Skip to main content
search
FræðilegtGrein

Kynjasamþætting út fyrir kynjatvíhyggjuna

By 29. september, 2022No Comments
Opna skýrslu

Í sumar vann Birta B. Kjerúlf, grunnnemi á þriðja ári í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, rannsókn á stöðu og réttindum kvára á Íslandi. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnið í samstarfi við Samtökin ´78. Leiðbeinandi var Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Verkefni þetta hafði það að markmiði að svara eftirfarandi spurningu: Hver er staða og réttindi trans fólks gagnvart stjórnkerfinu á Íslandi? Enn fremur var markmið rannsóknarinnar að kanna hvort nýta mætti aðferðir kynjasamþættingar (e. gender mainstreaming) til að koma málefnum trans fólks í forgrunn hjá stjórnvöldum. Leitast var við því að svara rannsóknarspurningunni með því að taka viðtöl við einstaklinga úr hópi trans fólks á Íslandi og spyrja þau út í upplifun þeirra á kerfinu. Niðurstöður út viðtölunum voru síðan kortlagðar og greindar.

Í ljós kom að trans fólk stendur frammi fyrir takmarkaðri forgangsröðun á borði stjórnvalda, þurfa að fást við gölluð kerfi sem ekki gera ráð fyrir þeim og þau bera takmarkað traust í garð stjórnvalda. Upp úr þessum niðurstöðum voru unnir tveir gátlistar eftir uppskrift kynjasamþættingar sem hvetja stefnumótunaraðila og starfsfólk stjórnsýslunnar til að taka sérstakt tillit til þarfa trans fólks, bæði í stefnumótun og í framkvæmd stefnu hins opinbera.

Stefnumótun, lagaumgjörð og rannsóknir á sviði trans fólks er nýlunda á heimsvísu og Ísland gæti vel orðið brautryðjandi í réttindum trans og kynsegin fólks ef réttu magni af tíma og pening er varið í ferlið næstu árin. Þá er óskandi að ríkisstjórn fylgi eftir þeim loforðum sem útlistuð eru í hinsegin aðgerðaáætlun næstu ára og taki af skarið til að hlúa að þessum samfélagshópi sem lengi hefur þurft að þola kerfi sem takmarkar tilvist þeirra.