Skip to main content
Fréttir

Opið bréf til Samtakanna '78

By 2. febrúar, 2009No Comments

Ritað á 20 ára afmæli HIV-Ísland, 5.desember 2008.

Aðeins eitt trúfélag á Íslandi hefur með afgerandi hætti undanfarin áratug beitt sér fyrir því að samkynhneigðir njóti fyllilega sömu réttinda og gagnkynhneigðir og það er Fríkirkjan í Reykjavík. En þegar gildistöku nýrra laga var fagnað með mikilli viðhöfn þann 27. júní sl. litu Samtökin ´78 mjög greinilega til trúfélaga og lífsskoðunarfélaga en létu sem Fríkirkjan hafi aldrei verið til! Þegar farið var inn á heimasíðu Samtakanna seinnipart sumars var þar að finna mjög áberandi og gífurlega mikla umfjöllun um þjóðkirkjuna og samkynhneigð en í þeirri umfjöllun var aftur látið sem Fríkirkjan í Reykjavík sé ekki til! 

Tilgangur þessa bréfs er að leita upplýsinga og spyrja hvað veldur?  Ég hélt að við værum öll sameiginlega að berjast gegn samfélagslegri afneitun og útilokun?

Mér er það ljóst að Samtökunum ´78 er ekki ætlað að taka afstöðu til trúfélaga eða trúarbragða yfir höfuð.  En undanfarinn áratug hef ég sem forstöðumaður Fríkirkjunnar í Reykjavík gagnrýnt Þjóðkirkjuna fyrir tvennt.  Annarsvegar fyrir þá hróplegu mismunun á milli trúfélaga sem milljarða tengsl þjóðkirkju og ríkis valda. 

Hinsvegar hef ég gagnrýnt þjóðkirkjuna fyrir að hindra mannréttindabaráttu samkynhneigðra og fyrir að standa í gegn því að ég sem forstöðumaður annars trúfélags, fái að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Mörgum forsvarsmönnum þjóðkirkjunnar hefur sviðið undan þessari gagnrýni því hún er byggð á jafnréttis- og mannréttinda sjónarmiðum sem og kristilegum siðaboðskap.  Það var forstöðumaður þjóðkirkjunnar sem ekki alls fyrir löngu lýsti því yfir að ef samkynhneigðum væri veittur aðgangur að hjónabandinu að þá jafngilti það því að varpa hjónabandinu á sorphaugana.  Starfsmenn þjóðkirkjunnar hafa beitt aðferðum útilokunnar og afneitunar gegn mér og minni gagnrýni.  Þannig vill hún forðast umræðu og um leið vernda sín forréttindi og einokunaraðstöðu. Og þær aðferðir þjóðkirkjunnar hafa borið árangur vegna stærðar þjóðkirkjustofnunarinnar og þeirra árlegu milljarða sem hún fær frá ríki.  Við mikið ofurefli er að glíma. 

Þess vegna sárnar mér það mjög þegar mér finnst ég skynja útilokun og neikvæða afstöðu þjóðkirkjunnar til mín og Fríkirkjunnar, í gegnum Samtökin ´78.  Það veldur mér miklum vonbrigðum.  Hér er ekki um hégómlegar skrautviðurkenningar að ræða, heldur mannréttindi, réttlæti og virðingu.

Samtökunum ´78 er hér með óskað til hamingju með þá margföldu hátíð sem þau héldu þann 27. júní sl. Þá var þrjátíu ára afmæli samtakanna fagnað á þeim alþjóðlega baráttudegi hinsegin fólks.  Á þeim degi tóku einnig gildi lög sem veita prestum og forstöðumönnum trúfélaga rétt til að gefa saman pör í staðfesta samvist.

Að því tilefni var glæsileg hátíð haldin og það voru þrjár heiðursveitingar til þeirra sem höfðu skarað fram úr og átt stærstan þátt í að glæstum markmiðum væri náð. Mannréttindaverðlaun Samtakanna voru veitt sr. Bjarna Karlssyni þjóðkirkjupresti, lífsskoðunarfélaginu Siðmennt þar sem Hope Knútsson er í forsvari og Böðvari Björnssyni. 

Óska ég þeim hjartanleg til hamingju.

Um atburðinn var fjallað á forsíðum og í leiðurum helstu prentmiðla landsins sem og á ljósvakanum.  Miklu var til kostað til að tryggja að þjóðin öll fengi að vita.

 

Ekki efast ég um að verðlaunin hafi verið verðskulduð.  Böðvar Björnsson þekki ég ekki en gef mér að hann sé vel að verðlaununum komin og verðskuldi þau fyllilega. 

