Skip to main content
Fréttir

Dómsmálaráðherra Kanada aflar hinsegin hjónaböndum stuðnings

By 11. september, 2003No Comments

Frettir Dómsmálaráðherra Kanada, Martin Cauchon, mun brátt leggja í mikið ferðalag vítt og breitt um landið til þess að afla hjónaböndum samkynhneigðra stuðnings. Sem kunnugt er liggur fyrir kanadíska þinginu frumvarp um breytingu á hjónabandslöggjöfinni þar sem giftingar einstaklinga af sama kyni verða heimilaðar. Nokkuð hefur borið á andstöðu almennings gegn fyrirhugaðri lagasetningu og hefur Cauchon látið hafa eftir sér að nauðsynlegt sé að útskýra löggjöfina fyrir almenningi og afla henni fylgis.

Cauchon mun byrja á því að heimsækja Ontario, Bresku Kólumbíu og Alberta. Hann mun meðal annars tala við háskólanemendur en kannanir hafa sýnt að yfirgnæfandi meirihluti þeirra eru hlynntir frumvarpinu. Sömu sögu er að segja um þingmenn Frjálslyndaflokksins, flokks Cauchon, sem hefur hreinan meirihluta á þingi en talið er að um tveir þriðju hlutar þingmanna hans séu fylgjandi málinu. Hins vegar hefur fyrirhuguð lagasetning valdið hörðum viðbrögðum hjá öðrum hópum og hafa ýmis bókstafstrúarsamtök hvatt Kanadabúa til þess að sýna andstöðu í verki og mótmæla fyrir framan skrifstofur þeirra þingmanna sem styðja frumvarpið.

-HTS

Leave a Reply