Skip to main content
search
Fréttir

Kvikmyndahátíðin í Berlín ? Die Berlinale – Mynd um blaklið taílenskra transvestíta slær í gegn

By 18. febrúar, 2001No Comments

Frettir Kvikmyndahátíðin í Berlín Die Berlinale var haldin í fimmtugasta og fyrsta sinn á dögunum Þar mátti sjá hverja silkihúfuna upp af annarri sækja kaupstefnur, teiti og frumsýningar í tíu daga. Hlutverk hátíðarinnar er öðrum þræði að draga saman það sem er að gerast í kvikmyndalistinni, hvaða nýir snillingar eru hasla sér völl, hvað gamlir snillingarnir eru að gera – og ekki síður hver er hver í goggunaröðinni og hver kemst í hvaða teiti.

En hinn almenni borgarbúi lætur sér almennt nægja að sækja bíóin og halda sig við kjarna málsins – kvikmyndirnar. Og ekki þarf að kvarta undan áhuganum. Hver mynd er sýnd 3-4 sinnum og alls staðar góð aðsókn. Fjölmargar myndir nutu engrar hylli fjölmiðla og lentu sumar milli skips og bryggju í allri umfjöllun. En engu að síður voru salirnir fullir. Vitað er um menn sem sáu þrjátíu myndir á tíu dögum.

Hátíðin býður upp á marga flokka fyrir utan sjálfa keppnina. Þeir heita nöfnum eins og Panorama, Forum, Hommage – svo og þýðanlegum heitum eins og Barnamyndir, Stuttmyndir og fleira.

Bangsinn Teddy fimmtán ára

Einn er sá flokkur sem ekki er opinber en er engu að síður hampað meira en öðrum. Það eru þær myndir er útnefndar eru til Teddy-verðlaunanna. Samtök homma og lesbía gefa út yfirlit yfir allar þær myndir sem að einhverju eða öllu leyti hafa líf samkynhneigðra að þema. Og bangsanum Teddy er úthlutað daginn áður en stóri bróðir hans Silfurbjörninn er afhentur.

Nú eru fimmtán ár liðin frá því að hinn fyrsti Teddy var afhentur. Í þá daga var hann reyndar ekki afhentur neinum heldur komu nokkrir hommar saman, skeggræddu myndir sem þeir höfðu séð og þeir sem allar myndirnar höfðu séð höfðu rétt á að leggja atkvæði sitt í hatt sem síðan var talið upp úr. Þetta hlóð síðan upp á sig þannig að næst fóru menn að fá til sín á þessa fundi athyglisverða leikstjóra svo sem Pedro Almodovar og Derek Jarman. Þeir sem muna þessa tíma minnast þess er setið var fram undir morgun á kaffihúsinu Prinz Eisenherz og myndir sundurskrúfaðar og rýnt í uppistöðurnar.

En engin drottning lætur framhjá sér fara tækifæri til að fara í jóladressið og hugmyndin að Teddy hlóð utan á sig uns hún varð að þeim gala-viðburði sem hann er í dag í. Sá sem vill komast í Hver var hvar í gay-pressunni verður að láta sjá sig þar.

Skyldur hátíðarinnar við samkynhneigða

Stjórnandi Die Berlinale, Moritz de Hadeln, hefur ætíð mætt á Teddy-hátíðina í krafti embættis síns og hann státar einnig af því að hafa uppgötvað Derek Jarman er hann stýrði kvikmyndahátíðinni í Locarno og valdi mynd Jarmans, Sebastian þar til sýninga. Hann segir það enga sérstaka stefnu að taka myndir um samkynhneigða til sýninga heldur ráðist valið af gæðunum. Það sé einfaldlega mikið af góðum myndum í þeim flokki. Hann segir hins vegar að í ljósi sögu Berlínar og mikilvægi hennar fyrir sögu samkynhneigðra telji hann að sér beri að vera meðvitaður um skyldu sína við þá sögu og þann mikla hóp homma og lesbía sem í borginni búa. Þess má einnig geta að Teddy er óskilgetið afkvæmi Hadelns því að upphafmaður verðlaunanna var þýski kvikmyndagerðarmaðurinn Manfred Salzgeber sem Hadeln kallaði til starfa er hann tók við stjórn hátíðinnar 1980, en Salzgeber kom Teddy-samkomunni á koppinn í framhaldi af því.

Hadeln stígur nú úr brúnni eftir tuttugu og eitt ár við stjórnvölinn og til heiðurs honum er sýndur sérstakur flokkur sem hann hefur kynnt á hátíðinni og hefur sérstakt dálæti á. Í þeim flokki er meðal annarra þýska myndin Coming Out eftir Heiner Carow sem vann Teddy-verðlaunin 1990.

Aðrar myndir sem þarna hafa fengið viðurkenningu er til dæmis mynd Susan Muska og Grétu Ólafsdóttur The Teena Brandon Story (Valin eftirlæti áhorfenda) Edward II eftir Derek Jarman, Go Fish eftir Rose Troche og Priest eftir Antoniu Bird. Kvikmyndin sem hlaut verðlaunin í fyrra var Gouttes d´eau sur pierres brulantes (Vatnsdropar á heita steina) eftir franska leikstjórann Francois Ozon upp úr æskuverki Rainers Werners Fassbinder.

Drottningarnar spruttu upp og kysstust

Sigurvegarinn í ár er nýlega kvikmynduð útgáfa söngleiksins Hedwig and the angry Inch. Sá sem þetta ritar sá hana því miður ekki en getur tekið heils hugar undir val áhorfenda á eftirlæti sínu þetta árið, Sa tree lex, sannsögulegri taílenskri mynd um blaklið transvestíta sem urðu Taílandsmeistarar í blaki. Hún er í senn ljúfsár og drepfyndin og þó boðskapnum um opinn huga og fordómaleysi sé smurt býsna þykkt á þá tekur hún sig aldrei of hátíðlega. Hér er einhver áreynslulaus gleði á ferðinni (þátttakendur skemmta sér greinilega síst verr en áhorfendur) sem vinnur hug manns skilyrðislaust. Ég heyrði taílenska stúlku segja vinum sínum frá því að hún hefði séð þessa mynd: ?Drottningarnar spruttu upp og kysstust,? sagði hún um viðbrögðin í lok myndarinnar.

Drottningarnar á sýningunni sem ég sá létu sér reyndar nægja bakföll og innileg húrrahróp en tilfinningin var sú sama: Það var alveg rosalega gaman í bíó!

Jón St. Kristjánsson, fréttaritari Berlín.

Leave a Reply