Skip to main content
search
FélagsfundurFréttir

Hvert stefnum við? Af félagsfundi 18. maí

By 31. maí, 2016desember 11th, 2021No Comments

Þann 18. maí síðastliðinn var haldinn félagsfundur með það að markmiði að ræða saman um stefnu félgsins og daglegt starf þess. Hér má sjá fundargerð fundarins:

Félagsfundur Samtakanna ’78
miðvikudaginn 18. maí kl. 19:30
í Tin Can Factory, Borgartúni 1

 

Fundur settur kl. 19:34. Viðstaddir eru 35 félagar í Samtökunum ‘78.

Daníel Arnarsson fundarstjóri ávarpar fundinn og leggur áherslu á að jafnvel þótt lítið fari fyrir þeim út á við séu félagsfundir mikilvægur liður í lýðræðislegri vinnu innan félagsins. Hann kynnir einnig fyrirhugaða dagskrá fundarins, sem er sem hér segir:

19.30 Setningarávarp: Elísabet Þorgeirsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum ‘78
19.45 – 20.30 Umræðuhópar um starfsáætlun 2016-2017, framtíð og eðli Samtakanna ‘78.
20.30 – 21.00 Hópar kynna niðurstöður sínar.
21.00 – 21.15 Hlé
21.15 – 21.30 Kynning á hlutverki lagabreytingarnefndar
21.30 – 21.45 Kynning á framboðum og kosning í lagabreytingarnefnd
21.45 – 22.00 Lokaávarp: Katrín Sigríður Steingrímsdóttir, jafningjafræðari
22:00 Fundarslit

 

1. Setningarávarp – Elísabet Þorgeirsdóttir, ráðgjafi

Setningarávarp, það er nú það. Ég var beðin um að koma hérna sem eldri félagskona og setti niður á blað og ætla bara að lesa yfir ykkur svolitla ræðu, sem er í rauninni mín viðbrögð við því að vera beðin um að koma og tala inn í þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir núna og ég þarf ekki að lýsa fyrir ykkur.

Heil og sæl öll sömul!

Mér var falið að vera með innlegg hér í kvöld sem eldri félagskona sem gæti litið til fortíðar og langar að leggja mitt af mörkum inn í þá þörfu umræðu sem fer af stað hér í kvöld. Ég hef verið viðloðandi félagið í 32 ár og oft orðið vitni að átökum sem ekki var unnið úr á opinskáan hátt. Mér sýnist að núverandi stjórn vilji fara nýjar leiðir með því að bjóða öllum að taka þátt í opinni umræðu um starf félagsins. Ég vona að hér eigi eftir að skapast frjóar umræður um það stefnumál samtakanna “að skapa hinsegin fólki félagslegan og menningarlegan vettvang og styrkja þannig sjálfsvitund þess, samkennd og samstöðu um sérkenni sín,” eins og er eitt af markmiðum félagsins samkvæmt núgildandi lögum.

Mig langar að kynna mig með nokkrum orðum því ég hef ekki verið mjög sýnileg í Samtökunum undanfarið þótt ég hafi verið ráðgjafi hér í nokkur ár. Ég vinn sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg en var áður blaðamaður og ritstjóri, síðast á tímaritinu Veru sem var tímarit um konur og kvenfrelsi. Ég gekk í Samtökin ’78 árið 1984, sat í stjórn 1984 til 1985 og vann að útgáfu blaðsins Úr felum um tíma. Ég tók þátt í stofnun Íslensk lesbíska árið 1985 og Trúarhóps Samtakanna 1993. Ég var kosin í fyrsta trúnaðarráð félagsins, að mig minnir 1996, og var í trúnaðarráði í nokkur ár. Ég hef ekki tekið þátt í Gleðigöngu síðan árið 2000 en tók fram að því þátt í hátíðahöldum í tilefni af frelsisdegi samkynhneigðra 27. júní. Mér er sérstaklega minnisstæð fyrsta gangan, að mig minnir 1994, þegar við vorum 20 til 30 og gengum niður að Alþingishúsi við lítinn fögnuð vegfarenda.

