Skip to main content
Fréttir

Reykjavíkurborg gerir þjónustusamning við Samtökin ´78

By 21. febrúar, 2005No Comments

Frettir Þann 17. febrúar sl. gerðu Samtökin ´78 samning við velferðarsvið Reykjavíkurborgar um þjónustu í þágu samkynhneigðra í Reykjavík. Samningur þessi nær yfir ýmsa þætti starfseminnar, m.a. þjónustu framkvæmdastjóra, þjónustu félagsráðgjafa svo og stuðningsvinnu og félagsstarf með ungu fólki á vettvangi félagsins. Í samningnum er einnig kveðið á um greiðslur fyrir útgáfu á bæklingum og kynningarefni svo og innkaup á bókasafn félagsins á þeim fagbókmenntum sem sérstaklega nýtast ráðgjöfum á sviði fjölskyldumála, enda eigi fagfólk velferðarsviðs og þjónustumiðstöðva borgarinnar ætíð greiðan aðgang að bókasafninu. Fyrir þetta greiðir félagsþjónusta Reykjavíkurborgar eina milljón króna árlega þau þrjú ár sem samningurinn gildir.

Í tæpa tvo áratugi hafa Samtökin ´78 notið styrkja frá Reykjavíkurborg til rekstrar og einstakra verkefna. Þá er skemmst að minnast rausnarlegs styrkjar borgarinnar til húsnæðiskaupa félagsins fyrir hálfum áratug, en hann gerði Samtökunum ´78 í fyrsta sinn kleift að eignast húsnæði sem hæfði starfsemi þess og vaxandi umsvifum. Með þeim styrk gjörbreyttust allir möguleikar félagsins til þjónustu sem smám saman hefur tekið á sig fasta mynd við nýjar aðstæður.

Samningurinn við velferðarsvið Reykjavíkurborgar felur í sér dýrmæta viðurkenningu á því ráðgjafar- og þjónustustarfi sem unnið er á vettvangi félagsins með því að honum er fyrst og fremst ætlað að tryggja það að samkynhneigt fagfólk fái veitt lesbíum, hommum og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning þegar eftir er leitað. Mikilvægi þessa starfs er í samningnum undirstrikað með þeim orðum að Samtökin ´78 séu eini aðilinn hér á landi sem sérstaklega hafi upp á að bjóða kunnáttu frá sérhæfðu starfsfólki sem sinnir þörfum samkynhneigðra og aðstandenda þeirra.

Leave a Reply