Skip to main content
search
Fréttir

Aðalfundur Samtakanna '78: Hinsegin regnhlífin stækkar, stjórnvöld verða að sýna ábyrgð

By 7. apríl, 2015No Comments

Nýkjörin stjórn Samtakanna ´78. Frá vinstri: Hilmar Hildarson Magnúsarson formaður, Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, alþjóðafulltrúi, Kitty Anderson meðstjórnandi, Steinu Dögg Vigfúsdóttir, gjaldkeri, María Rut Kristinsdóttir varaformaður, Jósef S. Gunnarsson, ritari. Á myndina vantar Matthew Deaves, meðstjórnanda. (Mynd: Frosti Jónsson. Fleiri myndir og fréttir: Gayice.is)

Samtökin '78 héldu aðalfund sinn í gær í G&T salnum á Kex Hosteli. Á fundinn mættu 35 félagar og þurfti því 23 atkvæði til að samþykkja lagabreytingar. Fundargerð fundarins, ársskýrslu og reikninga má sjá hér.

Hilmar endurkjörinn formaður og mikil endurnýjun í stjórn og trúnaðarráði

Hilmar Hildarson Magnúsarson var endurkjörinn formaður félagsins án mótframboðs en María Rut Kristinsdóttir, fyrrum formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands kemur ný inn í stjórn í embætti varaformanns. Hilmar þakkar fráfarandi stjórn, trúnaðarráði, kjörnefnd, skoðunarmönnum reikninga, starfsfólki og sjálfboðaliðum frábær störf. "Ég vil líka þakka auðmjúklega það traust sem mér er sýnt og hlakka gríðarlega til áframhaldandi starfa fyrir félagið með þessum öfluga hópi fólks. Það er margt framundan í baráttu hinsegin fólks og ég vil ítreka að við viljum nýta krafta alls þess góða fólks sem bauð sig hér fram í dag – og í rauninni allra sem vilja leggja málstaðnum lið. Þetta er samvinnuverkefni okkar allra," segir nýkjörinn formaður.

Mikil endurnýjun varð í stjórninni og taka fimm nýir fulltrúar sæti ásamt þeim Hilmari og Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur sem hefur setið sem meðstjórnandi en tekur nú við hlutverki alþjóðafulltrúa. Sjálfkjörið var í embætti formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera og alþjóðafulltrúa og klöppuðu fundarmenn því til staðfestingar. Þrír buðu sig fram til tveggja embætta meðstjórnenda, þau Kitty Anderson, Setta María Mortensen og Matthew Deaves, og fór fram skrifleg kosning á milli þeirra. Ný stjórn er skipuð þeim Hilmari Hildarsyni Magnúsarsyni, formanni, Maríu Rut Kristinsdóttur, varaformanni, Jósef S. Gunnarssyni, ritara, Steinu Dögg Vigfúsdóttur, gjaldkera, Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur, alþjóðafulltrúa, Kitty Anderson, meðstjórnanda og Matthew Deaves, meðstjórnanda.

Til trúnaðarráðs voru í framboði 13 einstaklingar og voru eftirfarandi kjörin í skriflegri kosningu: Unnsteinn Jóhannsson (31 atkv.), Alda Villiljós (29 atkv.), Þorbjörg Þorvaldsdóttir (29 atkv.), Daníel Haukur Arnarsson (27 atkv.), Júlía Margrét Einarsdóttir (26 atkv.), Örn Danival Kristjánsson (26 atkv.), Kara Ásdís Kristinsdóttir (25 atkv.), Angel Ojara (24 atkv.), Setta María Mortensen (24 atkv.) og Valgerður Jónsdóttir (23 atkv.).

Intersex fólk, asexual fólk og pankynhneigðir nú formlegur hluti samtakanna

Það bar helst til tíðinda að fundurinn samþykkti einróma að stækka hinsegin regnhlífina og opna faðm félagsins formlega fyrir fleiri hópum. Fyrir fundinum lá tillaga til lagabreytinga um að viðurkenna intersex fólk sem formlegan hluta félagsins en í frjóum umræðum kom fram tillaga um að víkka þetta enn frekar út og bæta asexual fólki og pankynhneigðum inn upptalninguna. Samtökin '78 berjast því nú formlega í dag fyrir réttindum lesbía, homma, tvíkynhneigðra, asexual fólks, pankynhneigðra, intersex fólk og trans fólk – undir merkjum hinsegin fólks.