Það hefur ótrúlega mikið gerst í málefnum hinsegin fólks á Íslandi á þeim árum sem Samtökin ’78 hafa starfað. Undanfarið hafa nýir hópar og nýjar kynslóðir komið á vettvang, áherslur hafa breyst og flóran orðið fjölbreyttari með hverju árinu. En atburðir undanfarinna vikna hafa ýft upp óánægju með fjöldaúrsögnum og valdið miklum sársauka, eins og við vitum t.d. með formanninn okkar sem hefur orðið fyrir barðinu á ýmsu. Það er því nauðsynlegt að horfa inn á við, þétta raðirnar og velta því fyrir okkur hvort ástæða sé til að bregðast við þessum úrsögnum á einhvern hátt. Mér finnst mikil gróska hafa verið í félaginu eftir að húsnæðið á Suðurgötunni opnaði og nýr framkvæmdastjóri tók við. Það sem mér sýnist hins vegar vera að gerast er að eldri félagar hafa ekki fylgst með öllum þeim hræringum og hrökkva nú við þegar þeim finnst gamla félagið þeirra vera komið á allt annan stað en það var á þegar þau voru virkt félagsfólk. En enginn stöðvar framgang tímans og við hin eldri ættum að gleðjast yfir þeim mikla krafti sem er innan Samtakanna nú um stundir.

Það var einu sinni svo að félagar í Samtökunum ’78 voru eins og ein stór fjölskylda. Á þeim árum þegar það var verulegt átak að opinbera kynhneigð sína stóðum við þétt saman og þekktumst nær öll sem höfðum “komið úr felum” eins og það var kallað. Þegar Samtakaböll voru haldin var það eins og stórt ættarmót og næstum skylda að kynna nýtt fólk sem lét sjá sig fyrir okkur hinum sem fyrir voru. Baráttan sem við háðum hvert fyrir sig batt okkur saman og við þurftum verulega hvert á öðru að halda. Það er hægt að horfa til þessa tíma í rósrauðum bjarma því vissulega voru þeir kraftmiklir og skemmt
ilegir en það var líka mikill sársauki í gangi, mikil drykkja og sjálfseyðingarhvöt. En formlegu réttindamálin okkar hafa breyst í gegnum árin, hver sigurinn af öðrum hefur unnist og stundum finnst okkur að ekkert sé eftir, að öll barátttumálin séu í höfn. Þess vegna hefur margt samkynhneigt fólk ekki lengur þörf fyrir að starfa í Samtökunum, lifir bara sínu fjölskyldulífi í úthverfunum eins og hinir. Það markmið félagsins að vinna að sýnileika hinsegin fólks á Íslandi hefur tekist mjög vel. Er til nokkuð 7 ára barn hér á landi sem veit ekki hvað hinsegin fólk er, þökk sé Gleðigöngunni sem hefur í mörg ár verið jafn stór viðburður í bæjarlífinu og 17. júní og Menningarnótt.

En hvað þýðir það í raun að vera félagi í Samtökunum ’78? Við þeirri spurningu er auðvitað ekkert eitt svar, félagsaðildin getur verið á misjöfnum forsendum hjá hverjum og einum þó í grunnin sé það auðvitað stuðningsyfirlýsing við stefnumál félagsins. Ég held að það sé algengt að fólk eigi tímabil þar sem það tekur mikinn þátt í starfinu og er áhugasamt um málefni þess og svo önnur tímabil þar sem það er bara félagar af gömlum vana. Þegar svo eitthvað kemur upp á sem það er óánægt með hafa allir þann rétt að segja sig úr félaginu og í þeim rétti er falið mikið vald. Þetta hefur verið raunin með Samökin ’78 alla tíð. Fólk hefur farið og komið svo aftur, eða sleppt því að borga félagsgjöldin ef það er ósátt eða hlutlaust um starfið þá stundina. Mér hefur lengi fundist skorta á opna umræðumenningu innan Samtakanna þegar ósætti hefur komið upp og veit að margir hafa farið í burtu sárir í gegnum árin. En sú staðreynd að 85 félagar hafa sagt sig úr Samtökunum undanfarið kallar á að staldrað sé við. Skyldi ástæðan bara vera óánægja með aðild BDSM samtakanna að félaginu eða er eitthvað meira á ferðinni? Eru þetta kannski félagar sem hafa verið óvirkir í mörg ár og ekki haft fyrir því að segja sig úr félaginu en ákveðið að gera það þegar þetta mál kom upp? Vandinn er bara sá að þessir félagar munu líklega ekki taka þátt í umræðunni um framtíð félagsins svo við vitum ekki hvert svarið er. En vissulega er eftirsjá að þessu fólki og spurning hvort hægt væri að hafa samband við það og biðja það að svara einhverjum spurningum sem á okkur brenna. Það vekur mér líka óhug að heyra af hatursfullri framgöngu þeirra átta sem vilja að boðað verði til nýs aðalfundar og afsagnar núverandi stjórnar og lýsi ég hér með fullu trausti á stjórnina og framkvæmdastjórann og störf þeirra.

