Skip to main content
search
Fréttir

Leggjum baráttunni lið

By 14. janúar, 2008No Comments

LEGGJUM BARÁTTUNNI LIÐ!

Alþjóðlegt samstarf og stuðningur við félaga okkar í fjarlægum löndum er mikilvægur þáttur í starfi lesbía og homma og annars hinsegin fólks. Svo lengi sem einhver úr okkar hópi mætir fordómum og þjáningu einhvers staðar í heiminum höfum við verk að vinna.

Til Íslands er nú litið eftir fyrirmyndum, því að sú jákvæða þjóðfélagsþróun, lesbíum og hommum í hag hér á landi, vekur athygli um allan heim. Eitt af þeim löndum sem hafa leitað eftir þekkingu okkar og stuðningi er Hvíta-Rússland – Belarus. Í stærstu borgum landsins, Minsk og Gomel, er að finna einbeittan og meðvitaðan hóp homma, lesbía og transgender fólks sem berst hart fyrir því að bæta hag síns fólks og auka meðvitund manna um sjálfsögð mannréttindi.

Félögum okkar í Hvíta-Rússlandi er haldið niðri á þann hátt sem okkur er svo sem vel kunnur. Stjórnvöld hindra alla upplýsingamiðlun um líf hinsegin fólks, því er meinaður aðgangur að fjölmiðlum og bannað að safnast saman á götum þar sem athygli gæti vakið. Fjölmiðlar segja einungis neikvæðar og fjandsamlegar fréttir og nota hvert tækifæri til að lýsa félögum okkar þar sem afbrigðilegum og andfélagslegum. Þegar fréttist af aðgerðum grípa stjórnvöld oft til þess ráðs að hneppa fólk í varðhald um stundarsakir til að draga úr því kjarkinn.

Hreyfing hinsegin fólks lætur samt ekki deigan síga í Hvíta-Rússlandi og nokkrum sinnum hefur forystufólk úr þeim hópi þegið boð um að heimsækja Vestur-Evrópu, nú síðast á InterPride, alþjóðlegt þing hinsegin hátíða í heiminum sem haldið var í Zürich í október. Þar fengu íslensku fulltrúarnir á þinginu gott tækifæri til að kynna sér stöðu mála í Hvíta-Rússlandi og ræða stuðningsaðgerðir.

Í september 2008 halda félagar okkar þar í landi Gay Pride í annað sinn í sögunni. Enn voga þau sér ekki í göngu út á götur, vitandi vits að stjórnvöld snúast hart gegn þess háttar sýnileika. En þau áforma engu að síður hátíðahöld til að efla sjálfsvitund sína og samstöðu. Á dagskrá er hinsegin kvikmyndahátíð í Minsk og Gomel og síðan fjölmenn ráðstefna í Minsk þangað sem ungu fólki víðsvegar úr Austur-Evrópu er boðið til að ræða stöðu mála og skipuleggja aðgerðir í austri. Loks er ætlunin að halda tvær glæsilegar hátíðir innan dyra, bæði í Minsk og Gomel, undir slagorðunum „Gegn alnæmi“ og „Saman stöndum við sterk“.

Samtökin ’78 og Hinsegin dagar í Reykjavík hafa sameinast um að styrkja hátíðahöldin í Hvíta-Rússlandi með dálitlu fé úr sjóðum sínum og um leið hvetjum við alla einstaklinga til að leggja þessari fjársöfnun lið. Ef hvert og eitt okkar millifærir 500 kr. framlag inn á sérstakan bankareikning gegnum netbankann, er það ómetanlegt í þágu þessara stuðnings¬aðgerða. Söfnunarátakið hér á landi stendur til 1. mars 2008. Jafnframt vekjum við athygli á vefsíðunni www.pride.by þar sem fræðast má um lífið í Hvíta-Rússlandi.

Með ósk um góðar undirtektir
Í desember 2007

FROSTI JÓNSSON ÞORVALDUR KRISTINSSON
SAMTÖKIN ’78 HINSEGIN DAGAR Í REYKJAVÍK

LEGGJUM BARÁTTUNNI LIÐ!

FRAMLÖG ER HÆGT AÐ LEGGJA INN Á SÉRSTAKAN BANKAREIKNING
SEM STOFNAÐUR HEFUR VERIÐ Í GLITNI AF ÞESSU TILEFNI

513 – 14 – 103909 KT. 561199–2219


 

Leave a Reply