Siðmennt undir forystu Hope Knútsson hefur unnið aðdáunarvert starf undanfarin ár.  Líklegast var ég fyrsti forstöðumaður trúfélags hér á landi, og hugsanlega enn sá eini, til lýsa því yfir opinberlega að Siðmennt eigi fullan rétt á að vera skráð sem lífsskoðunarfélag/trúfélag og fái að njóta sömu réttinda og trúfélög, ef Siðmennt svo kýs.

Sr. Bjarni Karlsson þjóðkirkjuprestur hefur ötullega unnið að réttindamálum samkynhneigðra innan Þjóðkirkjunnar og það væri vissulega fagnaðarefni ef hann yrði næsti biskup Þjóðkirkjunnar. Þá myndi öll umræða á þeim bæ færast langt í burt frá sorphaugunum.

Vegna einlægrar virðingar minnar fyrir ofangreindum aðilum ákvað ég bíða með að rita þetta bréf í nokkra mánuði, enda beinist erindið alls ekki að þeim. 

 

En nú er tími.

Þegar við vorum þarna saman komin þann 27. júní í Hafnarhúsinu vorum við ekki síst að fagna gildistöku laganna sem veita prestum og forstöðumönnum trúfélaga rétt til að gefa saman pör í staðfesta samvist. 

 

Nýju lögin eiga fyrst og fremst við um trúfélög og rétt þeirra til að framkvæma ákveðnar athafnir. 

Nýju lögin eiga ekki við um Siðmennt eftir því sem ég fæ best skilið, þrátt fyrir þeirra mikilvæga mannréttindastarf, því Siðmennt hefur ekki stöðu trúfélags.

 

Þrátt fyrir verðskulduð verðlaun og allt sitt góða starf er sr. Bjarni Karlsson einn af mörgum starfsmönnum þess stóra trúfélags sem eitt og sér hindrar Fríkirkjuna í Reykjavík í því gefa saman samkynhneigð pör í heilagt hjónaband.

 

Meðal annars þess vegna vantaði mikilvægan hluta inn í myndina þetta kvöld.  Það hefði mátt nefna Fríkirkjuna í Reykjavík og leifa henni að njóta sannmælis!

 

Við lagasetninguna voru það ekki skoðanir einstakra sóknarpresta eða starfsmanna sem skipti máli heldur það sem sjálfir forstöðumenn trúfélaganna voru tilbúnir til að gera.  

 

 

Í rúman áratug – fyrstur forstöðumaður trúfélaga hér á landi, hef ég gefið samkynhneigða saman í hjónaband með þeim hætti og því orðalagi sem fyllilega jafngildir hjónavígslu gagnkynhneigðra.  Löggildingin hefur einfaldlega ekki fengist.  Nú er það þjóðkirkjan ein sem hamlar.
 

Í áratug – fyrstur forstöðumaður trúfélaga hér á landi, hef ég kallað eftir löggildingu á slíkum athöfnum, frá hinu opinbera. Önnur smærri trúfélög komu síðan í kjölfarið. 
 

Gild rök má færa fyrir því að ef Fríkirkjan í Reykjavík hefði ekki stigið fram fyrir skjöldu með þessum hætti, hefðu einfaldlega engin lög verði samþykkt!  Allnokkrir alþingismenn hafa tjáð mér að ef trúfélagið Fríkirkjan í Reykjavík hefði ekki stígið fram með afgerandi hætti hefðu lögin einfaldlega ekki verið samþykkt.  Ef ekkert stórt, rótgróið og ábyrgt trúfélag hefði verið tilbúið að stíga í þá átt sem lögin stefndu, þá hefðu þau ekki verið sett.
 

Í rúman áratug – fyrstur forstöðumaður trúfélaga hér á landi, hef ég lýst því yfir að orðið hjónaband eigi að gilda jafnt fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða.
 

Sem forstöðumaður Fríkirkjunnar í Reykjavík hef ég tjáð mig meira en nokkur annar forstöðumaður trúfélags á opinberum vettvangi um réttindabaráttu samkynhneigðra og stutt við hana bæði í orði og verki.
 

Ég er fyrsti forstöðumaður trúfélags hér á landi til að lýsa því yfir að fella eigi úr gildi nýsett lög um staðfesta samvist!  Þau ná of skammt.  Ein hjúskaparalög eiga að gilda um samkynhneigða og gagnkynhneigða.
 