Fyrsta aðkoma mín að félaginu var einmitt á viðkvæmum tíma, árið 1984, þegar mótframboð kom gegn sitjandi formanni og stofnanda félagins, Guðna Baldurssyni. Ég var í liðinu sem fylkti sér um nýja formanninn, Þorvald Kristinsson, og við unnum sigur. Það var örugglega sársaukafullt fyrir Guðna en við vorum ung og viss um eigið ágæti. Ég sé það nú að hægt hefði verið að gera þetta öðruvísi þannig að félagið hefði notið frábærra krafta Guðna lengur. Það var svo bara ári seinna sem hópur kvenna innan samtakanna tók sig til og stofnaði eigið félag, Íslensk lesbíska, m.a. vegna óánægju með stjórnarhætti nýja formannsins. Við vildum gera lesbíur sýnilegar í kvennahreyfingunni með því að fá herbergi í Kvennahúsinu á Hótel Vík við Ingólfstorg þar sem mörg félög höfðu aðsetur, m.a. Kvennalistinn. Félagið vann að því að efla femíníska vitund og kvennamenningu eins og lesbíur höfðu gert um allan heim en okkur fannst við ekki fá nægilegt rými til að gera innan Samtakanna. Á þessum tíma lagðist alnæmið þungt á samfélag okkar og margir hommar dóu af völdum þess. Það tók auðvitað mikið á okkur félaga í Samtökunum en því miður náðum við ekki að sameinast í baráttunni, systur og bræður innan Samtakanna. Hommunum fannst þetta vera þeirra mál og við fórum burt um tíma og starfræktum félag okkar á öðrum stað í tvö ár. Nú er Íris Ellenberger sagnfræðingur að rannsaka þessa sögu og verður fróðlegt að lesa niðurstöður hennar þegar þar að kemur.

