Skip to main content
FréttirViðburður

Regnbogavika 17. – 21. maí

By 20. maí, 2021júní 10th, 2021No Comments

Samtökin ‘78 boðuðu til sérstakrar regnbogaviku dagana 17. – 21. maí. Vikan hófst alþjóðadegi gegn hinsegin fordómum, IDAHOBIT (International Day Against Homophobia, Biphobia and Transphobia). Síðar í vikunni fór fram leiðtogafundur Norðurskautsráðsins þar sem Ísland lauk formlega tveggja ára formennskutíð sínni og lét keflið ganga áfram til Rússlands. Í tilefni fundarins komu bæði utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands hingað til lands og funduðu. Auk þeirra sóttu fulltrúar annarra ríkja Norðurskautsráðsins fundinn en ráðið er samráðsvettvangur ríkja sem eiga landsvæði norðan heimskautsbaugs.

 

Í tilefni þessarar viðburðaríku viku hvöttu Samtökin landsfólk til að sýna stuðning við hinsegin fólk í verki og flagga regnbogafánum. Fjölmörg tóku undir þessa áskorun, bæði einstaklingar og fyrirtæki, og gekk verulega á lager Hinsegin kaupfélagsins af regnbogafánum. Samtökunum bárust skeyti víða að þar sem flaggað var, allt frá Glerárkirkju til Veganbúðarinnar og má segja að vikan hafi verið gífurlega vel heppnuð. 

 

Regnbogavikan náði hámarki sínu að fimmtudagsmorgni þegar Samtökin boðuðu til samstöðumótmæla framan við Hörpu meðan erlendir ráðamenn mættu hver á eftir öðrum til fundar. Mótmælendur hittust snemma morguns á (tímabundinni) skrifstofu Samtakanna við Hverfisgötu, sóttu sér kaffibolla og regnbogafána og örkuðu síðan í litskrúðugri fylkingu niður að Hörpu. Athygli mótmælanna var sérstaklega beint að rússneskum yfirvöldum, vegna daglegra mannréttindabrota gagnvart hinsegin fólki þar í landi. Þegar Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, bar að garði kölluðu mótmælendur til hans: “Hey Lavrov, Human Rights!” endurtekið og leyfðu regnbogafánunum að blakta. Formaður og varaformaður skrifuðu grein sem birt var á Vísi þar sem mannréttindabrot og skipulagðar ofsóknir gegn hinsegin fólki í Rússlandi voru tíunduð. Greinina má finna hér.