Skip to main content
FréttirViðburður

Jóhanna sæmd heiðursmerki

By 29. júní, 2021nóvember 15th, 2021No Comments

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra Íslands, var sæmd heiðursmerki Samtakanna ‘78 við hátíðlega athöfn þann 27. júní. Þennan sama dag voru ellefu ár liðin frá því að ein hjúskaparlög tóku gildi og áttu Jóhanna og eiginkona hennar, Jónína Leósdóttir, því ellefu ára brúðkaupsafmæli en þær voru með þeim fyrstu til að nýta sér hin nýfengnu réttindi árið 2010 og ganga í hjónaband. 

 

Árinu áður hafði Jóhanna tekið við embætti forsætisráðherra sem markaði tímamót. Hún var fyrsta konan til að gegna embættinu hér á Íslandi og fyrsta opinberlega hinsegin manneskjan á heimsvísu til að leiða ríkisstjórn. Jóhanna varð þannig yfir nóttu fyrirmynd hinsegin fólks um allan heim og táknmynd þess að hinsegin fólki væru allir vegir færir. Þrátt fyrir að hafa mætt miklu mótlæti yfir sinn pólitíska feril og stærstan hluta hans leynt kynhneigð sinni rættist hennar eigin spádómur að lokum um að hennar tími myndi koma og Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra Íslands á vormánuðum 2009. Þá á Jóhanna lengstu þingsetu íslenskra kvenna en hún var fyrst kjörin á Alþingi árið 1978 og sat þar allt til ársins 2013.

 

Athöfnin fór fram á Port 9 við Veghúsastíg og hófst á ávarpi Margrétar Pálu Ólafsdóttir, fyrrum formanns, sem fór fögrum orðum um Jóhönnu. Næst steig á stokk Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ‘78, sem útlagði rökstuðning stjórnar og sæmdi Jóhönnu heiðursmerki Samtakanna ‘78 fyrir framlag hennar til réttindabaráttu hinsegin fólks. Athöfninni lauk síðan ljúfum tónum Lay Low sem leiddu gesti út í milt sumarkvöldið.

 

Mynd með færslunni á Hrund Þórisdóttir.