Seinna stóð ég aftur að því að stofna hóp innan Samtakanna. Það var árið 1993 þegar við stofnuðum Trúarhóp sem starfaði í tíu ár og hafði þann tilgang að stunda kristna trú á eigin forsendum og koma á samræðu við kirkjuna um málefni samkynhneigðra sem var algjört tabú á þessum árum. Við tókum slaginn og ég fór oft í fjölmiðla til að tala okkar máli við prestastéttina um réttinn til blessunar og síðar hjónavígslu. Við áttum samstarf við marga presta sem komu að helgihaldi með okkur og urðu síðar ötulir talsmenn okkar málstaðar innan kirkjunnar. Eftirminnilegasti atburðurinn sem Trúarhópurinn stóð fyrir var samvera í Fríkirkjunni 26. júní 1996 sem hófst klukkan 23.30 og þar fögnuðum við saman þegar lögin um staðfesta samvist gengu í gildi þann 27. júní. Það var mögnuð stund sem fáir gleyma sem þar voru. En það var erfitt að starfrækja trúarhóp innan Samtakanna þegar óvildin í garð kirkjunnar kraumaði og okkur tókst ekki að byggja upp nógu sterkan hóp til að standa það af okku
r. Það gaf mér þó mikinn kraft að fara til New York og kynnast öflugri starfsemi MCC kirkjunnar, Metropolitan Community Church, sem er kirkja samkynhneigðra í Bandaríkjunum og með starfsemi út um allan heim. Árið 2001 fórum við líka þrjú úr Trúarhópnum til Gautaborgar á þing norrænna trúarhópa samkynhneigðra. Þegar ég varð svo vitni að því í fjölmiðlum að forystufólk Samtakanna ’78 mat einskis það framlag sem félagar í Trúarhópnum höfðu lagt af mörkum í þeirri umræðu sem farið hafði fram í nokkur ár við kirkjuna, varð mér allri lokið. Þá notaði ég þann rétt sem ég lýsti áðan til að tjá óánægju mína og sagði mig úr Samtökunum. Ég gerði það með bréfi sem ég stílaði til stjórnarinnar þar sem ég lét tilfinningar mínar í ljós en ég fékk engin viðbrögð og hef aldrei fengið. Ég er að segja frá þessu í fyrsta skipti nú, 13 árum síðar, ekki af því að málið liggi þungt á mér, heldur af því að þetta er eitt dæmið af mörgum sem ég held að séu til staðar innan okkar raða og sýna að vanhæfni til hreinskilinnar umræðu hefur verið við lýði í félaginu árum saman. Eða eigum við frekar að kalla það þöggun og valdbeitingu þegar mál eru ekki rædd og látið eins og ekkert hafi gerst? Ég vona því að vinnubrögð núverandi stjórnar og framkvæmdastjóra boði nýja tíma. Það er hins vegar spurning hvernig við losnum við draugana úr fortíðinni. Viljum við taka þá með og ráða niðurlögum þeirra eða eigum við að skilja þá eftir og gleyma þeim? Viljum við kalla á eldri kynslóðir sem hafa hætt störfum af ýmsum orsökum, brúa bilið og nýta reynslu þeirra eða eru kynslóðaskipti einfaldlega staðreynd í félaginu og því rétt að horfa frekar framávið en afturábak?

Ég hef lýst því hér að ég hef tvisvar tekið þátt í að stofna hóp innan samtakanna um hugðarefni mín og þannig finnst mér að samtökin eigi að vera. Regnhlíf yfir alls kyns hópa sem stofnaðir eru um hin ýmsu mál. Ef eldri hommum og lesbíum finnst að málefni þeirra séu komin í minnihluta innan félagsins ættu þau að stofnað sinn eigin hóp, kannski til að spila félagsvist eða dansa gömlu dansana – hvað veit ég?
Í kvöld höfum við tækifæri til að ræða hugmyndir okkar um starf og framtíð félagsins. Látum sársauka og tortryggni víkja fyrir opnum huga og góðum vilja. Tökum höndum saman og gerum gott félag enn betra.

2. Umræðuhópar um starfsemi og framtíð Samtakanna ’78

Unnsteinn Jóhannsson meðstjórnandi kynnir fyrirkomulagið:
„Við tökum þetta í „World Café“ stíl. Þetta snýst um það að við verðum með fimm borð með fimm mismunandi umræðuefnum, einu á hvert borð. Eftir ákveðinn tíma ætla ég að biðja Daníel í að hóa í okkur, 2 mín áður en tímanum lýkur, og þá getur fólk skipt um umræðuefni ef það vill. Við viljum biðja fólk í salnum um að vera borðstjórar, aðstoða við samræðurnar á borðunum og taka saman í lok hverrar lotu svo hægt sé að upplýsa nýtt fólk. Fimmtán mínútna lotur, þrjár skiptingar verða yfir kvöldið.“

„Við erum með nokkur þemu:

1. Bleiki fíllinn. Umræður um málefni líðandi stundar og undanfarinna vikna. Á þessu borði verður hægt að ræða tilfinningar, hugmyndir og annað slíkt um það sem hafa gengið á, því margir gætu viljað létta á sér eða koma með ábendingar
2. Persónulegt mikilvægi S78 fyrir okkur sem einstaklingum. Af hverju er ég í S78? Af hverju finnst mér það mikilvægt? Engar niðurstöður hér, en gæti verið gott að sjá þemun.
3. Verkefni sem þið hafið saknað í starfinu, verkefni sem hafa þótt góð/slæm.
4. Hvar ættu S78 að vera eftir 3 og 5 ár? Draumsýnin. Við tókum stóran samræðufund fyrir þremur árum í Ráðhúsinu, en það er gott að gera þetta reglulega og mikilvægt að ræða það hér í kvöld.
5. Hver ættu að vera meginverkefni S78 þetta starfsár? Stjórnin hefur reynt að vinna þetta en ekki alltaf haft nægan tíma til þess. Hér munu koma margar hugmyndir, eflaust fleiri en hægt er að vinna úr á þessum tíma.“

