Skip to main content
search
Fréttir

ÞÖGNIN ROFIN UM ÍÞRÓTTIRNAR

By 22. febrúar, 2006No Comments

Hinn 1. febrúar sl. fór fram á vegum UEFA (Knattspyrnusambands Evrópu) og FARE (Football against Racism in Europe) ráðstefna um baráttuna gegn fordómum, “uniteagainstracism”. Í fyrsta sinn var á ráðstefnu á vegum UEFA fjallað sérstaklega um málefni samkynhneigðra í knattspyrnu og þá fordóma sem þeir mæta á vettvangi íþróttarinnar. Klara Bjartmarz sat ráðstefnuna fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands og tók þátt í málstofu sem fjallaði um stöðu samkynhneigðra í evrópskri knattspyrnu.

RÁÐSTEFNA UM SAMKYNHNEIGÐ Á VEGUM KNATTSPYRNUSAMBANDS EVRÓPU

Hinn 1. febrúar sl. fór fram á vegum UEFA (Knattspyrnusambands Evrópu) og FARE (Football against Racism in Europe) ráðstefna um baráttuna gegn fordómum, „uniteagainstracism“. Í fyrsta sinn var á ráðstefnu á vegum UEFA fjallað sérstaklega um málefni samkynhneigðra í knattspyrnu og þá fordóma sem þeir mæta á vettvangi íþróttarinnar. Klara Bjartmarz sat ráðstefnuna fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands og tók þátt í málstofu sem fjallaði um stöðu samkynhneigðra í evrópskri knattspyrnu.

Meðal frummælanda í málstofunni voru fræðimenn, fyrrverandi knattspyrnufólk og fyrrverandi alþjóðlegur dómari sem er hommi. Allir frummælendurnir voru sammála um það að samkynhneigðir mættu miklum fordómum innan knattspyrnunnar og kölluðu eftir viðbrögðum og stuðningi frá forsvarsfólki íþróttahreyfingarinnar og Evrópusambandsins. Lögð var mikil áhersla á það að UEFA og aðrar stofnanir breyttu herferðum sínum úr „anti-racism“ í „anti-discrimination“ og að þær tækju til misréttismála á grundvelli kynhneigðar og fleiri þátta á sama hátt og litarháttar og uppruna. Með þessu yrði tekin skýrari og afdráttarlausari afstaða til misréttis án tillits til þess gagnvart hverjum það birtust.

ÁBYRGÐ ÍÞRÓTTAFÓLKS

Einnig kom fram hjá öllum frummælendum að ósýnileikinn væri eitt helsta vandamálið og að þar yrði íþróttafólk sjálft að taka af skarið og sýna ábyrgð sem fyrirmyndir, en jafnframt yrði íþróttafólk að fá stuðning frá íþróttayfirvöldum til þess. Nokkrir frummælendur töldu sérfélög samkynhneigðra koma til greina, en um það sjónarmið var þó ekki full samstaða. Þeir sem voru hlynntir því töldu að slíkt gæti verið nauðsynlegt í því umhverfi sem hommar og lesbíur byggju, og að einnig kynnu slík félög að vera nauðsynlegt tímabundið ástand. Talið var mikilvægt að hafa samvinnu við aðra minnihlutahópa.

MÁLIN FÁ UMFJÖLLUN

Ráðstefnan var mjög fróðleg og mun án efa hafa áhrif til framtíðar. Til marks um það má nefna að nýlega birtust í fyrsta sinn, svo vitað sé, greinar á vefsíðu UEFA um stöðu samkynhneigðra í knattspyrnu.

Miðað við stöðu mála í mörgum þeim löndum sem upplýsingar fengust um, er ástandið á Íslandi ekki afleitt. Hér á landi er að minnsta kosti ekki barist gegn því að samkynhneigðir opinberi kynhneigð sína eins og gerist í öðrum löndum. Við eigum þó tvímælalaust við sömu vandamál að stríða og aðrar þjóðir. Þau snúast um ósýnileikann og þögnina sem ríkir, En þögnina er umfram allt nauðsynlegt að rjúfa.

–KB

Leave a Reply