Skip to main content
Fréttir

Danmörk – Brautryðjandi níræður

By 2. apríl, 2005No Comments

Frettir Laugardaginn 2. apríl héldu LBL, Landssamtök homma og lesbía í Danmörku upp á 90 ára afmæli stofnanda síns, Axel Axgil með glæsilegri veislu í húsnæði félagins í Teglgårdstræde. Axel er einn af brautryðjendunum í baráttusögu samkynhneigðra á Norðurlöndum, hugrakkur og einlægur maður sem tókst að fá dálítinn hóp kvenna og karla til að taka á með sér og gera það sem virtist ómögulegt. Og það tókst!

Fyrstir í staðfesta samvist

Í áratugi bjó Axel, sem á skírnarvottorðinu hét Axel Lundahl-Madsen, með Eigil Axgil, forstjóra í Kaupmannahöfn, sem nú er látinn. Eftir nokkurra ára sambúð sameinuðu þeir Axel og Eigil skírnarnöfn sín í eitt eftirnafn, Axgil, til að staðfesta ást sína og vináttu, löngu áður en slíkt var hægt með staðfestri samvist. Eftir nær fjörutíu ára sambúð urðu þeir fyrstir Dana til að staðfesta samvist sína í ráðhúsi Kaupmannahafnar sumarið 1989. Brúðkaupsmyndin sem tekin er á Ráðhústorginu vakti heimsathygli og hefur stundum verið kölluð brúðkaupsmynd aldarinnar. Þar mætast fortíð og nútíð á þann magnaða hátt sem ekkert nema ljósmynd augnabliksins getur lýst. Þetta var fyrsta löglega hjónavígsla samkynhneigðra í heiminum.

Laumulíf í Álaborg

Í bókinni Homofile kampår hefur Axel lýst fyrstu skrefum sínum úr skápnum veturinn 1947-48. Þá var hann 33 ára skrifstofumaður í Álaborg og tók hann virkan þátt í stjórnmálum, sat m.a. hann í æskulýðsráði borgarinnar fyrir flokk sinn, Retsforbundet. Axel segir frá því hvernig samkynhneigðir vinir hans urðu til að ögra honum þegar þeir sögðu: ?Nú ertu fulltrúi í æskulýðsráði borgarinnar og talar fyrir málefnum unga fólksins, þú talar fyrir kröfu þess um að hafa áhrif á opinber málefni, en þú þegir um það sem er þitt ? og OKKAR ? brýnasta mál, vanda lesbía og homma í þjóðfélaginu.? ?Sameinuðu þjóðirnar eru nýbúnar að samþykkja mannréttindayfirlýsingu, en þú þorir ekki að tala um það að til er heill þjóðfélagshópur sem á rétt á sínum hlut í þessum mannréttindum.? Axel stóðst ekki þessar ögranir og spurði þá hvort einhver vildi fylgja sér, en öll afþökkuðu þau boðið. Sum urðu svo hrædd, að hans sögn, að þau hættu að láta sjá sig í partíunum sem þau voru vön að halda til skiptis heima hvert hjá öðru. ?Við erum í góðum stöðum, við gerum það gott í atvinnulífinu, við erum kennarar og þar fram eftir götunum. Við getum þetta ekki, en það er allt annað með þig, þú ert þinn eigin herra.?

Engar fríkadellur í dag

En það var ekki satt, Axel var ekki sinn eigin herra. Reyndar var hann í góðri stöðu, undirmaður í umboðsfyrirtæki, en var samt þannig skapi farinn að hann lét ekkert stöðva sig loksins þegar hann hafði eignast sína sannfæringu. Víst var hann rekinn úr æskulýðsráði Álaborgar, rekinn úr Retsforbundet, rekinn úr herberginu sem hann hafði á leigu með þeim orðum leigusalans að hann yrði ?að taka tillit til konunnar og barnanna?. Og þegar Axel birtist í pensjónatinu þar sem kjötbollur dagsins biðu á borðinu sagði húsmóðirin honum að hann yrði að finna sér annan stað til að borða hádegismatinn, ?því að hinir kostgangararnir hafa því miður enga lyst á bollunum þegar svona maður situr til borðs?. Axel missti af ?fríkadellunum? þann daginn og hann missti líka vinnuna ?því maður verður að hugsa um unglingana sem vinna hér og auðvitað foreldra þeirra og svo um kúnnana?.

Hinsegin páskar í Höfn

Ofsóknirnar drógu dilk á eftir sér sem hér yrði of langt mál að rekja, en Axel Lundahl-Madsen, síðar Axel Axgil, lét ekkert smækka sig og hreyfing lesbía og homma í Danmörku varð að veruleika. Fyrsta samkoma nýja félagsins sem stóð undir nafni var haldin á páskadag, 17. apríl 1949 í Kaupmannahöfn. Þar mættu um 200 manns og síðan hafa danskir páskar ekki orðið samir við sig. Þessar fréttir bárust brátt til Íslands og árið 1950 póstlagði maður nokkur í Reykjavík bréf til til Forbundet af 1948 þar sem hann sótti um inngöngu í nýja félagið. Mánuði síðar barst Íslendingnum félagsskírteinið, hreyfingin hans Axels hafði líka fest ofurlitlar rætur á Íslandi.

?ÞK / Ljósmynd: Guðrún Gísladóttir

Leave a Reply