Skip to main content
Fréttir

Samstarfssamningur við Hafnarfjörð í höfn

By 11. desember, 2015No Comments

Við erum stolt að geta sagt frá því að í morgun, 11. desember 2015 var undirritaður samstarfssamningur Samtakanna við Hafnarfjarðarbæ. Hér á eftir fer sameiginleg yfirlýsing bæsins og samtakanna vegna málsins:

Hafnarfjarðarkaupstaður og Samtökin ´78 undirrituðu í dag, föstudaginn 11. desember 2015, samstarfssamning um fræðslusamstarf sem hefst á árinu 2016. Meginmarkmið samningsins er að auka þjónustu við nemendur og starfsfólk grunnskólanna með fræðslu um málefni hinseigin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda.

 Meginefni samningsins er að starfsfólk á vegum Samtakanna ´78 standi fyrir fræðslu fyrir allt starfsfólk grunnskóla bæjarins á skólaárinu 2016-2017. Sú fræðsla miðar að því að gera starfsfólk skólanna hæfara til að þekkja, skilja og ræða málefnis hinseigin fólks í skólastarfi í samræmi við áherslur aðalnámskrár grunnskóla. Stefnt er að því að árlega eftir það, og eftir því sem við á, fái nýtt starfsfólk grunnskólanna umrædda fræðslu. Sömuleiðis mun starfsfólk frá Samtökunum ´78 vera árlega með fræðslu í einum árgangi í grunnskólunum og fyrir valinu varð 8. bekkur. Sú fræðsla hefst einnig skólaárið 2016-2017. Þá munu Samtökin ´78 vera til ráðgjafar fyrir bæjaryfirvöld varðandi námskrárgerð sem tengist málefnum hinseigin fólks og þátt þeirra innan námssviðsins samfélagsgreinar í grunnskólunum. Einnig felur samningurinn í sér að ungmenni úr Hafnarfirði geti leitað eftir þjónustu Samtakanna ´78 eftir þörfum án endurgjalds. Fyrir þjónustu Samtakanna ´78 við grunnskóla bæjarins og hafnfirsk ungmenni greiðir bærinn eðlilegt endurgjald til samtakanna í samræmi við veitta þjónustu.

 Samningurinn gildir í eitt ár en gert er ráð fyrir reglulegri endurnýjun hans árlega meðan tilefni gefst til og nauðsyn er á umræddri fræðslu.

 Hafnarfjarðarkaupstaður og Samtökin ´78 fagna bæði samstarfssamningnum og vænta góðs af honum. Þess er vænst að samstarfið leiði til aukinnar þekkingar og vitundarvakningar meðal starfsfólks og nemenda grunnskólanna um málefni er varða kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni fólks. Rannsóknir sýna að slík þekking dregur úr einelti í garð hinsegin nemenda og eykur lífsgæði þeirra. Það er í sjálfu sér mannréttindamál að einstaklingar fái viðeigandi fræðslu sem hjálpar þeim til að lifa farsælu lífi og nýta hæfileika sína. Þá er það einnig mannréttindamál að starfsfólk skóla og samnemendur hafi þá grundvallarþekkingu sem þarf til undirbúnings fyrir leik og störf í margbreytilegu samfélagi sem virðir sérstöðu hvers og eins. Um það snýst þessi samstarfssamningur Hafnarfjarðarkaupstaðar og Samtakanna ´78.
 

Leave a Reply