Skip to main content
FréttirHagsmunabaráttaYfirlýsing

Setjum hinsegin mál í forgang!

By 25. nóvember, 2017maí 28th, 2020No Comments

Kæra stjórnmálafólk í Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki, og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem nú vinnið að myndun ríkisstjórnar.

Samtökin ‘78 vilja minna á og ítreka mikilvægi þess að málefnum hinsegin fólks verði fundinn farvegur í stjórnarsáttmála, og hvetja ykkur til að sýna hinsegin fólki beinan stuðning í verki.

Í aðdraganda kosninga mættu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á opinn fund hjá Samtökunum ‘78 og virtust sammála um mikilvægi þess að bregðast við þeirri stöðu sem blasir við – en Ísland uppfyllir einungis 47% skilyrða Regnbogakorts Evrópu fyrir árið 2017 sem birt var fyrr á árinu. Þannig situr Ísland í 16. sæti, neðst af Norðurlöndunum og á svipuðum stað og Grikkland og Ungverjaland.

Það sem dregur Ísland helst niður á þessum lista er skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Einnig er löggjöf um réttindi trans fólks ábótavant enda er enn krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til þess að þeir einstaklingar geti fengið nafni sínu og kyni breytt í þjóðskrá. Þá er ekki búið að banna ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og líkamleg friðhelgi þeirra er því ekki tryggð. Loks er Ísland Norðurlandaþjóðin sem tekur hvergi á hatursglæpum í löggjöf sinni, sem er áhyggjuefni í ljósi aukinnar tíðni hatursglæpa gegn hinsegin fólki bæði nær og fjær.

Síðustu 10 ár hafa flest þau lönd sem við berum okkur saman við tekið fram úr okkur í löggjöf sem tryggir réttindi hinsegin fólks. Samtökin ’78 vilja minna stjórnvöld á að mannréttindi koma ekki af sjálfu sér. Ef þeirra er ekki gætt getur átt sér stað afturför eins og við sjáum í fjölgun hatursglæpa gegn hinsegin fólki úti um allan heim. Samtökin benda á að það skjóti skökku við að á sama tíma og við höfum hægt og bítandi dregist aftur úr samanburðarlöndum okkar í réttindum hinsegin fólks hafa fjárframlög til samtakanna staðið í stað síðustu 10 ár og framlögin í dag því aðeins um 60% af því sem þau voru fyrir áratug miðað við neysluverðsvísitölu.

Á næsta ári eiga Samtökin ’78 afmæli og fagna 40 ára starfi í þágu mannréttinda og vitundarvakningar um stöðu hinsegin fólks hérlendis sem erlendis. Það væri svo sannarlega kærkomin afmælisgjöf ef sú ríkisstjórn sem nú er í myndun nýtti það tækifæri sem nú gefst til að bregðast við þessari stöðu og sýna fram á að henni er alvara í því að bæta úr stöðunni. Samtökin ‘78 hvetja stjórnmálafólk til að grípa það tækifæri.

Leave a Reply