Skip to main content
Fréttir

ÁHYGGJUR AF ÖRYGGI GESTA EUROVISION

By 28. febrúar, 2008No Comments

Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride vekja athygli á vægast sagt bágbornu ástandi mannréttindamála í Serbíu og þá alveg sérstaklega alvarlegri stöðu mannréttinda samkynhneigðra og annars hinsegin fólks.

Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride vekja athygli á vægast sagt bágbornu ástandi mannréttindamála í Serbíu og þá alveg sérstaklega alvarlegri stöðu mannréttinda samkynhneigðra og annars hinsegin fólks.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, verður haldin í Belgrad, höfuðborg Serbíu dagana 20.– 24. maí næst komandi. Margir þeirra sem koma að söngvakeppninni, bæði listamenn, búningahönnuðir og aðrir eru samkynhneigðir. Þá er stór hluti aðdáenda söngvakeppninnar samkynhneigður, tvíkynhneigðir og transgenderfólk og ætla má að það hyggist fara til Belgrad til að fylgjast með keppninni.

Full ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af öryggi þeirra. Tilraunir lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transgenderfólks til að halda Gay Pride hátíðir í Belgrad hafa verið barðar niður af mikilli hörku af andstæðingum tilveruréttar þeirra og dæmi eru um að þessir menn hafi fylkt liði þúsundum saman til að berja á nokkrum tugum hugrakkra brautryðjenda mannréttinda í landinu.

Árásir öfgahópa á hinsegin fólk í Serbíu og þá sérstaklega í Belgrad hafa ítrekað átt sér stað án teljandi afskipta lögreglu, sem jafnvel hefur haldið sig fjarri slíkum árásum með skipulögðum hætti. Eftir liggur fjöldi af stórslösuðu fólki sem jafnvel hefur sumt verið handtekið fyrir að reyna að vekja athygli á málstað sínum.

Hinsegin dagar vara hinsegin fólk við því að fara til Belgrad. Það er aftur á móti fullkomlega eðlilegt að margir kjósi að gera það engu að síður. Hinsegin dagar skora á lesbíur, homma, tvíkynhneigða og transgenderfólk sem fer til Belgrad í tengslum við Eurovision að gæta þess að vera ekki eitt á ferli í borginni og reyna að forðast eins og hægt er að vekja athygli á kynhneigð sinni, nema öryggisgæsla sé fullnægjandi.

Einnig skora Hinsegin dagar á Ríkisútvarpið að huga að öryggi íslensku þátttakendanna og taka þessa ógn alvarlega. Þá skora Hinsegin dagar á íslensk stjórnvöld að vekja athygli serbneskra stjórnvalda á þessum áhyggjum og þrýsta á Serba um að standa við evrópska og alþjóðlega mannréttindasáttmála og samninga, sem tryggja eiga lesbíum, hommum, tvíkynhneigðum og transgenderfólki sömu mannréttindi og aðrir íbúar Evrópu njóta

-HMP

 

Leave a Reply