Skip to main content
search
Fréttir

Samkynhneigður páskabolti – Iceland Express Cup 2009

By 12. febrúar, 2009No Comments

Alþjóðlegt fótboltamót samkynhneigðra, Iceland Express Cup, verður haldið hér á landi um páskana á vegum íþróttafélags samkynhneigðra karla, St. Styrmir. Þegar hafa átta erlend lið skráð sig, þar á meðal frá Danmörku, Englandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Einnig taka þátt tvö til þrjú lið á vegum Styrmis, auk nýstofnaðs íslensks lesbíuliðs, Lez Jungle, sem mun keppa við erlent lesbíulið.

„Við höfum verið að keppa erlendis undanfarin ár. Við erum búnir að byggja upp gott tengslanet við þessi lið, sérstaklega frá London og Norðurlöndunum og okkur datt í hug að það gæti verið gaman að geta haldið svona mót á Íslandi,” segir Alfreð Hauksson, formaður Styrmis. „Eins og aðstæður hafa þróast virðist þessi tímasetning hafa hentað ágætlega. Krónan er veik og það virðist vera áhugi hjá ferðamönnum að koma til landsins.”

Kristjana Guðrún Arnarsdóttir hjá Lez Jungle segir að liðið hafi verið stofnað síðasta sumar í tengslum við samnefnda heimasíðu, Lezjungle.com, sem hún stofnaði ásamt kærustu sinni við góðar undirtektir. Stefnir liðið á að taka þátt í Ólympíuleikum samkynhneigðra sem verða haldnir í Danmörku næsta sumar.

Í tengslum við páskamótið verða farnar kynnisferðir í Bláa lónið og hugsanlega í rafting, köfun eða hellaferðir. Ball verður síðan haldið þar sem Páll Óskar verður líklega plötusnúður.

Ekki er stefnt að því að halda mótið hér á landi árlega, heldur frekar annað eða þriðja hvert ár og myndu hin Norðurlöndin halda það þess á milli. Nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðunni Ststyrmir.is. – fb

Þessi grein var upprunalega birt í Fréttablaðinu 2. febrúar 2009.

Leave a Reply