Skip to main content
Fréttir

Mannréttindaverðlaun Samtakanna ´78

By 30. júní, 2009No Comments

Mannréttindaverðlaun Samtakanna ´78 voru afhent á afmælishátíð Samtakanna síðastliðinn laugardag í góðviðrinu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Áður en verðlaunin voru afhent skemmti Felix Bergsson viðstöddum eins og honum einum er lagið. Haffi Haff steig svo á svið eftir afhendinguna og tók lagið. Að þessu sinni hlutu verðlaunin Birna Þórðardóttir, Fríkirkjan og Heimir Már Pétursson.

Þau Hilmar Magnússon og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir afhentu mannréttindaverðlaunin og komust svona að orði um verðlaunahafana:

Heimir Már Pétursson

Sumir menn eru þeirrar gerðar að gefast aldrei upp. Þeir eru fylgnir sér og klára þá hluti sem þeim er falið bæði hratt og örugglega. Einn þeirra sem áðurnefnd lýsing passar vel við er Heimir Már Pétursson. Hann hefur lengi tekið þátt í baráttu hinsegin fólks og allt frá árinu 2000 verið framkvæmdastjóri Hinsegin daga. Á meðan sumir í okkar hópi hikuðu og töldu gleðigöngu niður Laugaveginn hreinustu firru efaðist Heimir aldrei. Það er í okkar huga enginn efi að félagi Heimir verðskuldar svo sannarlega Mannréttindaverðlaun Samtakanna’78.

Fríkirkjan

Mörgum okkar er trúarþelið mikilvægt. Fyrir hinsegin fólk hefur ekki alltaf verið auðvelt að iðka trú sína. Í gegnum aldirnar hafa ekki margar kirkjur eða kirkjudeildir haft samúð með réttindabaráttu homma og lesbía.
Íslenskir hommar, lesbíur og annað hinsegin fólk hefur þó lengi átt skjól innan Fríkirkjunnar. Á sínum tíma gekk hún á undan öðrum kirkjum til að jafna rétt samkynhneigðra og annarra þegna þjóðfélagsins. Fyrir framlag Fríkirkjunnar til réttindabaráttu hinsegin fólks viljum við þakka í dag. Það hefur reynst okkur ómetanlegt.

Birna Þórðardóttir

Hér áðan var mikilvægi góðra liðsmanna áréttað. Það hefur löngum verið lán félagsmanna Samtakanna’78 að eiga trausta vini. Einn þeirra er kona sem lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi. Hún hefur í gegnum tíðina verið óþreytandi við að berjast gegn hvers kyns ranglæti. Jaðar- og minihlutahópar samfélagsins hafa átt í henni traustan bandamann í gegnum árin. Hana þekkjum við öll en hér er auðvitað um að ræða Birnu Þórðardóttur. Fyrir tengslin við Birnu og hispursleysi hennar í garð homma, lesbía og annars hinsegin fólks viljum við þakka.

Samtökin ´78 vilja þakka öllum þeim sem tóku þátt í afmælishátíðinni síðastliðinn laugardag. Enn fremur þakka Samtökin ´78 hjartanlega fyrir framlag verðlaunahafanna um leið og þeim er óskað til hamingju með verðlaunin. 

 

Leave a Reply