Skip to main content
Fréttir

FÉ LAGT TIL HÖFUÐS HOMMUM OG LESBÍUM Á WORLD PRIDE Í JERÚSALEM

By 12. júlí, 2006No Comments

Spenna fer vaxandi í Jerúsalem vegna World Pride göngunnar sem fram fer þann 10. ágúst. Hótanir um ofbeldi hafa farið vaxandi og er þrýst á lögregluyfirvöld að koma í veg fyrir gönguna. Í dreifibréfi sem dreift var í nokkur hverfi í skjóli nætur er fé lagt til höfuðs göngufólki. Samtök samkynhneigðra neita hins vegar að láta undan hótunum um ofbeldi og hvetja til umburðarlyndis og jafnréttis.

Í deifibréfi sem dreift var í skjóli nætur í nokkur hverfi í Jerúsalemborg, er hverjum þeim sem drepur homma eða lesbíu í komandi World Pride göngu heitið rúmum 300 þúsund krónum að launum. Gangan fer fram í næsta mánuði.

Dreifibréfinu er dreift af samtökum sem kalla sig Red Army for Salvation. Í því segir meðal annars: “Í fyrirhugaðri göngu munu 300 þúsund siðspillt villidýr ganga um götur hinnar helgu Jerúsalem til að sýna sig fyrir börnum okkar og hinni helgu Torah [lögbók gyðinga]. Þetta fólk mun gera sitt besta til að misbjóða saklausum börnum okkar”. Í dreifbréfinu eru einnig nákvæmar leiðbeiningar um gerð Molotov bensínsprengja og hvernig megi varpa slíkum sprengjum inn í gönguna.

Í dreifibréfinu er minnist á Shai Schlissel, fálaga í öfgatrúarhópnum Haredi, sem nú situr í fangelsi fyrir að hafa stungið þrjá göngumenn með hnífi í gay pride göngu í Jerúsalem í fyrra. Fulltrúar Haredi bera hins vegar af af sér öll tengsl við Red Army for Salvation og telja dreifibréfið vera hrekk. Lögreglan tekur hótanirnar aftur á móti alvarlega og hefur sérstakar áhyggjur af hótunum um sprengjuárás á göngufólk.

Spenna fer vaxandi í Jerúsalem vegna World Pride göngunnar sem fram fer þann 10. ágúst og er hluti World Pride hátíðarinnar sem haldin er dagana 6. til 12. ágúst í borginni. Upprunalega átti að halda hátíðina í fyrra en henni var frestað vegna undanhalds Ísraela frá Gaza. Nú er þrýst á yfirvöld að aflýsa göngunni og er búist við að lögregluyfirvöld taki ákvörðun um gönguleyfi síðar í vikunni. Hótanir um ofbeldi hafa farið vaxandi og í síðasta mánuði varaði íslamski leiðtoginn Sheik Ibrahim Sarsur samkynhneigðra við að ganga upp á Musterishæðina sem hann sagði að myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Stærstu mannréttindasamtök homma og lesbía í Israel, Jerusalem Open House, sem sér um skipulagningu World Pride hátíðarinnar, segjast ekki munu láta hótanir hafa áhrif á framkvæmdina: “Við munum ekki láta undan ofbeldi og þann 10. ágúst munum við ganga um Jerúsalem og hvetja til umburðalyndis og jafnréttis” segir Hagai Elad framkvæmdastjóri samtakanna.

-Grétar Einarsson

Þýtt og endursagt eftir frétt á www.365gay.com

Leave a Reply