 

3. Hópar kynna umræður sínar. 

Mikilvægi S78 persónulega 

Tvö meginþemu:
– Mikilvægi þess að S78 séu til, burtséð frá því hvort einstaklingurinn sé að mæta. Táknrænt gildi þótti mörgum mjög mikilvægt. Hlífiskjöldur yfir hinsegin fólki, dálítið eins og stéttarfélag.
– Að hitta fólk með sameiginlegan reynsluheim, að hafa fengið og veitt fræðslu, félagsskapur, fólk af öðrum kynslóðum.
– Hinsegin skemmtun, saga og menning.
– Uppfyllir ákeðnar félagslegar þarfir sem fást ekki annarsstaðar.
– Í lagi að vera ekki normið!

„Allt jákvætt og frábært á þessu borði.“

Meginverkefni Samtakanna á þessu starfsári
Huglæg verkefni, sem dreifist yfir hjörð og á stjórn
– Búa til stuðningsnet fyrir hinsegin innflytjendur og flóttmenn
– Meiri fjölbreytni í ímynd Samtakanna út á við
– Halda vel á fræðsluspöðunum
Verkleg verkefni
– Nýliðakvö
ld fyrir BDSM-liða
– Lagabreytingar
– Fullorðinsfræðsla fyrir fyrirtæki, þjónustuaðila, hjálparsamtök – fræðsla haldin af fullorðnu fólki
– Viðburðir fyrir hinsegin fjölskyldur.
– “Speed-mingling” hitta hina hinsegin.
– Fræðslukvöldaröð. Flóran heldur fyrirlestur + chill og chat.
– Nota Snapchat?

 

Hvar ættu Samtökin að vera eftit 3–5 ár?
– Mannréttindabaráttan er mikið áhersluatriði núna, ólíkt meira félagslegu starfi áður
– Gott væri að félagslega þáttinn, hvetja fólk til að stofna hagsmunafélög sem snúast ekki endilega um sjálfsvitund heldur einnig um áhugamál.
– Mikilvægt að halda í góða hluti eins og fræðslu og stækka þá út á við
– Húsnæði er enn ábótavant – þarf neyðarskýli og almennilega skrifstofu
– Á samfélagsmiðlum vantar opnari vettvang fyrir umræðu
– Þörf er á sýnilegum vettvangi fyrir alþjóðasamstarf
– Mætti verðlauna fólk og fyrirtæki meira fyrir  að standa sig vel og vekja þannig athygli.
– Auka samstarf við aðra hópa sem einnig berjast fyrir frelsi.
– Fara yfir lög samtakanna, auka samtal innan félagsins.
– Meiri aktívisma t.d. undirskriftarlista og göngur.
Verkefni sem við höfum saknað / glaðst yfir
– Aðalstefin eru samskipti og félagslíf.
– Hrós á gallerí, ljóðakvöld, starfsemi í nýju húsnæði, hýryrðakeppnin.
– Mikið var komið inn á reglulega félagsfundi og samskipti milli stjórnar og félagsfólks.
– Útprentað fréttabréf (meira konfekt) var á óskalista, þótt einnig væri gott að hafa umhverfissjónarmið með í spilinu.
– Kynheilbrigðisbæklingur – uppfærsla á honum.
– Eldri kynslóðir haldi sögukvöld
– Mikið rætt um fræðslu inn á við, á milli félagsmanna. Hana mætti efla.
– Reyna að ná til félaga sem eru óvirkir.
– Félagsstarfið – samtakaböllin, tónleikar, sumargrill o.þ.h. Hóa fólki saman.

