Skip to main content
Fréttir

Löggjöf

By 16. febrúar, 2004No Comments

Eftir tveggja áratuga baráttu er réttarstaða lesbía og homma hér á landi betri en víðast hvar í heiminum þótt enn skorti nokkuð á að jafnrétti séð náð fyrir lögum. Nýir tímar breyta líka vitund manna um jafnrétti og réttlæti. Margt af því sem nú þykir sjálfsagt mannréttindamál og þess virði að berjast fyrir því, var alls ekki til umræðu þegar mannréttindi samkynhneigðra bar á góma fyrir rúmum tveimur áratugum. Réttlætisvitund mannkyns er nefnilega í stöðugri mótun.

Evrópuráðið samþykkti ályktun 1. október 1981 og Norðurlandaráð svipaða ályktun 1. mars 1984 sem báðar fjölluðu um afnám misréttis gagnvart lesbíum og hommum. Þá höfðu Norðmenn aukið við ákvæðum í norsk hegningarlög árið 1981 til verndar samkynhneigðum. Áhrifa þessa gætti fljótt á Íslandi, ekki síst eftir fund Norðurlandaráðs lesbía og homma haustið 1983 sem sendi ályktun til Alþingis og ríkisstjórnar Íslands þar sem þess var krafist að unnið yrði að jafnréttis- og verndarlöggjöf fyrir samkynhneigða. Einnig var þess krafist að mannréttindasamþykktir Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gagnvart minnihlutahópum yrðu virtar.

 

 

Ári síðar, 1985, báru þingmenn fjögurra flokka fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að ríkisstjórn skipaði nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðra hér á landi og leggja fram tillögur til úrbóta. Tillögunni var vísað til allsherjarnefndar en nefndarálit barst aldrei og var tillagan því úr sögunni í bili.

Árið 1992 var hliðstæð þingsályktunartillaga aftur lögð fram á Alþingi af fulltrúum allra fimm stjórnmálaflokkanna á þingi. Fyrsti flutningsmaður var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá Kvennalista. Tillagan var samþykkt einróma 19. maí 1992. Sama dag var samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra laga þar sem samræðisaldri var breytt í jafnréttisátt. Eldri lög kváðu á um 18 ár þegar aðilar af sama kyni áttu í hlut en 16 ár fyrir aðra. Í nýju lögunum var nú kveðið á um 14 ára samræðisaldur fyrir alla.

 

 

Með fyrrgreindri þingsályktunartillögu frá 19. maí 1992 um afnám misréttis ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórn að skipa nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir svo að misrétti mætti hverfa. Í þessari nefnd sátu fulltrúar ráðuneyta dómsmála, menntamála og félagsmála auk tveggja fulltrúa sem Samtökin ´78 tilnefndu. Nefndin lauk störfum í október 1994 og sendi frá sér ítarlega skýrslu.

Einn þáttur tillagnanna laut að því að bæta skyldi réttarstöðu samkynhneigðra í sambúð með því að gefa þeim kost á að skrá sambúð sína með sömu réttaráhrifum og um hjúskap væri að ræða. Einnig var kveðið á um úrbætur í fræðslu- og menntamálum og nauðsyn verndarákvæða fyrir samkynhneigða í almennum hegningarlögum. Fulltrúar Samtakanna ´78 skiluðu séráliti þar sem kveðið var fastar að orði í tillögum um verndarákvæði og þess krafist að lög um staðfesta samvist samkynhneigðra hefðu sömu réttaráhrif og hjónavígslur enda töldu þeir að ályktun Alþingis um afnám misréttis yrði ekki uppfyllt nema öllu misrétti gagnvart samkynhneigðum yrði útrýmt.

Hátíðahöld 27. júní 1996 þegar lög um
staðfesta samvist tóku gildi

 

 

