Skip to main content

Samtökin ’78 héldu samverustund síðasta laugardag. Við erum afar þakklát fyrir þann dýrmæta stuðning sem við höfum fundið fyrir á síðustu vikum, og jafnframt þakklát því öfluga samfélagi sem stendur á bakvið Samtökin ’78 á degi hverjum. Samverustundin var falleg, nauðsynleg og upplífgandi og við þökkum þeim 200 einstaklingum sem sáu sér fært að mæta og sýna hvort öðru stuning þrátt fyrir stuttan fyrirvara. Á samverustundinni flutti Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna ’78 og starfandi formaður, eftirfarandi ræðu:

Síðasta vika hefur verið sérstaklega erfið. Orðin sem látin hafa verið falla um hinsegin fólk eru mörg virkilega viðbjóðsleg, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla ekki að hafa þessa andstyggilegu og rætnu orðræðu eftir hér. Við vitum hvað hefur verið sagt, það er það sama og fólk sagði fyrir kvartöld eða jafnvel hálfri öld síðan.
Við höfum svo sem farið í gegnum áþekkar umræður undanfarin ár, enda bakslagið verið að raungerast fyrir augunum á okkur. Atburðir síðustu daga hafa því kannski ekki komið okkur að óvörum en fyrir okkur mörg hefur líklega verið sérstaklega erfitt að sjá fólk sem maður taldi vel meinandi og hugsandi segja særandi og erfiða hluti.

En þótt aðdragandinn hafi verið langur og upptakturinn verið okkur ljós þá breytir það þó ekki því að mörg í hinsegin samfélaginu eiga um sárt að binda vegna þessarar umræðu, eru kvíðin, sorgmædd, reið og hrædd. Og það er mikilvægt að segja að það eru allt skiljanleg og eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum sem þessum.

Þess vegna viljum við, stjórn og starfsfólk Samtakanna ´78, að þið vitið að við erum hér. Á skrifstofunni vinna sjö aðilar í fullu starfi, auk stjórnar og fjölmargra verktaka í ráðgjöf og fræðslu. Við erum til staðar og okkar hlutverk er að vinna fyrir ykkur, fræða, veita ráðgjöf, aðstoða og styðja á allan þann hátt sem við mögulega getum. Taka slaginn sem erfitt er að taka ein, einn eða eitt. Við erum til staðar sama hvað, jafnvel bara til að gefa knús, spjalla yfir kaffibolla og hlusta. Við erum hér fyrir ykkur öll enda voru Samtökin ´78 ekki bara stofnuð sem baráttusamtök heldur ekki síður sem griðastaður okkar hinsegin fólks, eða homma og lesbía eins og nafn félagsins var þá. Þetta hlutverk okkar hefur ekki breyst þó að hópunum sem tilheyra okkar fallega og fjölbreytta hinsegin samfélagi hafi fjölgað á síðustu 45 árum.

Mig langar að nota þetta tækifæri fyrir hönd stjórnar, til að þakka starfsfólki Samtakanna sérstaklega:
Bergrún, Daníel, Íris Tanja, Sigga Birna, Tótla, Villi Ósk og Þorbjörg takk fyrir að standa alltaf vaktina. Takk fyrir að standa vaktina undir ótrúlegu álagi. Takk fyrir að sýna yfirvegun, fagmennsku og færni í aðstæðum sem oft eru ekkert annað en beinar persónulegar árásir. Takk fyrir að láta deigan aldrei síga nema rétt til þess að ná andanum og halda svo ótrauð áfram. Takk fyrir passa okkur – við gerum okkar besta til að passa ykkur líka.

Samtökin ´78 hafa sinnt mannréttindabaráttu hinsegin fólks í 45 ár, og mikið hefur áunnist á þeim tíma. Bæði þegar kemur að samfélagslegri umræðu og lagalegum réttindum hinsegin fólks, þar má til dæmis nefna ein hjúskaparlög, réttinn til að ættleiða börn, kynrænt sjálfræði og nú síðast bann við bælingarmeðferðum. Félagslega hefur líka margt breyst, gott og fallegt dæmi um það er að nú mæta vel yfir hundrað ungmenni í hinsegin félagsmiðstöðina í hverri einustu viku.

En þetta er baráttan endalausa. Við þurfum að halda áfram – enda er mannréttindabaráttu gjarnan líkt við langhlaup. En mannréttindabarátta er líka eins og boðhlaup. Við erum heilt lið af fólki, þar sem framtak hvers og eins stuðlar að lokaútkomunni. Þátttaka og framlag hvers og eins okkar er nefnilega gríðarlega mikilvægt því ekkert okkar getur staðið í baráttunni eitt.

Það þarf mörg og við erum svo sannarlega mörg!

Það er einmitt þess vegna sem okkur hefur orðið jafn ágengt í baráttunni og raun ber vitni. Við þurfum fjölbreytt baráttufólk og fjölbreytta baráttu – við þurfum breiða samstöðu þvert á skoðanir okkar á einstaka málum. Saman erum við alltaf sterkari, það hefur sannast í mannkynssögunni löngu áður en Samtökin ´78 voru stofnuð.

