Skip to main content
Fréttir

Kærar þakkir öll sömul

By 10. júní, 2013No Comments

Stjórn, trúnaðarráð og starfsfólk Samtakanna ´78 eru í skýjunum með SAMTAKAMÁTTINN – þjóðfund hinsegin fólks sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 1. júní 2013. Í honum tóku þátt um 120 manns á aldrinum 15 til 87 ára. Fundurinn var haldinn í tilefni 35 ára afmælis S78 og lagt upp með að á þessum tímamótum sé nauðsynlegt að staldra við, skoða stefnumálin og forgangsraða.

Margir sigrar hafa náðst í 35 ára starfi og fjöldi fólks lagt blóð, svita og tár í baráttuna þau ár sem Samtökin hafa verið til. Það voru fundargestir rækilega minntir á þegar Lana Kolbrún Eddudóttir og Þorvaldur Kristinsson, fyrrum formenn Samtakanna, stigu á svið og sögðu örsögur frá fyrri árum. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs ávörpuðu fundinn af einlægum áhuga á málefnum hinsegin fólks. Reynslumiklir félagsmenn, þau Ragnhildur Sverrisdóttir og Felix Bergsson, stýrðu fundinum af stakri snilld. Fjöldi fólks lagði á sig mikla sjálfboðavinnu til að fundurinn gengi jafn vel og skipulega fyrir sig og raunin varð og þetta fólk á miklar þakkir skildar. Um kvöldið var fagnað á Hinsegin hátíð á borginni. Mannréttindaborgin Reykjavíkurborg á svo sannarlega þakkir skildar fyrir frábært samstarf við Samtökin ´78 kringum fundinn.

En það er ekki nóg að halda flottan fund og safna miklum fjölda góðra hugmynda. Nú er sá hluti að baki en við tekur úrvinnsla. Í fyrsta lagi þarf að halda skipulega utan um hugmyndirnar. Í öðru lagi þarf að framkvæma. Forysta S78 hóf strax vinnu við úrvinnsluhlutann og biðlar til félaga í Samtökunum ´78 að taka virkan þátt í starfinu til framtíðar svo hægt sé að láta sem flestar hugmyndanna frá SAMTAKAMÆTTINUM 2013 verða að veruleika.

Þó að mikil vinna sé fyrir höndum og nokkur tími sé í að hægt verði að birta niðurstöður þeirrar vinnu viljum við þó birta niðurstöður borðavinnunnar eins og hún kom fram á fundinum. Öll skjölin eru í PDF formi sem auðvelt á að vera að skoða og prenta út. Við munum svo að sjálfsögðu bæta við upplýsingum og niðurstöðum þegar það verður hægt.

Hér má svo finna skjal með öllum hugmyndum sem fram komu á fundinum.

Leave a Reply