Skip to main content
search
Fréttir

VELHEPPNUÐ KEPPNISFERÐ TIL ARGENTÍNU

By 6. nóvember, 2007No Comments

Nítján liðsmenn St. Styrmis ásamt fimm gestum fylktu liði í lok september og héldu á vit ævintýranna í Argentínu þar sem þeir tóku þátt í heimsmeistaramóti IGLFA (International Gay and Lesbian Football Association).

Nítján liðsmenn St. Styrmis ásamt fimm gestum fylktu liði í lok september og héldu á vit ævintýranna í Argentínu þar sem þeir tóku þátt í heimsmeistaramóti IGLFA (International Gay and Lesbian Football Association).

Ferðin hófst á fimmtudagseftirmiðdegi með sex klukkutíma flugi til New York þar sem skipt var um flugvél. Við tók ellefu tíma flug til Buenos Aires en þar var lent að morgni föstudags þar sem tekið var á móti hópnum og okkur skutlað á Hótel Viamonte sem átti eftir að vera heimili okkar næstu 10 dagana.

Vopnaðir upplýsingum um hagi Argentínubúa eyddum við fyrsta deginum í rólegheitum og kynntumst nánasta umhverfi. Margir fóru í sína fyrstu af mörgum heimsóknum í verslanir Buenos Aires sem áttu það flestar sameiginlegt að vera talsvert ódýrari en við eigum að venjast hér á Íslandi. Klukkan 22:00 hittist svo allur hópurinn og fór saman út að borða og fengum fyrstu frábæru máltíðina í ferðinni en það er óhætt að mæla með bæði verði og gæðum á matsölustöðum Buenos Aires.

Við könnuðum næturlífið en tókum því rólega þessa fyrstu helgi þar sem mótið byrjaði snemma á mánudagsmorgni.

Mótið var spilað á vel gættum völlum í stórum garði við ytri mörk Buenos Aires. Einungis þáttakendur og örfáum gestum var hleypt inná mótið þannig að ekki var jafn mikið um áhorfendur og við áttum von á. Það var hins vegar krökkt af blaðamönnum frá hinum ýmsu löndum sem fylgdust með auk þess að taka myndir og viðtöl. Íslenska liðið vakti að sjálfsögðu mikla athygli og nokkrir Styrmismenn eru orðnir sjóaðir í því að veita viðtöl og sitja fyrir á myndum.

Styrmir lék fimm leiki á mótinu. Fyrstu fjórir leikirnir fóru fram í riðlakeppni þar sem við sigruðum Toronto 2 – 0 (Lalli og Pitti skoruðu) og völtuðum yfir San Francisco 5 -1 (Pitti skoraði 4 og Gummi 1).

Við gerðum svo jafntefli við lið London Titans 1 – 1 (Örvar) en hefðum átt að vinna þann leik.Við töpuðum að lokum fyrir sterkasta liðinu í riðlinum, Amerika, frá Argentínu en sá leikur fór 0 – 6.

Þessi árangur fleytti okkur í annað sæti riðilsins og veitti St. Styrmi keppnisrétt í útsláttarkeppni 16 bestu liðanna. Við töpuðum þar fyrsta leik, því miður, og vorum þar af leiðandi úr leik. Þetta fór því þannig að St. Styrmir náði sínum langbesta árangri hingað til og lauk keppni í 9 – 16 sæti. Það er besti árangur íslensks fótboltalandsliðs í heimsmeistarakeppni!

Það sem eftir lifði ferðar var svo hressilega tekið á því á veitinga og skemmtistöðum borgarinnar, – á milli verslunarferða. Styrmisfélagar eru á einu máli um það að þetta hafi verið stórkostleg ferð í alla staði, bæði hvað varðar árangur og samspil liðsins auk þeirrar reynslu sem Argentína og Buenos Aires bauð uppá.

-Hannes Pálsson

Leave a Reply