Frumvarp til laga um staðfesta samvist var lagt fyrir Alþingi af dómsmálaráðherra og samþykkt aðfararnótt 4. júní 1996. Lögin voru nánast samhljóða samsvarandi lagasetningum annarra Norðurlandaþjóða, en að einu leyti hafði þingið mætt kröfum minnihluta nefndarmanna sem sendi frá sér skýrsluna 1994 og gengið skrefi lengra en þjóðþing Dana, Norðmanna og Svía: Þannig var gengið frá lögunum að samkynhneigðum í staðfestri samvist var mögulegt að fara sameiginlega með forsjá barns annars þeirra. Einhugur var um hin nýju lög; af 63 þingmönnum samþykktu 44 þau, einn var á móti, einn sat hjá en 17 voru fjarstaddir. Enginn marktækur munur var á afstöðu þingmanna eftir flokkum, en greina mátti sterkari stuðning vinstri flokka, þeir tjáðu sig oftar um málið og kröfðust þess að gengið yrði lengra en raunin varð. Einkum gagnrýndu vinstri menn íslensku þjóðkirkjuna fyrir afstöðu sína en hún hafði í umsögn um frumvarpið lýst sig mótfallna því að samkynhneigðir ættu kost á kirkjulegri vígslu. Lögin tóku síðan gildi á táknrænum degi í sögu samkynhneigðra, 27. júní 1996, og var fagnað með mikilli hátíð í Borgarleikhúsinu í Reykjavík. Meðal gesta voru þáverandi forseti landsins, Vigdís Finnbogadóttir, borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fjölmargir alþingismenn.

Haustið 1996 lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum. Með þeim var orðinu kynhneigð aukið inn í fyrri lagagreinar sem lutu að refsingum fyrir mismunun eða níð um mann eða hóp manna sökum þjóðernis, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða. Frumvarpið var samþykkt án allra átaka.

Vigdís Finnbogadóttir óskar nývígðum til hamingju
27. júní 1996

 

 

Lögin um staðfesta samvist 1996 meinuðu samkynhneigðum í staðfestri samvist allan rétt til ættleiðinga. Umræðan um ættleiðingamálin brann hins vegar á mörgum og því lagði Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður fram frumvarp haustið 1996 um rétt fólks í staðfestri samvist til stjúpættleiðinga en það hlaut ekki afgreiðslu. Vísað var til þess að í endurskoðun væru lög um ættleiðingar sem tækju á þessum málum í heild. Þegar það frumvarp var lagt fram af dómsmálaráðherra haustið 1999 kom í ljós að þar var ekki gert ráð fyrir neinum réttarbótum í ættleiðingarmálum. Nú var sami leikur hafður og fyrr, vísað til þess lög um staðfesta samvist væru í endurskoðun til samræmis við samsvarandi vinnu á öðrum Norðurlöndum. Hart var deilt um þetta mál á Alþingi í desember 1999 og sú deila endurtók sig þremur mánuðum síðar þegar nýtt frumvarp um staðfesta samvist var lagt fram af dómsmálaráðherra. Þar stóð sem fyrr að ákvæði ættleiðingarlaga giltu ekki um fólk í staðfestri samvist. Allsherjarnefnd Alþingis sameinaðist þá öll um breytingatillögu sem veitti rétt til stjúpættleiðingar barna fólks í staðfestri samvist og var hún samþykkt á Alþingi 8. maí 2000. Voru þá hin nýju lög samhljóða þeim sem þjóðþing Dana hafði samþykkt ári áður og Ísland aftur komið í fremstu röð ríkja sem veitt hafa samkynhneigðum og fjölskyldum þeirra réttarbætur. Hin nýju lög um staðfesta samvist meina þó enn sem fyrr samkynhneigðum pörum að ættleiða börn sem eru þeim óskyld svonefndri frumættleiðingu, og einnig meina þau lesbíum í staðfestri samvist rétt til tæknifrjóvgunar á opinberum sjúkrahúsum. Samkynhneigðum er heldur ekki leyft að staðfesta samvist sína hjá kirkjulegum vígslumanni.

 

 

Þrátt fyrir þessa annmarka hefur hinn mælanlegi ávinningur, sem orðið hefur á Íslandi, breytt mjög gildismati þjóðarinnar til
hins betra. Á fimmtán árum hefur ný kynslóð þingmanna birst á Alþingi, fólk sem á til víðsýni sem var óþekkt fyrir tveimur áratugum – hvar í flokki sem það stendur. Vitundin um stöðu Íslands í umheiminum, nauðsyn þess að vera samferða þróuðum réttarríkjum, vex með hverju ári meðal þeirra. Pólitísku forystufólki meðal lesbía og homma er þó löngu orðið ljóst að Alþingi kemur sér hjá því að eiga frumkvæði meðal ríkja heimsins í réttarbótum til samkynhneigðra, en fylgir engu að síður fast á eftir þeim sem fremstir fara.

Meira um málefni löggjafar má finna í greinasafni Samtakanna ´78.

Leave a Reply