Skip to main content
search
AlþjóðamálFréttirTilkynning

Samstöðufundur með ítölskum hinsegin fjölskyldum

By 27. ágúst, 2023No Comments
  • Um 50 manns mættu til samstöðufundar sem Samtökin ‘78 boðuðu með ítölskum hinsegin fjölskyldum sunnudaginn 27. ágúst kl. 12 fyrir utan Hörpu

  • Ríkisstjórn Giorgiu Meloni hefur frá því hún tók við völdum unnið gegn hinsegin fólki og þá sérstaklega fjölskyldurétti þeirra í nafni ‘hefðbundins’ fjölskyldumynsturs.

  • Lagabreytingar valda því að aðeins “líffræðilegur” foreldri er skráður á opinber fæðingarvottorð barna.

  • Í a.m.k. einni borg hafa mæður sem ekki gengu með börn sín nú þegar verið fjarlægðar af áður útgefnum vottorðum, sem setur réttindi þeirra og barnanna í uppnám.

  • Hér er um að ræða grófa aðför að ítölsku hinsegin fólki og börnum þeirra.

Um 50 manns mættu til að sýna hinsegin fjölskyldum samhug og stuðning en ríkisstjórn ríkisstjórn Giorgiu Meloni hefur frá því hún tók við völdum unnið gegn hinsegin fólki og þá sérstaklega fjölskyldurétti þeirra í nafni ‘hefðbundins’ fjölskyldumynsturs. Í nokkur ár hafa sumar ítalskar borgir skráð börn samkynja para sem eru getin erlendis þannig að báðar mæður eða báðir feður teljist foreldrar barnsins á fæðingarvottorði. Þessu hefur Giorgia Meloni sett sig alfarið upp á móti og gefið út tilmæli til borga um að hætta slíkum skráningum, með þeim rökum að aðeins ‘líffræðilegar’ mæður barna skuli skráðar í opinber fæðingarvottorð. Í a.m.k. einni borg hafa mæður sem ekki gengu með börn sín nú þegar verið fjarlægðar af áður útgefnum vottorðum, sem setur réttindi þeirra og barnanna í uppnám.,

“Giorgia Meloni lýsir sjálfri sér sem “kristinni móðir” […] hún segist vilja standa vörð um hin “hefðbundnu” fjölskyldugildi sem byggja helst á ást og viðurkenningu. Það skýtur því skökku við að nú sé ríkisstjórn Ítalíu markvisst að vinna gegn fjölskyldum. En það er áætlað að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á Ítalíu muni hafa áhrif á um 150.000 börn og foreldra þeirra,“ segir Eva María Þórarinsdóttir Lange, fyrrum formaður Hinsegin daga og stofnandi Pink Iceland, en hún ólst upp á Ítalíu.

Hér er um að ræða grófa aðför að ítölsku hinsegin fólki og börnum þeirra. Ríkisstjórn Giorgiu Meloni setur hættulegt fordæmi í Evrópusambandsríki sem snertir ekki aðeins ítalskar fjölskyldur heldur heftir einnig ferða- og búsetufrelsi íslenskra fjölskyldna í Evrópu.

“Það er óásættanlegt að réttur barna og fjölskyldna þeirra sé ekki varinn, að annað foreldri eigi von á því að missa rétt sinn til að ná í barnið sitt í skólann, fylgja því til læknis og hefur engan lagalegan rétt gagnvart barni sínu. Sum þessara barna eru orðin 6 ára gömul,” segir Anna Butticè, ítalskur sjálfboðaliði Samtakanna ‘78.

Aðfarir ríkisstjórnar Giorgiu Meloni eru ekki aðeins árás á rétt hinsegin foreldra heldur rétt barna þeirra. “Samtökin ‘78 eru samtök alls hinsegin fólks á Íslandi en við megum ekki gleyma því að horfa út fyrir landsteinana því það er verið að veitast að réttindum hinsegin fólks víða um heim. Það er skylda okkar að sýna þeim samstöðu og stuðning.” segir Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna ‘78.