Skip to main content
search
Fréttir

Forsjá barna

By 26. apríl, 2006No Comments

Mig langar að spyrjast fyrir um hvort hægt sé að taka barn/börn af konu fyrir það eitt að vera lesbía? Spurt: Mig langar að spyrjast fyrir um hvort hægt sé að taka barn/börn af konu fyrir það eitt að vera lesbía?
Svarað: Þegar spurt er um að taka barn eða börn af konu, er ekki ljóst hvort verið er að spyrja um niðurstöður í mögulegri forsjárdeilu eða hvort verið sé að spyrja um forsjársviptingu á grundvelli barnaverndarlaga. Lítum nánar á þetta tvennt.
Ef um forsjárdeilu er að ræða geta báðir aðilar gert kröfu um forsjá barns og náist ekki samkomulag sker dómstóll úr um það. Dómari fær í flestum tilvikum umsögn sérfræðinga áður en ákvörðun er tekin. Dómara ber að taka mið af því sem best er fyrir barnið og skoða þannig hæfni beggja foreldra, tengsl þeirra við barnið, stöðugleika og fleira.

Ef um barnaverndarmál er að ræða og grunur leikur á að barn sé vanrækt, beitt ofbeldi eða sé sjálfu sér eða öðrum hættulegt, ber barnaverndarnefnd, þar sem barn býr, að kanna málið og beita síðan þeim stuðningsúrræðum sem henta þykja. Markmið barnaverndarlaga er að styrkja uppeldishlutverk forsjáraðila og beita stuðningsúrræðum. Eins og í forsjárdeilum ber að taka mið af hagsmunum barnanna sjálfra. Í þeim tilvikum sem stuðningsúrræði þykja ekki hafa dugað til að bæta hag barnsins getur barnaverndarnefnd óskað eftir því við dómstóla að foreldrar verði sviptir forsjá.
Af þessu má ljóst vera að í engum tilvikum er hægt að taka barn af konu vegna þess eins að hún er lesbía, né hefur sú staðreynd að karlmaður er hommi engin áhrif ein og sér í forsjárdeilum.

Upplýsingar um forsjármál og gang þeirra má fá hjá sýslumönnum og í Dómsmálaráðuneytinu. Upplýsingar um barnaverndarmál má fá hjá Barnaverndarstofu (sími 530 2600, bvs@bvs.is, www.bvs.is) og hjá einstaka barnaverndarnefndum. Símanúmer þeirra má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu. Kvennaráðgjöfin (sími 552 1500) getur líka leiðbeint um ýmislegt varðandi mál af þessum toga.

Anni G. Haugen

Leave a Reply