Bleiki fíllinn
Úrval tilvitnana úr umræðunni:
– Það er kostur að við séum ekki öll eins“ – mikilvægi fjölbreytni
– Hugmyndir um að gerast LG(B) félag væru afturför í alþjóðasamhengi
– Af hverju vill fólk ekki taka þátt í umræðunni – hvar er fólkið sem hefur verið ósátt?
– Það er alltaf barátta í breytingum
– Aldrei verða allir sáttir
– Orðin „fordómahræðsla“ og „forréttindahroki“ komu fyrir
– Vandamálið liggur í hugmyndafræðilegum ágreiningi og hann verður ekki leystur með lögfræðiáliti
– Niður með lagafasisma
– Sáttamiðlun.
– Fjallar ekki bara um BDSM, líka um trans, kynsegin fólk o.fl.
– Það mega allir vera hérna.

3. Lagabreytinganefnd – kynning

Unnsteinn Jóhannsson kynnir dagskrárliðinn:
„Tvíþætt ástæða þessa fundar er annars vegar samtal um Samtökin ’78 og það sem hefur gengið á síðustu mánuði, en einnig vildum við rétta út hendurnar til að búa til ferli um áframhaldandi samræður á öðruvísi grundvelli. Lög félagsins hafa verið mikið rædd síðan á aðalfundi 5. mars, og þau eru kannski ekki alveg bestu lögin til að setja ramma utan um starf félagsins.

„Ljóst var frá fyrsta degi að lagabreytinganefnd yrði að stofna. Því var óskað eftir framboðum og reynt að skora á sem flesta, svo nefndin yrði eins opin og fjölbreytt og hægt væri. Frestur rann út á sunnudag og sjö framboð bárust. Við leituðum eftir sex einstaklingum. Við ræddum málið á stjórnarfundi um daginn og viljum síður kjósa fólk í burtu. Við viljum því leggja það undir þennan fund að í stað þess að kjósa einn í burtu af eyjunni í Survivor-stíl myndum við bjóða þeim öllum að koma inn í nefndina.

„Einnig verður einn stjórnarmeðlimur í nefndinni, líklegast ég. Einnig verður athugað hvort þörf sé á að hafa lögfróðan aðila, e.t.v. utanaðkomandi hinsegin samfélaginu, til halds og trausts. Rætt hefur verið að nefndin hafi sem opnast ferli þannig að félagar geti komið að breytingunum og sagt sitt. Öllum frjálst að senda inn breytingatillögur – hér er engan veginn lokað á það. Sérstaklega þarf að ræða fyrstu greinina, markmiðin, hvort breyta þurfi henni en skilgreina samtökin upp á nýtt.

4. Lagabreytinganefnd – kosning
Áður en greidd eru atkvæði um tillöguna er frambjóðendum boðið upp á að kynna sig. Eftirfarandi eru viðstödd:

Anna Eir Guðfinnudóttir lýsir sig spennta fyrir verkefninu.
Daníel Arnarsson – „Mér finnst lagabreytingavinna mjög skemmtileg og krefjandi. Ég vil beita mér fyrir því að lögin verði sem opnust fyrir félagsmennina svo lýðræðið ráði för en ekki að við séum bundin af einhverjum greinum “af því bara”, en þó ekki þannig að hægt sé að túlka þau þvers og kruss.“
Inga Dóra Guðmundsdóttir – „Ég hef enga sérstaka þekkingu á lagabr. en finnst það mjög þarft. Vil heyra hver tíðarandinn er og miðla því inn í þetta mál.“
Reynir Þór Eggertsson – „Ég var í lagabreytinganefnd fyrst fyrir 23 árum. Fórum í gegnum alls kyns gömul lög. Það kom tímabil með listakosningu til stjórnar, allir eða enginn. Nauðsynlegt að lögin séu opin en samt helst til þröngt hægt að túlka þau. Horfa ti
l laganna þannig að þau styðji starfið en komi ekki í veg fyrir starfið, eins og með þrönga túlkun á mánuðinum mars sem átti að setja félagið í sjálfheldu. Lög mega ekki vera svo opin að stjórn geti frestað öllum lýðræðislegum ákvarðanatökum. Ákvæði eins og t.d. með mars mætti setja inn ákvæði um að það mætti halda aðalfund síðar ef þörf þykir. Við getum lent í því að ómögulegt sé einhvern tímann að halda aðalfund í mars, t.d. vegna náttúruhamfara, og þá er nauðsynlegt að félagið geti starfað áfram. Líst vel á tillögu um að nýta krafta allra frambjóðenda. Vill halda vinnudag þar sem allir geta komið sínum framlögum á framfæri.“
Svanhvít Ada Björnsdóttir – „Ég vil gera lögin mannleg þannig að lögin þjóni félögunum en ekki félagið lögunum. Mér finnst að allir eigi að eiga þátt í þessu. Við eigum ekki að vinna þetta í einhverju myrkri.“

