Skip to main content
search

Samtökin ’78 halda áfram að stækka og með aukinni ásókn í þjónustu okkar, bæði í ráðgjafaþjónustu sem og fræðslu þá hafa Samtökin brugðist við með því að ráða inn fleira fólk og hækka starfshlutföll.

Sigríður Birna Valsdóttir, ráðgjafi, mun frá og með 1. september verða fastráðinn starfsmaður í fullri stöðu, Sigríður Birna hefur verið ráðgjafi hjá Samtökunum frá árinu 2009 og hefur í sinni vinnu aflað sér víðtækrar þekkingar þegar kemur að hinsegin fólki almennt og þá sérstaklega í málefnum trans barna. Það er okkur afar mikilvægt að tryggja að sú reynsla og þekking sem Sigríður Birna býr yfir haldist hjá Samtökunum ’78 til að styrkja enn frekar ráðgjafaþjónustuna okkar.

Aukinheldur hafa tveir nýir ráðgjafar bæst í hópinn, þær Ivana Goláňová og Elín Margrét Ólafsdóttir. Ivana er sálfræðingur en hún útskrifaðist úr Charles University í Tékklandi. Ivana er sérhæfð í jákvæðri sálfræði og sálrænni fyrstu hjálp. Ivana talar ensku, tékknesku og spænsku, og er hægt að bóka ráðgjöf hjá henni á þessum tungumálum. Elín Margrét mun útskrifast sem barna- og unglingasálfræðingur í lok júní 2022. Hún var í starfsnámi hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni og hefur nú hafið störf þar. Elín og Ivana hafa báðar þegar hafið störf hjá Samtökunum ’78.

Tveir nýir fræðarar hafa bæst í hópinn okkar, þau Sveinn Sampsted og Lilja Ósk Magnúsdóttir. Sveinn er útskrifaður íþróttafræðingur frá HR og Íþróttaháskólanum í Köln. Hann var í frjálsum íþróttum í 17 ár sem spretthlaupari og hef síðan þá þjálfað meistaraflokk Breiðablik í frjálsum ásamt því að vinna verkefni fyrir frjálsíþróttahlið íþróttasambands fatlaðra. Sveinn mun sinna fræðslustarfi gagnvart íþróttafélögum. Lilja hefur unnið með börnum og unglingum síðastliðin 15 ár og mun hún fræða nemendur og starfsfólk í grunnskólum. Reynslu sína fékk Lilja sem fríðstundaráðgjafi og kennari í félagsmiðstöðvum og skólum Vesturbæjar, enda er hún Vesturbæingur í húð og hár. Bæði hafa þegar hafið störf hjá Samtökunum ’78.

Helga Baldvins Bjargar, lögfræðiráðgjafi Samtakanna ’78 mun láta af störfum 15. ágúst næstkomandi. Í hennar stað hefur verið ráðin Kristrún Elsa Harðardóttir. Kristrún er eigandi Lögfræðistofu Selfoss en hún útskrifaðist hún frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2010 og fékk réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi sama ár. Kristrún hefur starfað við lögmennsku um árabil og flutt fjölda mála fyrir dómstólum landsins. Þá hefur Kristrún bæði setið í stjórn og gengt formennsku í Félagi kvenna í lögmennsku og situr nú í laganefnd Lögmannafélags Íslands. Kristrún hefur einnig flutt fjölda fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis, sem varða útlendingamál, störf lögmanna í sakamálum og stöðu kvenna í lögmannastétt.

Samtökin ’78 eru sem áður afar stolt af því öfluga teymi starfsfólks sem vinna á hverjum degi að auknum sýnileika, þjónustu við hinsegin fólks og bættum lagalegum réttindum. Við bjóðum þau öll innilega velkomin til starfa.