Skip to main content
search
Fréttir

Hver er afstaða framboðanna?

By 8. apríl, 2013No Comments

Sérstakur starfshópur Samtakanna ’78 um ættleiðingar hinsegin fólks hefur starfað frá haustinu 2012 og hefur hann meðal annars fundað með ráðuneytum og öðrum sem að ættleiðingarmálum koma, í von um að breytingar verði gerðar í þágu hinsegin fólks. Fyrr í dag sendi starfshópurinn framboðum til komandi Alþingiskosninga bréf er varðar barneignir og ættleiðingar hinsegin fólks.

Bréfið innihélt fimm spurningar, en svörum við þeim er ætlað að varpa ljósi á afstöðu framboðanna til réttinda hinsegin fólks til barneigna. Óskað var eftir skriflegum svörum fyrir 20. apríl og verða svörin birt opinberlega að þeim tíma liðnum.

Í bréfi starfshópsins til framboðanna sagði m.a.:

“Þrátt fyrir að lagaleg staða samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á Íslandi sé nokkuð góð er ljóst að enn er nokkuð í land með að fleirum úr þeim hópi sé gert kleift að eignast börn. Þó að lög númer 65/2006 heimili ættleiðingar til para af sama kyni er það svo að enn þann dag í dag hefur ekki verið komið á samningi milli Íslands og lands sem heimilar millilandaættleiðingar til hinsegin fólks.”


Spurningarnar fimm sem lagðar voru fyrir framboðin eru eftirfarandi:

  1. Er þitt framboð tilbúið að beita sér fyrir réttindum hinsegin fólks til barneigna? 
  2. Er framboðið tilbúið að beita sér fyrir því að Íslendingar nái ættleiðingarsamningi við land sem heimilar ættleiðingar til hinsegin fólks?
  3. Ef spurningu 2 er svarað játandi; hvernig mun framboðið beita sér fyrir því?
    Ef spurningu 2 var svarað neitandi; hvers vegna ekki?
  4. Er framboð þitt tilbúið að leggja áherslu á mannréttindi hinsegin fólks í utanríkisstefnu sinni og samskiptum við önnur ríki, þar með talið að beita utanríkisþjónustunni til að greiða fyrir ættleiðingarsamningum sem nýtast hinsegin fólki ef svo ber undir?
  5. Hver er afstaða framboðsins til staðgöngumæðrunar? Samtökin ’78 taka ekki afstöðu til þess hvort möguleg lögleiðing staðgöngumæðrunar sé réttlætanleg, en óska eftir svörum frá þínu framboði um stöðu hinsegin fólks ef til slíkrar löggjafar kæmi. 

Leave a Reply