Skip to main content
search
Fréttir

Regnbogakort Evrópu 2016

By 10. maí, 2016No Comments

Ísland uppfyllir 59% skilyrða Regnbogakortsins

Í dag opinberuðu Evrópusamtökin ILGA-Europe Regnbogakort Evrópu 2016
​​Kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks um alla Evrópu. Ísland uppfyllir 59% af þeim atriðum sem sett eru fram og er í fjórtánda sæti, neðst af Norðurlöndunum og á svipuðum stað og Grikkland.

 

Það sem dregur Ísland helst niður á þessum lista er skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Einnig er löggjöf um réttindi trans fólks ábótavant enda er enn krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til þess að þeir einstaklingar geti fengið nafni sínu og kyni breytt í þjóðskrá. Þá er ekki búið að banna ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og líkamleg friðhelgi þeirra er því ekki tryggð.

Malta skaust á toppinn á Regnbogakortinu með 88% uppfylltra skilyrða. Vega þar þyngst lög sem sett voru árið 2014 sem veita trans og intersex fólki aukinn rétt yfir eigin líkömum. Þá getur trans fólk fengið nafnabreytingu og breytingu á kyn í þjóðskrá án þess að vera greind með geðsjúkdóm og læknisfræðilega ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna án þeirra samþykkis hafa verið bönnuð. Neðst á listanum eru hinsvegar Azerbaijan, Armenía og Rússland. Þar skortir verulega á lagalega vernd hinsegin fólks. Einnig eru bæði hinsegin einstaklingum og félagasamtökum sem berjast fyrir mannréttindum og frelsi settar sífellt þröngari skorður og í sumum tilvikum verða þau fyrir ofbeldi og ofsóknum.

Í Annál ILGA-Europe (Annual Review) kaflanum fyrir Ísland er m.a. rætt um hina framsýnu en umdeildu ákvörðun Hafnafjarðarbæjar að fara í samvinnu við Samtökin ’78 við að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir kennara og nemendur sveitarfélagsins ásamt þeirri hatursorðræðu sem spratt upp í kjölfarið og meðhöndlun lögreglunnar á kærum Samtakanna.

Í heildina er staða hinsegin fólks í Evrópu að verða sífellt ójafnari. Mörg þeirra landa sem tóku frumkvæði á árum áður við að bæta lagalega stöðu hinsegin fólks hafa látið þar við sitja og standa því í stað á Regnbogakortinu. Þetta á við um Ísland. Í nokkrum löndum hefur staðan versnað en aðeins örfá lönd bæta stöðu sína.

Samtökin ’78 hvetja íslensk stjórnvöld til að taka Möltu sér til fyrirmyndar og vinna að fullu jafnrétti og lagalegri vernd hinsegin fólks til jafns við aðra hér á landi.  

Leave a Reply