Ég hef sem forstöðumaður trúfélags boðið samkynhneigðum að predika í predikunarstól Fríkirkjunnar á mikilvægum tímamótum. Í meira en áratug höfum við haldið guðsþjónustur til minningar um þá sem hafa látist af völdum alnæmis. Þann 13. ágúst árið 2006 þegar sr. P at Bumgardner var fengin til landsins til að predika þá bauð ég  Fríkirkjuna fram til afnota. Þar talaði ég við Grétar Einarsson sem lét líta svo út að hann hefði nokkuð um málið að segja.  Síðar sagði hann að athöfnin skyldi fara fram innan Þjóðkirkjunnar og undir hennar forsjá. 
 

Á síðasta ári kærðu átta þjóðkirkjuprestar mig til siðanefndar Prestafélags Íslands.  Ákæruatriðin sem þeir sjálfir framvísuðu voru m.a. predikanir mínar og skrif um réttindabaráttu samkynhneigðra.  Ég var sýknaður af þeim ákærum.
 

Fríkirkjan í Reykjavík er það trúfélag á Íslandi sem hefur stækkað hvað mest og telur nú um 8.000 manns.  Fjöldi samkynhneigðra tilheyrir Fríkirkjunni.  En jafn víst er að í svo stóru samfélagi bera ekki allir sama hug til málefna samkynhneigðra.  Þess vegna hefur barátta mín fyrir mannréttindum samkynhneigðra bæði kostað mig sem forstöðumann átök, hótanir, deilur og töluverðar fórnir.
 

 

Seinnihluta sumars kíkti ég inn á heimasíðu Samtakanna ´78. 

Það eru allnokkur ár síðan ég gaf formanni samtakanna góðfúslegt leyfi til að birta á heimasíðu samtakanna allt það sem er að finna á heimasíðu Fríkirkjunnar í Reykjavík, mínar greinar og  útvarpspredikanir.  Alls ekkert efni frá mér var þar að finna.

 

En aftur á móti var að finna á áberandi stað á forsíðu, hnapp með orðunum “Samkynhneigð og kirkja” -að mig minnir.  Þar var gífurlega mikið efni að finna.  En greinilegt var að orðið “kirkja” átti aðeins við um eitt trúfélag þ.a.e.s. þjóðkirkjuna.  Þar var þess gætt að Fríkirkjan í Reykjavík var hvergi nefnd og látið sem hún væri ekki til.  En þar aftur á móti mátti og má eflaust enn finna heilmikið lof um þjóðkirkjuna og hennar meðhöndlun á málefnum samkynhneigðra sbr. “Með samþykkt þess (form um staðfesta samvist) verður þjóðkirkjan fyrsta þjóðkirkja í heimi sem getur lagalega gefið saman samkynhneigð pör og þetta eru vissuleg merkileg tímamót”.

Þar á heimasíðu Samtakanna 78, er hampað því trúfélagi sem eitt og sér hefur komið í veg fyrir að samkynhneigðir nái fram fullu jafnræði á við gagnkynhneigða og einnig hindrað að ég sem forstöðumaður annars sjálfstæðs trúfélags fái að gefa saman samkynhneigða í heilagt hjónaband.

 

Þjóðkirkjan sem ein hindrar og hamlar vill einnig eigna sér og láta þakka sér

allt það sem vinnst í baráttunni gegn henni og hennar stefnu.  Þannig geta milljarða stofnanir leyft sér að vinna en það er hvorki siðlegt né kristilegt.

 

Að lokum brot úr útvarpspredikun minni á ruv 23.11.sl.:

“…nefni ég afstöðu þjóðkirkjunnar til hjónabanda samkynhneigðra. Þar hefðum við Íslendingar svo sannarlega getað tekið frumkvæði og stígið fram fyrir skjöldu, á sviði mannréttinda og kristilegs kærleika á alþjóðavísu, í samfélagi þjóðanna  – og sett glæsilegt fordæmi – ekki með því að fara offarir á sviði bankamála – og græðgi –  heldur á sviði samhygðar og mannréttinda.  Öll lagaumgjörð landsins hafði verið aðlöguð til að tryggja samkynhneigðum fullt jafnræði á við gagnkynhneigða, á öllum sviðum – aðeins eitt mál stóð út af borðinu. 

En Nei.  Forsvarsmenn þjóðkirkjunnar komu í veg fyrir fullan sigur, fullt jafnræði.  Þar fór þjóðkirkjan gegn augljósum vilja meirihluta þjóðarinnar, og þá um leið gegn hinni almennu kirkju sem gefur starfsmönnum ríkistrúar-stofnunarinnar sitt vægi. Þar fór þjóðkirkjan gegn eigin guðfræðilegum álitum, gegn kærleiksboðskap Krists.  Og þjóðkirkjustofnunin leitaði skjóls og réttlætingar langt út fyrir landsteinanna til afturhaldssömustu kirkjustofnana á yfirborði jarðar.  það var dapurleg framganga. 

