Skip to main content
search
AlþjóðamálFréttirHagsmunabaráttaSamkynhneigðTvíkynhneigð

Ræða formanns við sendiráð Rússlands 5. maí 2017

By 5. maí, 2017maí 28th, 2020No Comments

Í Tsjetsjeníu er verið að hneppa homma og tvíkynhneigða karla í fangabúðir, svelta þá, berja og pynta, þvinga upp úr þeim upplýsingar um meðbræður sína og hvetja fjölskyldur þeirra til að drepa þá. Að minnsta kosti þrír menn hafa látið lífið: einn af áverkunum sem hann hlaut í haldi og tveir fyrir hendi fjölskyldna sinna. Aðrir hafa óskað eftir hjálp við að komast undan en síðan horfið sporlaust. Hinsegin samtökin Russian LGBT Network vinna hörðum höndum að því að koma fólki í öruggt skjól en ástandið fer versnandi.

Leiðtogi Tsjetsjeníu, Ramzan Kadyrov, hefur að sögn breska utanríkisráðuneytisins einsett sér að útrýma hommum og tvíkynhneigðum körlum úr Tsjetsjeníu. Hann er meira að segja kominn með frest: 26. maí næstkomandi, en þá hefst Ramadan. Kadyrov og félagar neita staðfastlega sök, en hómófóbían sem þeir tjá í sömu andrá er yfirgengileg. „Ef slíkt fólk væri til í Tsjetsjeníu þyrfti lögreglan ekki að hafa áhyggjur af því, því þeirra eigin ættingjar myndu senda þá á stað þaðan sem þeir ættu ekki afturkvæmt,“ sagði talsmaður Kadyrovs í viðtali og neitar því að hinsegin fólk sé til í lýðveldinu. „Stefna er mótuð til að bregðast við vandamáli. Ekkert vandamál er til staðar, svo það er engin stefna.“

Hjá tsjetsjensku mannréttindanefndinni tekur ekki betra við. Fulltrúi í nefndinni, Kheda Saratova, segir: „Ég hef ekki fengið eina einustu beiðni þessu tengda. Jafnvel þótt ég fengi beiðni myndi ég ekki taka hana til greina. Sérhver Tsjetsjeni sem virðir hefðir okkar og menningu mun elta slíkan einstakling uppi án nokkurrar hjálpar frá yfirvöldum og gera allt í sínu valdi til að tryggja að þess konar fólk fyrirfinnist ekki í okkar samfélagi.“

Við höfum séð þetta allt áður. Við höfum séð það þegar þýskir menn sem grunaðir voru um samkynhneigð voru settir í útrýmingarbúðir og merktir með bleikum þríhyrningum eins og þeim sem við berum í dag. Við höfum séð það þegar yfirvöld um víða veröld ætluðu að halda að sér höndum og leyfa alnæminu að útrýma hommum. Við höfum séð það þar sem lög eru sett sem gera okkur réttdræp, sem gera tilvist okkar að lögbroti, sem meina okkur að tjá okkur. En árið er 2017 og nú er nóg komið. Hingað og ekki lengra!

Við skorum á fulltrúa íslenskra stjórnvalda að nýta krafta sína til knýja fram inngrip í ástandið, bæði á alþjóðlegum vettvangi og í beinum samskiptum við rússnesk stjórnvöld. Þessa glæpi þarf að stöðva, rannsaka og refsa fyrir. Og það verður að tryggja að þolendur komist í öruggt skjól. Gefum það skýrt út að við fordæmum hómófóbíu og hin grófu mannréttindabrot sem eiga sér stað á grundvelli hennar!

Við fulltrúa Rússlands á Íslandi segjum við:

Tsjetsjenía er hluti af Rússneska sambandsríkinu. Rússlands hefur háð og unnið stríð til þess að halda þar yfirráðum. Þið getið ekki skorast undan ábyrgð þegar verið er að murka lífið úr hommum og tvíkynhneigðum körlum í Tsjetsjeníu.

Það er skammarlegt að starfsmenn sendiráðsins skuli halda því fram við mótmælendur að margstaðfestar fréttir af útrýmingarherferð séu aprílgabb. Það er ekkert annað en stuðningur við það viðbjóðslega mannhatur sem tsjetsjensk yfirvöld hafa tjáð. Meðan þið lítið framhjá þessum voðaverkum og afneitið þeim eruð þið samsek.

Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir: „Enginn skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“ Rússland hefur samþykkt þá yfirlýsingu – yfirlýsingu sem er nú fótum troðin. Rússnesk yfirvöld verða að grípa inn í tafarlaust, rannsaka þessa glæpi til hlítar og draga hina seku til ábyrgðar.

Afstöðuleysi er afstaða með óbreyttu ástandi.

Takið afstöðu. Virðið skuldbindingar ykkar.

Burt með hómófóbíu!

Leave a Reply