Skip to main content
search
Fréttir

Samkynhneigðir grunnskólanemendur

By 17. júlí, 2005No Comments

Samkynhneigðir grunnskólanemendur fara leynt og virðist sem tilvist þeirra hafi ekki verið gefið svigrúm enn sem komið er. Staða þessara nemenda hefur ekki verið tekin alvarlega. Hvergi hefur þess verið getið að sumir þessara nemenda séu í ógöngum og eigi erfitt uppdráttar á unglingsárum sínum. Vandi þeirra er oftar en ekki skilgreindur á röngum forsendum þar sem samkynhneigð er aldrei tekin inn sem ein möguleg ástæða þess að viðkomandi eigi í tilfinningalegum erfiðleikum. Virðist sem skólafólk trúi því að innan grunnskólanna fyrirfinnist ekki samkynhneigð ungmenni.

Hvort menn halda að sú kynhneigð komi seinna fram í mannfólkinu en gagnkynhneigð er ekki gott að segja til um og ekki hægt að fullyrða neitt um það. En af frásögnum ungra lesbía og homma má greina að hér sé vandi á ferð og mörg þessara ungmenna hafa átt sín erfiðustu ár í efstu bekkjum grunnskólans. Þar virtist engin leið til þess að greiða þeim götu í átt að sátt og uppbyggingu sjálfsmyndar sem oftar en ekki hefur skælst vegna neikvæðra fyrirfram hugmynda þeirra sjálfra og annarra um það hvað er að vera lesbía eða hommi. Umhverfið virtist ekki bjóða upp á þann möguleika. Má segja að það sé meginvandinn: Hvorki umsjónarkennarar né námsráðgjafar virðast taka með í reikninginn að meðal nemenda þeirra leynist einstaklingar sem þurfa að þola þrúgandi þögn um tilvist sína.

Sara Dögg Jónsdóttir á ráðstefnu á Selfossi í apríl 2004.

Leave a Reply