Í heilan áratug hef ég gefið saman samkynhneigða í heilagt hjónaband og nú er það þjóðkirkjan ein sem kemur í veg fyrir að slíkar helgar athafnir fái löggildingu og viðurkenningu frá hinu opinbera.

Og enn dapurlegra var það síðan að lesa það sem haft var eftir Dómkirkjupresti, nokkru eftir að hin almenna umræða um hjónabönd samkynhneigðra hafði farið fram og ný mál voru komin á dagskrá á hinum opinbera vettvangi – að haft var eftir Dómkirkjupresti í drottningarviðtali í fölmiðlum að þjóðkirkjan sé afar umburðarlynd og að þjóðkirkjan – nú orðrétt tilvitnun: “sé eina þjóðkirkjan í heiminum sem samþykkir hjónaband samkynhneigðra”. tilv. lýkur.”

Þessi orð sr. Hjálmars Jónssonar Dómkirkjuprest er að finna í júlí útgáfu Vesturbæjarblaðsins nú í sumar.  Hafa hagsmuna- og baráttusamtök samkynhneigðra ekkert við svona fullyrðingu að athuga? 

Gagnrýni mín á þjóðkirkjuna er grundvölluð á hugsjón jafnræðis og mannréttinda. Starfsmenn þjóðkirkjunnar hafa beitt aðferðum útilokunnar og afneitunar gegn mér. Í stað þess að bregðast málefnalega við skapandi gagnrýni reyna starfsmenn biskupsstofu að draga umræðuna niður á lágkúrulegt persónulegt plan og saka mig um að ráðast á alla þá sem til þjóðkirkjunnar leita.

Fulltrúi biskups?
Eitt af því sem ég fann á heimasíðu Samtakanna ´78 er að hr. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands skipaði á sínum tíma þriggja manna starfshóp til að vinna að málefnum samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar og þar á Grétar nokkur Einarsson sæti.  Hann hefur verið einn af forsvarsmönnum fyrir ÁST sem er áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf innan vébanda Samtakanna ´78. Sá hópur er sagður eiga að vera óháður kirkjudeildum eða trúarflokkum. 

En eftir síðustu útvarpspredikun mína í lok nóvember sl. bloggaði Grétar sem virkur meðlimur þjóðkirkjunnar ”Ég gerði heiðarlega tilraun fyrir margt löngu að athuga hvort Fríkirkjan væri eitthvað fyrir mig.  Því miður fann ég ekki trúarþörf minni fullnægt þar.  Ég fann hins vegar trúarþörf minni fullnægt innan þjóðkirkjunnar og þar líður mér mjög vel, betur en í nokkru því trúfélagi sem ég hef kynnt mér.  Um leið og Hjörtur Magni gagnrýnir þjóðkirkjuna og hennar starf er hann að gera lítið úr þeim sem finna trúarþörf sinni farveg innan hennar, leita til hennar í sorg sem gleði.  Hann gerir lítið úr starfi allra þeirra sem þar vinna”

Þessi orð eins af forsvarsmönnum áhugahóps um trúmál innan Samtakanna ´78, hefði biskup Íslands sjálfur getað ritað, sá hinn sami og tengdi samkynhneigða við sorphaugana. 

Sem betur fer er hverjum og einum frjálst að velja sér trúfélag eða standa utan þeirra.  Og öllum er frjálst að blogga eins og þeim lystir. En er hér kannski komin hluti útskýringarinnar á þeim furðulegu skilaboðum sem ég fæ frá Samtökunum?  Það er engu líkara en að einn ef ekki fleiri starfsmenn Þjóðkirkjunnar hafi komið hér að málum.

Það er í raun furðuleg tilfinning að skynja útilokun og jafnvel andúð úr þeirri átt sem stuðningur og samhygð ætti að koma, einkum eftir að miklu hefur verið fórnað fyrir málstaðinn.  Það hæfir einhvern veginn ekki samtökum sem starfa undir formerkjum jafnræðis og mannréttinda, að gefa slík skilaboð.

Getur einhver hjálpað mér að skilja þessi furðulegu skilaboð sem mér finnst ég skynja frá Samtökunum ´78?

Höldum síðan baráttunni áfram – saman.  Aðrar þjóðir eru þegar búnar að kasta lögunum um staðfesta samvist út um gluggann og hafa tekið upp eina heildar löggjöf.  Við getum verið næst!

Með góðfúslegri ósk um að bréf þetta fáist birt á heimasíðu Samtakanna ´78.

Með vinsemd og virðingu,
Hjörtur Magni Jóhannsson
Forstöðumaður og prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík

 

] ]>

Leave a Reply