Skip to main content
Fréttir

Samtökin '78 bjóða þingmönnum í bíó

By 5. október, 2012No Comments

Samtökin ’78 hafa ákveðið að bjóða öllum þingmönnum Alþingis á kvikmyndina Call me Kuchu sem nú er sýnd í kvikmyndahúsinu Bíó Paradís. Markmiðið er að opna augu þingmanna fyrir grófum mannréttindabrotum víða um heim. Tilkynning þess efnis var send þingmönnum nú síðdegis í dag.

Undanfarin ár hafa Samtökin ´78 lagt sífellt aukna áherslu á að vekja athygli þingmanna á málstað hinsegin fólks og oft mjög slæmri stöðu þess um allan heim. Með því vonast samtökin til að opna augu Íslendinga fyrir mikilvægi þess að verða leiðandi afl í mannréttindabaráttu á heimsvísu. Ekki síst til að sporna við þeim lífshættulegu mannréttindabrotum sem margir hinsegin einstaklingar standa frammi fyrir á hverjum degi. 

Eitt af þeim málum sem Samtökin ’78 hafa bent á var löggjöf sem beið afgreiðslu þingsins í Úganda en sú löggjöf heimilaði meðal annars dauðarefsingar á hinsegin einstaklingum. Afgreiðslu málsins var frestað en miklar líkur eru á því að málið verði tekið upp að nýju og þá er mikilvægt að alþjóðasamfélagið verði tilbúið að bregðast við hratt og af festu.

Heimildamyndin Call Me Kuchu  er til sýningar á Reykjavík International Film Festival en myndin varpar mjög skýru ljósi á daglega baráttu hinsegin fólks í Úganda fyrir tilverurétti sínum. Í forgrunni er fylgt eftir einum helsta baráttumanni hinsegin samfélagsins í Úganda, David Kato. Á meðan tökum myndarinnar stóð var hann myrtur á hrottafenginn hátt vegna kynhneigðar sinnar og baráttu fyrir bættum mannréttindum hinsegin fólks.

Í boðsbréfi Samtakanna ’78 til þingmanna segir m.a.: “Það er von Samtakanna ´78 að sem flestir þingmenn mæti til sýningarinnar og nýti þar tækifærið til að kynna sér betur ástand mála í Úganda, sem því miður er samhljóma veruleika margra landa.”

Leave a Reply