"Það ríkti mikil eindrægni og samstaða á fundinum og ég fagna því sérstaklega að við skyldum samþykkja einróma að stækka hinsegin regnhlífina formlega. Þessi ákvörðun staðfestir hugrekki, framsýni og víðsýni félaga okkar og er jafnframt tímabær. Við höfum unnið að því undanfarið að bjóða alla hópa hinsegin fólks velkomið í okkar samfélag og baráttu. Það hefur verið mikil gerjun í hinsegin samfélaginu og nú formgerum við þessa stefnu og sýnum að okkur er full alvara með þetta. Samtökin eru hér að slá ákveðinn tón í alþjóðlegri mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Skilaboðin eru skýr: barátta okkar er sameiginlegt verkefni okkar allra." Hilmar bætir því við að umræða um frekari viðurkenningu á fjölbreytileika hinsegin samfélagsins muni halda áfram á næstu vikum og mánuðum.

Stjórnvöld sýni lit og viðurkenni í verki mikilvægt starf samtakanna

Fram kom í máli formanns að lögð verði áhersla á að klára framkvæmdir við nýtt félagsheimili í vor. Annars verði áherslan áfram á tiltekt í innra starfi, virka upplýsingastefnu, sýnileika baráttunar og fjármögnun. Fyrri stjórn hafi hafið endurskoðun á kjarnasemi á borð við félags- og sálfræðiráðgjöf, fræðslustarf og Ungliðahreyfinguna. Framundan sé allsherjar endurskoðun og að þar sé í rauninni allt undir: bæði hvað varðar starfsmannahald og endurskoðun á starfi starfshópa og nefnda.

"Markmiðið er að auka gæði og efla fagleg vinnubrögð, yfirsýn og samfellu í starfinu þannig að við getum alltaf sagt stolt frá okkar starfsemi og auðveldað okkur að fjármagna hana. Starfsfólk og sjálfboðaliðar hreyfingarinnar vinna í dag ómetanlegt og frábært starf við mjög krappann kost. Við finnum að almenningur og stjór
nvöld gera mikla kröfu til okkar um þjónustu við og baráttu fyrir mannréttindum hinsegin fólks. Þetta er mjög eðlileg krafa enda félagið eina stofnunin á Íslandi sem býr yfir víðtækri sérfræðiþekkingu í málaflokknum, og heldur um leið úti jafn öflugri þjónustu, hvort sem varðar ráðgjöf, fræðslu, ungliðastarf, réttargæslu gagnvart löggjafa og framkvæmdavaldi og baráttu fyrir sýnileika, virðingu og viðurkenningu hinsegin fólks.

Hins vegar þarf hér að taka fram að félagið mun aldrei rísa undir þessu án þess að til komi fjármagn og það er bæði óraunhæft og ósanngjarnt að ætlast til þess að jafn mikilvægt starf sé nær eingöngu sett á herðar sjálfboðaliða. Það er kominn tími til að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu og þar á ég bæði við um ríki og sveitarfélög. Stefna er einskis virði án fjármagns til framkvæmda. Svo einfalt er það. Fylgi fjármagn ekki með eru fögru loforðin lítið annað en orðin tóm. Við sjáum bæði ríki og sveitarfélög styðja ýmsa hópa og málefni um miklu stærri upphæðir en þau setja í mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Framlög til okkar eru í raun hreinn brandari í samanburðinum. Þetta snýst einfaldlega um það hvort stjórnvöldum sé raunverulega alvara með fögrum orðum um stuðning við mannréttindi hinsegin fólks og lífshamingju þess. Ég neita að trúa því að svo sé ekki – því þetta varðar okkur öll. En nú reynir á stóru orðin."

Skuldlaust félag í eigin húsnæði og félögum fjölgar

Fram kom á fundinum að rekstur félagsins sé í góðu horfi enda hafi stjórn gætt ítrustu varkárni og íhaldssemi varðandi fjárútlát. Með húsnæðisskiptum síðasta ár hefur tekist að greiða niður allar skuldir og býr félagið nú skuldlaust í eigin húsnæði. Félögum fjölgar hægt og rólega og nú eru 455 borgandi félagar í félaginu en alls eru á skrá 1.073 félagar. Fjölgun varð í báðum þessum hópum.

Fundinum var stýrt af Örnu Björk Gunnarsdóttur, en Ragnar Þorvarðarson ritaði fundargerð. Á fundinum hengu uppi drög að umhverfis- og jafnréttisstefnu sem fundarfólki gafst færi á að skrifa athugasemdir og hugmyndir við. Að fundinum loknum var fundargestum boðið í opið hús að Suðurgötu 3 til að kynna sér framvindu við framkvæmdir við nýtt félagsheimili og ræða málin.

Leave a Reply