Skip to main content
search
Fréttir

ÁSDÍS ÓLA OPNAR MYNDLISTARSÝNINGU Í REGNBOGASAL

By 1. nóvember, 2006No Comments

Fimmtudagskvöldið 9. nóvember opnar Ásdís Óladóttir myndlistarsýningu Regnbogasal Samtakanna ’78, Laugavegi 3. Sýningin nefnist Vetrarborgir og eru allir áhugasamir hjartanlega velkomnir á opnunina milli kl. 20-23.

 

V e t r a r b o r g i r

Í listsköpun sinni hefur Ásdís fengist við listhönnun, ljósmyndun og málverkið ásamt því að hafa gefið út fimm ljóðabækur og setið í ritnefnd Andblæs, tímariti um bókmenntir og listir. Nú í október kom út nýjasta
ljóðabók Ásdísar, Margradda nætur.

Fyrstu málverk Ásdísar eru tengd hönnunarvinnu hennar þar sem mótív myndanna er sterkt og formið virðist vera henni mjög hugleikið og endurspeglar það bakgrunn hennar sem hönnuðar. Í fyrstu verkunum sínum notar Ásdís sterka, hreina liti en með tímanum byrjar hún að þróa litameðferðina frekar með tilliti til dýptar og blæbrigða. Ásdís hefur mikla næmni fyrir litum. Undanfarin ár hefur Ásdís nær eingöngu málað abstrakt myndir undir minimalískum áhrifum. Þrátt fyrir það eru myndirnar fullar af næmni og lífi ásamt því að í þeim er mikil hreyfing og mikið á seyði. Myndirnar eru margræðar og hægt að túlka á misjafna og ólíka vegu en jafnan hvílir nokkur dulúð yfir verkum hennar. Myndir Ásdísar hafa fágað yfirbragð og formfestu en um leið er að finna í þeim alvarlegan undirtón og þær eru ákaflega kraftmiklar í einfaldleika sínum. Þetta er fyrsta einkasýning Ásdísar og myndirnar eru málaðar á árunum
1994-2006.

 

Leave a Reply