Það þarf bæði einstaklinga og samtök, fólk í fjölmiðlum og í stjórnunarstöðum, gott fólk í kommentakerfum og skólakerfum, á kaffistofum og í facebook hópum. Það þarf fólk sem er tilbúið að opna á sárin sín fyrir alþjóð í menningu og listum, það þarf fólk sem að berst með kjafti og klóm fyrir lagabreytingum. Það þarf fyndin meme og erfiðar samræður, það þarf fólk sem fræðir ættingja sína og vini, fólk sem sussar á bull. Það þarf fólk sem hlustar og peppar og er til staðar með opinn faðm og kærleiksrík hjörtu.
Hvert og eitt okkar er mikilvægur hlekkur í baráttukeðjunni. Takk öllsömul fyrir baráttuna, hvert einasta handtak skiptir meira máli en orð í einni ræðu fá lýst.

Það er eðlilegt og skiljanlegt að stundum líði okkur eins og okkur verði ekkert ágengt – og þá er um að gera að staldra við, horfa yfir farin veg. Því að það er líka eðlilegt að þreytast og þurfa að hvíla sig, á meðan taka önnur við. Við þurfum líka styrk og stuðning af hvert öðru, við þurfum að spegla og sjá hvort sú vegferð sem við erum á er hin rétta – því að þegar stormar geysa, eins nú, getur stundum verið erfitt að halda skýrri sýn. Þá er mikilvægt að muna að við höfum hvert annað að halla okkur að.
Ég endurtek að mannréttindabaráttan er barátta margra. Flest okkar verða sennilega nafnlausir hlekkir í sögunni en það þýðir ekki að framlag okkar sé ekki jafn mikilvægt fyrir því. Við erum heilt samfélag og þannig hefur þessi barátta unnist og mun halda áfram að vinnast.

En þótt síðustu dagar hafi verið erfiðir, sársaukafullur og andstyggilegir, þá er samt eitt sem ég tel að við getum verið sérstaklega þakklát fyrir. Fjöldi fólks, samtaka, fyrirtækja og stofnana, hafa stigið fram og lýst afdráttarlausum stuðningi við tilvist okkar, sýnileika og baráttu. Forsætisráðherra, ráðuneyti menntamála, sveitarfélög, íþróttabandalög og fleiri hafa sent frá sér yfirlýsingar og tekið hefur verið á aðgerðum þeirra sem eru fjandsamleg okkur af yfirvegun og festu. Hinn þögli meirihluti sem styður okkur hefur rofið þögnina og er kominn með okkur á árarnar svo um munar. Ég er vongóð um að svo verði áfram og vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir þennan ómetanlega stuðning.

Já – síðustu dagar hafa verið sérstaklega erfðir og það er mikilvægt að bera kennsl á erfiðar tilfinningar og sársauka. Það er mikilvægt að gefa sér ráðrúm til þess að finna tilfinningar sínar, skilja þær og finna til samkenndar með sjálfum okkur. Það sem á okkur dynur er ekki sanngjarnt. Alls ekki. Gefum okkur þess vegna tíma til að upplifa og góðkenna þessar tilfinningar áður en við stöndum aftur á fætur og höldum baráttunni áfram – saman. Við þurfum að halda áfram til þess að heiðra þau sem á undan okkur komu og töpuðu jafnvel lífi sínu í baráttunni og við þurfum að halda áfram til að heiðra þau sem á eftir okkur koma, til dæmis fyrir krakkana sem mæta – og eiga eftir að mæta – í hinsegin félagsmiðstöðina. Og við þurfum að halda áfram til að heiðra okkur sjálf og okkar eigin baráttu.

Í öllum þeim glundroða og ógeði sem dunið hefur á okkur að undanförnu megum við ekki gleyma því að gleði okkar og fögnuður yfir okkar eigin hinsegin tilveru er í eðli sínu eitt það róttækasta sem við getum gert. Í mínum huga er Gleðigangan til að mynda táknmynd þess og því ansi viðeigandi að við séum saman komin við Ingólfstorg þar Hinsegin dagar voru fyrst haldnir í júní fyrir 24 árum síðan.
Gleðin er róttækt afl og hér í dag finn ég gleði. Því fleiri en ein tilfinning getur verið rétt og sönn á sama tíma þrátt fyrir að virðast mótsagnakenndar. Veröldin er furðuleg og flókin, og þrátt fyrir að vera reið, sorgmædd, þreytt og viðkvæm (örlítið kvefuð!) eftir atburði síðustu daga er ég samt glöð.
Ég er glöð að sjá ykkur öll hér. Ég er glöð að sjá ykkur og þekkja sjálfa mig í þessum hóp. Ég er glöð að vera ekki ein og hrædd heldur eiga ykkur, hinsegin fjölskylduna mína. Því það er sama hversu ólík sjónarmið hópar innan samfélagsins okkar kunna að hafa, hversu sammála eða ósammála við erum um einstök atriði, þá erum við sameinuð í því að berjast fyrir réttindum okkar, tilvist, virðingu og sýnileika. Það sem aðgreinir okkur innan hinsegin samfélagsins er líka það sem sameinar okkur og af því megum við vera stolt.

Reynum því að njóta samverunnar með hinsegin fjölskyldunni hér í dag. Það höfum við raunar alltaf gert. Sama hver staða okkar í samfélaginu hefur verið þá höfum við alltaf fundið hvort annað, skemmt okkur saman og glaðst. Því tilvera okkar er, og hefur alltaf verið, svo mikið meira en þessi barátta.

Við eigum skilið að taka pláss.
Við eigum skilið að taka pláss með gleði.
Róttækri hinsegin gleði.

Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna ’78