Tveir frambjóðendanna, Guðrún Sæborg Ólafsdóttir og Álfur Birkir Bjarnason, áttu ekki heimangengt á fund þetta kvöld.

Skrifleg tillaga Unnsteins Jóhannssonar um að öll þau sjö sem buðu sig fram séu sjálfkjörin, í stað þess að kosi verðið um sex manns úr sjö manna hópi, er borin upp af Daníel Arnarssyni fundarstjóra. Tillagan er samþykkt samhljóða.

5. Ávarp Katrínar Sigríðar Steingrímsdóttur jafningjafræðara
Hæ, ég heiti Kata og ég nota fornafnið hún í dag. Það gæti verið öðruvísi á morgun, hver veit. Fyrir tveimur árum tók Ugla mig undir sinn væng og leyfði mér að vera með í jafningjafræðslunni eftir að ég hafði verið eitthvað að kíkja á ungliðafundi. Áður en ég held áfram þá langar mig að óska nýju lagabreytinganefndinni innilega til hamingju með kjörið og óska þeim velfarnaðar í störfum sínum. Ég tel mikilvægt að svona öflug nefnd sé sett á laggirnar á þessum tímamótum. Við höfum öll séð fjölmiðlaumfjöllun á undanförnum mánuðum þar sem talað er um klofning félagsins og þar fram eftir götunum. Þar að auki hafa einhverjir sett sig upp á móti nýju stjórninni sem hefur hingað til ekkert annað gert en staðið sig með sóma í því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Auðvitað hörmum við brotthvarf gamalla félaga en við fögnum einnig þeim sem koma ný inn. Þau sem stofnuðu Samtökin ’78 höfðu það að leiðarljósi að mannlífið væri fjölbreytilegt, en svo hefur bara komið í ljós að fjölbreytileikinn er fjölbreytilegri en við héldum.

Þessir atburðir hafa engu að síður sett sitt mark á störf félagsins og ímynd þess. Þess vegna er svo mikilvægt að fundurinn í kvöld hafi átt sér stað svo félagar, gamlir og nýir, geti rætt þau málefni sem hér voru á borðum. Ég fagna því innilega hve gott tækifæri kvöldið í kvöld var til að létta af sér sem og fræðast um mismunandi hluti. Það var hollt og gott að líta til framtíðar sem og fortíðar, taka mið af liðnum atburðum og læra af þeim til þess að breyta og bæta en þó halda í allt það frábæra sem Samtökin bjóða upp á. Við megum heldur ekki gleyma því að við eigum langt í land. Við megum ekki gleyma þeim félögum okkar í þessari flóru sem búa við bág lífsskilyrði og að þetta félag getur verið bjargvættur fyrir suma. Ég veit ekki hvar ég væri án þessa félags.

Svo er eitt að lokum: við megum ekki gleyma því að mörg okkar voru í felum fyrir fáeinum árum, þegar hópar eins og trans og intersex fólk voru ekki í samtökunum, og jafnvel nú, árið 2016, þegar háværar raddir mótmæltu inntöku BDSM á Íslandi. Það eru eflaust fleiri hópar sem bíða eftir að koma. Ekki gleyma því. Hlustið, knúsið, og takið þau inn.

 

6. Lokaorð
Auður Magndís framkvæmdastýra óskar eftir sjálfboðaliðum í öll verkefnin sem komu fram á borðum og áréttar að boðleiðirnar til að láta brilljant hugmyndir verða að veruleika séu mjög stuttar í félaginu.

Fundi slitið 21:22

Leave a Reply