Skip to main content
search
Fréttir

IDAHO inni í mér

By 17. maí, 2013No Comments

Grein Önnu Pálu Sverrisdóttur, formanns Samtakanna ’78, sem birtist í Fréttatímanum í dag 17. maí 2013:


IDAHO inni í mér

Idaho er fylki í Bandaríkjunum. Því miður er það ekki eitt þeirra ríkja sem nú bætast í hinn stækkandi hóp bandarískra fylkja sem lögleitt hafa hjónabönd fólks af sama kyni – þvert á móti hafa kjósendur þar sett bann við slíku í stjórnarskrá fylkisins. Rugl af því tagi viðgengst sums staðar í Bandaríkjunum líkt og víða annars staðar í heiminum. Hins vegar hafa bandarísk stjórnvöld undanfarin ár staðið sig vel á alþjóðavettvangi með markvissri baráttu í þágu hinsegin fólks og Hillary Clinton átti til dæmis stórleik í þeim efnum sem utanríkisráðherra.

Það er því ekki auðvelt að mála einfalda mynd af Bandaríkjunum og stöðu hinsegin fólks og svoleiðis er staðan víða annars staðar. Það var magnað þegar Frakkar lögleiddu hjónabönd samkynhneigðra um daginn en að sama skapi ógnvekjandi hversu heiftúðug mótmæli urðu. Á allt of mörgum öðrum stöðum í heiminum er myndin því miður einfaldari af því hún er öll í dökkum litum ennþá. Hún Kasha frá Úganda upplýsti Íslendinga um daginn um skelfilega stöðu hinsegin fólks í heimalandi sínu og nú hefur maður frá Nígeríu leitað hælis á Íslandi vegna þess að honum er ekki vært þar vegna samkynhneigðar, sem þungar refsingar liggja við.

IDAHOBIT
Dagurinn í dag, 17. maí, er ekki bara þjóðhátíðardagur Norðmanna. IDAHO er heldur ekki bara nafn á fylki í Bandaríkjunum heldur er það líka ensk skammstöfun fyrir alþjóðlegan dag gegn fordómum í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks (e. International Day Against Homo-, bi- and transphobia). Haldið var fyrst upp á daginn árið 2005. Ástæðan er sú að á þessum degi, ekki fyrr en árið 1990, var samkynhneigð fjarlægð af lista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar yfir geðsjúkdóma. Barátta transfólks á lengra í land enda er það ennþá flokkað sem geðsjúkdómur að vera trans. Tvíkynhneigða fólkið gleymist síðan yfirleitt og verður fyrir fordómum jafnt frá samkynhneigðum og gagnkynhneigðum. Hið tvennt síðasttalda er ég búin að sanna með því að nota IDAHO í titli þessa pistils því mér fannst það henta betur – það eru nokkur ár síðan titill dagsins varð IDAHOBIT til að ná þessum hópum með.

Inni í mér
Á Íslandi erum við í þeirri stöðu að þegar fólk mætir í göngu vegna hinsegin fólks er það með en ekki á móti. Við höfum komist langt á 35 árum frá stofnun Samtakanna ´78. Nálægt þriðjungur þjóðarinnar tekur þátt í Gleðigöngunni ár hvert og sýnir ómetanlegan stuðning. Gríðarlegar lagalegar framfarir hafa orðið, nú síðast með setningu rammalöggjafar um transfólk og einum hjúskaparlögum á nýliðnu kjörtímabili. Af þessu eigum við að vera stolt. Hins vegar ekki svo hrokafull að halda að við séum komin alla leið eða séum allra best í heimi. 

Í dag birta samtök hinsegin fólks í Evrópu svokallað regnbogakort af álfunni og lendir Ísland í 10. sæti Evrópulanda hvað varðar málefni hinsegin fólks í löggjöf og stjórnsýslu. Í viðhorfskönnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun árið 2009 kom fram að um fjórðungur Íslendinga sagðist aðspurður ekki telja samkynhneigð réttlætanlega. Við eigum því ennþá eftir að vinna mikla vinnu með okkar eigin fordóma. Öll höfum við þá að einhverju leyti – líka við sem erum sjálf hinsegin. Þess vegna legg ég til að í dag horfumst við í augu við IDAHO inni í sjálfum okkur; jafnt í okkar samfélagi sem eigin sál og huga. Það eru margir litir í íslensku myndinni ennþá, aðallega ljósir en líka dökkir. Stundum eru trúarbrögð notuð sem afsökun fyrir fordómum og mismunun gagnvart hinsegin fólki. Þess vegna er starf hópsins „Hinsegin í Kristi“ sérlega mikilvægt og hvet ég áhugasöm til að sækja samkomu hópsins í Guðríðarkirkju í kvöld.

Gaman er að segja frá því að í tilefni dagsins brugðust mörg sveitarfélög og framhaldsskólar vel við umleitan Samtakanna ´78 um að kaupa regnbogafána og flagga í tilefni dagsins. Fer Hornafjörður þar fremstur í flokki með heil sex stykki. Áfram svona!


Leave a Reply