Skip to main content
Fréttir

HINN ÓTRÚLEGI SANNLEIKUR UM RAKELU DROTTNINGU

By 10. október, 2008No Comments

Þessi kvikmynd vakti almennt sterk viðbrögð trans kvenna á Íslandi. Fyrsta niðurstaðan var að kvikmyndin fjallaði einfaldlega um klámiðnaðinn. Eftir viðræður við fólk tengt kvikmyndinni, kom í ljós að það er ofureinföldun á kvikmyndinni. Ekki hefði verið hægt að segja þessa sögu, nema með því að segja sögu Rakelu. Líf Rakelu, er sá strigi sem myndin af klámiðnaðinum er máluð á. Leikstjórn: Ólafur de Fleur Jóhannesson

http://www.queenraquelathemovie.com/

Þessi kvikmynd vakti almennt sterk viðbrögð trans kvenna á Íslandi. Fyrsta niðurstaðan var að kvikmyndin fjallaði einfaldlega um klámiðnaðinn. Eftir viðræður við fólk tengt kvikmyndinni, kom í ljós að það er ofureinföldun á kvikmyndinni. Ekki hefði verið hægt að segja þessa sögu, nema með því að segja sögu Rakelu. Líf Rakelu, er sá strigi sem myndin af klámiðnaðinum er máluð á.

 

Þó að kvikmyndin um Rakelu sé leikin, fjallar hún um raunverulegt fólk og raunverulega atburði sem eru að gerast á okkar tímum. Eins og svo mörg ævintýri, er hún tæplega fyrir viðkvæmar sálir.

 

Hispurslaust og án nokkurrar vorkunnar, lýsir myndin lífsbaráttu hennar, ævintýralegum draumum um betra líf, og ömurlegum veruleika. Frásögnin er oftast í þriðju persónu og oft á samtalsformi. Í sumum atriðunum er sem áhorfandinn verði trúnaðarvinur Rakelar og veruleiki hennar verður næstum áþreifanlegur.

 

Hinn ótrúlegi sannleikur um Rakelu er, að kvikmyndin fjallar fyrst og fremst um klámiðnaðinn og hvernig transkona dregst inn í hann og verður hluti af honum.

 

Það fyrsta sem áhorfandinn fær að vita um kvikmyndina um Rakelu Drottningu, eru ævafornar goðsagnir um transsexúal konur sem vörðu einræðið og karlaveldið. Í dag séu þær bara í láglaunastörfum, og vændi, þó nóg sé að gera í að verja einræðisherra heimsins og að viðhalda karlaveldinu. Þarna er þó ekki um að ræða lögverndað starfsheiti, enda er sullað fram og til baka með allkonar heiti sem eiga það eitt sameiginlegt að flokkast undir transgender. Síðan er sullinu hellt út í filipeyska og ensku tungu, með misjöfnum árangri.

 

Áratugalangt einræði og tvöfalt siðferði kaþólsku kirkjunnar og kúgun herstjórnar og stríðsátaka hefur merkt filipeyska fólkið. Í Cebu borg á Filippseyjum lifir Rakela að því er virðist í lausu lofti og án verulegra tengsla við fjölskyldu sína, eða heimili sitt.

Rakela fæddist strákur en finnst að hún sé samt stelpa. Hún hefur fengið kvenhormóna í nokkur ár en í kvikmyndinni er dauðaþögn um allar líkamlegar breytingar. Hún vill vera síung og aðlaðandi til  að karlmenn elski hana þannig að hún finni að hún sé kona.

Umhverfi hennar og vinanna eru göturnar og þeir staðir sem útskúfandi siðakreddur og trúarkreddur samfélagsins virðast ekki ná til. Hún hræðist að vinna á götunni vegna hættu á að hent væri í hana hættulegu rusli eins og flöskum. Hana dreymir um að komast út úr vændinu, ferðast til Parísar og að hitta mann drauma sinna.

 

Örlagavaldur sögunnar er Mikael sem rekur arðbært alþjóðlegt fyrirtæki sem markaðssetur ungar konur eins og Rakelu á klámvef á internetinu. Með aðstoð ljósmyndara síns stjórnar hann einnig þjálfun hennar sem vændiskonu. Hann telur að henni muni farnast vel ef hún bara fer eftir fyrirmælunum. Hún er þjálfuð í að vera gangandi talandi lifandi hlutgert viðfang, aðgengileg gegnum internetið.

 

Mikael hefur ekki mikið álit á draumum hennar og telur að þeir séu miklu frekar draugar heldur en draumar. Í svipaðan streng tekur móðir hennar sem telur að hún eigi enga framtíð fyrir sér á Filipseyjum. Yfirvofandi lífshætta hennar er gefin í skyn með harmþrungnum tónum selló og fiðlu sem minnir mjög á verkið Lux Æterna (Hið Eilífa Ljós) eftir Clint Mansell í myndinni “Requiem For A Dream”, Sálumessa Fyrir Draum. Hér er á ferðinni tónskáldið Pavel E. Smid sem á verk í meðal annars kvikmyndinni “Stóra Planið”.

 

Vegna mikillar notkunar á viðtölum er auðvelt að gleyma að kvikmyndin er byggð á raunverulegum atvikum, frekar en að vera heimild um þau. Með því að blanda saman heimildamyndaforminu og formi leikinna kvikmynda, þverar leikstjórinn bilið á milli þessara póla, sem er kannski táknrænt fyrir efni myndarinnar. Með þessu formi nær leikstjórinn fram öðrum áhrifum en hefðu verið í kvikmynd sem eingöngu er leikin. Kvikmyndin hefur meðal annars unnið til verðlauna í flokki erlendra kvikmynda fyrir bestu frásagnaraðferð “Best International Narrative Feature” á New York LGBT Kvikmyndahátíðinni 2008 og sérstaklega tekið fram að verðlaunin eru meðal annars fyrir getuna til að blanda staðreyndum og skáldskap. (http://www.newfest.org/)

 

Það verður mjög áhugavert að sjá þessari aðferð beitt í öðrum kvikmyndum.

 

Útgefið: 10. október 2008

 

— Fyrir hönd Trans Íslands, Félags transgender fólks á Íslandi,

Anna Jonna Ármannsdóttir.

Leave a Reply