af batahorfum hans. Og hinsegin fólk um allan heim bíður milli vonar og ótta eftir fréttum af næstu árás, sem virðist nánast óumflýjanleg.
 
Fyrir fimm árum voru samþykkt lög í Rússlandi sem banna „áróður“ fyrir samkynhneigð. Þeim er kerfisbundið beitt til að þagga niður í hinsegin fólki, hefta málfrelsi og fundafrelsi þess og þröngva því í felur með kynhneigð sína, sambönd og kyntjáningu. Samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu hefur tíðni hatursglæpa í garð hinsegin fólks tvöfaldast síðan lögin tóku gildi. Í stað þess að vinna gegn fordómum og auka öryggi hinsegin borgara sinna hafa rússnesk yfirvöld gefið hatursöflum í samfélaginu byr undir báða vængi. Afleiðingarnar eru í fullu samræmi við það.
 
Alþjóðlegir viðburðir á borð við HM eru í senn auglýsingaherferð fyrir gestgjafalandið og vítamínsprauta fyrir hagkerfi þess. Aðdáendur, fjármunir og fjölmiðlar streyma nú inn í Rússland til að fylgjast með uppskeruhátíð vinsælustu íþróttar í heimi, og ekki tekur betra við eftir fjögur ár þegar „mannréttindaparadísin“ Katar heldur HM 2022. Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, á skömm skilið fyrir að halda HM ítrekað í löndum sem hafa ekki nokkurn áhuga á að virða mannréttindi eða tryggja öryggi borgara sinna og gesta.
 
Nú er ekki tíminn til að sitja aðgerðalaus.
 
Samtökin ’78 skora á Knattspyrnusamband Íslands og íslensk yfirvöld að nýta þetta tækifæri til að taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum á hinsegin fólki. Við erum stolt af árangri íslensku landsliðanna á erlendri grund. Við erum enn stoltari af því að KSÍ skuli vinna virkt gegn fordómum í sínu starfi, enda er Ísland eitt örfárra landa þar sem hinsegin fræðsla er hluti af þjálfaramenntun knattspyrnuþjálfara. Nýtum þessa sögulegu stund til að benda heimsbyggðinni á það að jafnrétti og árangur haldast hönd í hönd.
 
Samtökin ’78 skora á íslenska knattspyrnuaðdáendur sem staddir eru utan Rússlands að lýsa frati á hómófóbíu rússneskra yfirvalda með þátttöku í þessari herferð. Herferðin er einföld: póstið eða deilið mynd á samfélagsmiðlum sem fellur undir „áróður fyrir samkynhneigð“ – t.d. mynd af ykkur með regnbogafána, að kyssa maka af sama kyni eða með setningu til stuðnings hinsegin fólki – og merkið með myllumerkinu #WorldCup og staðsetningu í Moskvu. Eins og skipuleggjendurnir hjá AllOut benda á: „Ef þúsundir okkar taka þátt verðum við alltaf sýnileg þegar fólk leitar að HM-fréttum á samfélagsmiðlum og sýnum rússneskum yfirvöldum að við látum ekki kúga okkur.” Fyllum HM af „hinsegin áróðri”!
 
Samtökin ’78 hvetja hinsegin knattspyrnuaðdáendur og aðra sem staddir eru í Rússlandi til að gæta fyllstu varúðar og stefna öryggi sínu ekki í hættu með þátttöku í mótmælaaðgerðum. Í aðdraganda HM hafa rússnesk ofbeldisgengi hótað að leita uppi hinsegin HM-aðdáendur og misþyrma þeim; engin ástæða er til að draga þær hótanir í efa. Við bendum á eftirfarandi hjálparsíma og -netföng:
 
Í Moskvu: hafið samband við Stimul í síma +7 (495) 241 03 10.
Í St. Pétursborg: hafið samband við Coming Out í síma +7 (953) 170 97 71 eða worldcup@comingoutspb.ru
Í öðrum borgum: hafið samband við Russian LGBT Network í síma +7 (952) 230 19 31 eða legalhelp@lgbtnet.org.
 
María Helga Guðmundsdóttir
Formaður Samtakanna '78
 

Leave a Reply