Skip to main content
search
Fréttir

Hvaða þýða breytt hjúskaparlög fyrir mig?

By 13. ágúst, 2010No Comments

Í kjölfar breytinga á hjúskapalögum sem gengu í gildi 27. júní síðastliðinn óskuðu Samtökin ‘78 eftir lögfræðiáliti um áhrif breytinganna á þau pör sem áður höfðu skráð sig í staðfesta sambúð.

Eftir breytingarnar eru nú aðeins ein hjúskaparlög í landinu. Lög um staðfesta samvist falla í raun úr gildi. Aðilar sem hafa látið staðfesta samvist sína og eru skráðir sem slíkir geta breytt þeirri skráningu í Þjóðskrá þannig að þar standi „í hjúskap“ í stað staðfestrar samvistar. Útbúið hefur verið sérstakt eyðublað í þessum tilgangi sem báðir aðilar þurfa að undirrita.

Helsta breytingin er að nú eru allir einstaklingar jafnir undir hjúskaparlögum og skiptir engu hvort maður og kona, maður og maður eða kona og kona ganga í hjúskap. Á sama tíma fellur hugtakið „staðfest samvist“ úr lögum. Allir einstaklingar sem framvegis verða gefnir saman falla nú undir ein og sömu hjúskaparlögin.

Með þessum síðustu breytingum á hjúskaparlögunum er prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga heimilt að gefa saman einstaklinga af sama kyni. Þetta er eflaust mesta breytingin og kannski sú sem sumir hafa beðið mest eftir. Til að breyta hjúskaparstöðu sinni geta pör því látið prest / forstöðumann trúfélags gefa sig saman og gildir þá könnunarvottorð það sem lagt var fram fyrir staðfestingu samvistar.

Að öðru leyti verða ekki miklar efnislegar breytingar vegna þessara nýjustu breytinga á hjúskaparlögunum þar sem samkynhneigðir höfðu fengið réttarbætur og jafna stöðu á við fólk í hjúskap á liðnum árum. Breytingarnar hafa þó mikla þýðingu fyrir marga.

Samantekt:
Lög um staðfesta samvist falla niður og allir einstaklingar sem gefnir hafa verið saman eða verða gefnir saman falla undir ein sameiginleg hjúskaparlög.

Aðilar þurfa að hafa frumkvæði að því að láta breyta skráningu úr staðfestri samvist í hjúskap, annaðhvort með því að fylla út þar til gert eyðublað eða láta prest / forstöðumann trúfélags gefa sig saman.

 

Leave a Reply