Skip to main content
Fréttir

Noregur – EuroPride í Osló 17.?27. júní 2005

Frettir Sumarhátíðahöld lesbía og homma í heiminum eiga sér aldarfjórðungs sögu. Allt frá uppþotunum í Greenwich Village í New York sumarið 1969, þegar hópurinn reis upp gegn lögregluofbeldi og kúgun, hafa samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og fólk, sem skipt hefur um kyn, sameinast í hátíðahöldum á hverju sumri. Framan af árum voru þau eðlilega lituð af pólitísku inntaki harðsnúinnar baráttu, en hafa á seinni árum einkum fengið á sig fagnaðar- og menningarsvip. Gay Pride er haldið í öllum heimsálfum og í meira en 500 borgum víðsvegar um heiminn.

Einn angi þessarar hreyfingar eru EuroPride-hátíðahöldin þegar valin er ein borg í álfunni til að fara í fararbroddi fyrir hátíðahöldum ársins og er þá óvenju mikið í lagt hverju sinni. Í ár er Osló sú borg sem heldur EuroPride og er það í fyrsta sinn frá því þessi siður var tekinn upp, 1992, að borg utan Evrópusambandsins heldur EuroPride. Osló er ekki valin af tómri tilviljun. Í ár eru 100 ár liðin síðan þjóðin reis undan oki Svía og öðlaðist sjálfstæði. Osló er líka vel að heiðrinum komin því að Norska stórþingið varð fyrst allra þjóðþinga til að veita hommum og lesbíum réttarbætur í anda nýrra tíma með verndarákvæðum í lögum fyrir rúmum tveimur áratugum.

Menningarlíf í hátíðarþorpi

Í tíu daga í júní iðar Osló af samkynhneigðu lífi, skemmtunum, fyrirlestrum, umræðufundum, guðsþjónustum og öðrum menningarviðburðum sem ná hámarki með gleðigöngu gegnum borgina laugardaginn 25. júní. Að því tilefni reisa aðstandendur hátíðarinnar sérstakt hátíðarþorp í borginni sem myndar kjarna hátíðahaldanna.Hér er sérstök áhersla lögð á listræna tjáningu enda á listin í öllum sínum birtingarmyndum meiri þátt í vitundarvakningu okkar og sjálfsskilningi en flest annað. Því verður í Osló að finna óvenju gott úrval listrænna viðburða þessa daga. Þar má nefna glæsilegt úrval tónleika, leiksýninga og kvikmynda og bæði skáld og myndlistarfólk kynna verk sín.

?ÞK

Leave a Reply