Skip to main content
Fréttir

Bandaríkin – HIV-veiran breiðist út meðal samkynhneigðra blökkumanna

By 24. mars, 2001No Comments

Frettir Einn af hverjum þremur blökkumönnum meðal bandarískra homma er HIV-jákvæður og alnæmi er algengasta dánarorsök bandarískra blökkumanna á aldrinum 25-45 ára þar í landi.

Árum saman hafa svartir hommar í Bandaríkjunum almennt reynt að telja sér trú um að alnæmi væri sjúkdómur hvítu hommanna, enda snýst athygli fjölmiðla og opinber umræða einkum um hlutskipti hinnar hvítu millistéttar og því er þessi sjálfsblekking að nokkru leyti skiljanleg. En hið gagnstæða er engu að síður staðreynd sem nýjar kannanir hafa leitt í ljós. 30% svartra samkynhneigðra og tvíkynhneigðra karlmanna eru HIV-jákvæðar en aðeins 7% hinna hvítu. Meðal homma og tvíkynhneigðra sem upprunnir eru í Austur-Asíu og Rómönsku Ameríku er hlutfallið 3% og 15%.

Ný skýrsla afhjúpar staðreyndir málsins

Þessar tölur eru sóttar í nýja skýrslu sem Bandaríska sjúkdómseftirlitið, CDC, sendi frá sér fyrir nokkrum dögum og byggist á rannsóknum í borgunum Baltimore, Dallas, Los Angeles, Miami, New York og Seattle. Það voru þó ekki bara svartir hommar sem sýndu hið ógnvekjandi háa hlutfall HIV-jákvæðra: Ein af hverjum 160 blökkukonum reyndist smituð, en aftur á móti ein af hverjum 3000 í hópi hvítra kvenna.

Það er tímanna tákn að um sama leyti og tölurnar tala frá CDC lýsir hin nýja ríkisstjórn Georges Bush því yfir að hún muni skera niður fjárveitingar til forvarnarstarfs vegna alnæmis.

Washington Blade / PAN

Leave a Reply