Skip to main content
Fréttir

Hinsegin dagar 2001 í Reykjavík – Glæsilegasta útihátíð ársins

By 14. ágúst, 2001No Comments

Frettir Hinsegin dagar 2001 í Reykjavík ? Gay Pride – voru haldnir helgina 10.-11. ágúst að viðstöddu gríðarlegu fjölmenni. Talið er að um 20.000 manns hafi fyllt miðborg Reykjavíkur í gleðigöngu og á útiskemmtun á Ingólfstorgi. Sérstaka athygli vakti þegar vinir og fjölskyldur lesbía og homma fjölmenntu og sýndu stuðning sinn við málstað samkynhneigðra með því að fjölmenna í göngunni niður Laugaveg. Það voru fimm félagasamtök, hópar og hreyfingar samkynhneigðra og tvíkynhneigðra sem stóðu að hátíð Hinsegin daga og alls munu rúmlega 200 manns hafa lagt hönd að undirbúningi. Þetta var í þriðja sinn sem Hinsegin dagar eru haldnir með þessu sniði í borginni og í annað sinn sem farið er í gleðigöngu niður Laugaveg. Ljóst er að Hinsegin dagar í Reykjavík eru nú komnir til að vera og verða þeir næst haldnir að ári í miðborginni ? hinn 10. ágúst 2002.

Hátíðin hófst með leiksýningu í Kaffileikhúsinu, Hlaðvarpanum á föstudagskvöldi þar sem Mina Hartong, leikkona frá New York, skemmti gestum í standandi gríni fyrir troðfullu húsi áhorfenda sem tóku grínistanum með kostum og kynjum.

Með borgarstjóra í fararbroddi

Klukkan þrjú laugardaginn 11. ágúst hélt mikil ganga af stað frá Hlemmi og niður Laugaveg. Þar rak eitt atriðið annað, svo skrautleg að þeim verður betur lýst með orðum en myndum. Borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og eiginmaður hennar heiðruðu Hinsegin daga með nærveru sinni og gengu niður Laugaveg með okkur, en alls tók gangan um hálfan annan tíma því að víða þurfti að stansa og dansa á leiðinni.

Troðfullt Ingólfstorg í heitri sveiflu

Á Ingólfstorgi hófst síðan útiskemmtun: Kór samkynhneigðra, Allegro ma non troppo, söng og borgarstjórinn ávarpaði samkomuna. Síðan rak hvert atriðið annað, kvennahljómsveitn Móðinz, Söngvararnir Bergþór Pálsson, Ivan Torrey, Hólmfríður Jóhannesdóttir og Björgvin Franz í gervi Hedwigar, en hópur verslunarskólanema söng um mennina sem þeir elska úr sýningunni Wake me up before you go go. Þá birtist dragghópurinn DivaLicious á palli, en Bryndís Ásmundsdóttir var kynnir skemmtunarinnar sem lauk með því að Milljónamæringarnir tóku sterka sveiflu með söngvurunum Páli Óskari og Ragnari Bjarna. Í lokasöng Páls Óskars svifu síðan 1500 blöðrur upp í himininn við fagnaðarlæti viðstaddra.

Um kvöldið fjölmenntu samkynhneigðir og vinir þeirra til kvöldverðar um borð í Þór við Reykjavíkurhöfn og síðan hófst dansleikur á Spotlight sem stóð til morguns.

Fyrir stoltið og sjálfsvirðinguna

Það er mál manna sem fylgdust með hátíðahöldunum að glæsilegri hátíðir gerist nú ekki í Reykjavík en Hinsegin dagar. Þeir eru skipulagðir í smáatriðum svo að varla fer nokkurt atriði úrskeiðis svo flókið sem það annars er að samhæfa alla krafta. Fyrir ótrúlega litla fjármuni tekst að skapa dýrlegt sjónarspil sem sannar að það þarf enga tugi milljóna króna til gleðjast saman og gleðja samborgarana á eftirminnilegan hátt. Kynningarefni og auglýsingar eru með einstökum glæsibrag og skemmtiatriðin í háum gæðaflokki, enda er löngu orðið ljóst að Reykvíkingar fá ekki staðist fjörið á götunum.

Mestu máli skiptir þó að Hinsegin dagar efla sjálfsvirðingu, stolt og sjálfsöryggi lesbía og homma og aðstandenda þeirra á þann hátt sem enginn annar atburður getur gert. Sá stuðningur sem mætir samkynhneigðum þennan dag sýnir líka ótvírætt að Íslendingar eru óðum að tileinka sér viðhorf og hugsunarhátt nýrra tíma þar sem fordómar, hómófóbía og fjandskapur heyra sögunni til.

Leave a Reply