Skip to main content
Fréttir

Hinsegin sýning á Johnny Casanova

By 23. júlí, 2002No Comments

Tilkynningar Leikhópurinn Ofleikur sýnir þessa dagana leikverkið ,,Johnny Casanova” í Tjarnarbíói sem fjallar um lesbíur og homma. Verkið er skrifað af Jóni Gunnari Þórðarsyni sem er 22 ára og Ofleikur er unglingaleikfélag þar sem meðlimir eru á aldrinum 14-17 ára. Lögin sem eru spiluð á sýningunni eru flutt af “The London Gay Symphony Orchestra”, þar sem 64 hommar mynda heila sinfóníuhljómsveit og spila lögin af hreinni snilld.

Leikritið fjallar um tvo vini sem koma út úr skápnum og viðbrögð vina og fjölskyldu. Komið er mikið inn á sértrúarflokka og Biblíuna og þar fá trúflokkarnir hreint út sagt slæma útreið. Svo eru þeir flottir strákarnir, ófeimnir við að kyssast á sviðinu. Við höfum séð verkið og það er vel gert og skemmtilegt. Við hvetjum alla til að fara og draga vini sína og/eða fjölskyldu með.

Samtökunum 78 býðst “2 fyrir 1” tilboð á sýninguna en miði á fullu verði kostar 1400 kr. Hægt er að nálgast afsláttarmiðana á skrifstofu Samtakanna ´78 en reyndar á að nægja að nefna að maður sé á vegum Samtakanna ´78 til að fá afsláttinn. Best er að hringja í síma 867 4573 hjá Tjarnarbíói og panta miða.

Sýningin þann 25. júlí (kl. 20) verður sérstök gay sýning fyrir Samtökin og FSS. Ef fólk kemst ekki þann 25. júlí þá eru tvær aðrar sýningar sem þið getið líka farið á: laugard. 20. júlí og föstud. 26. júlí.

Við hvetjum fólk til að styðja hinsegin menningarstarfsemi og sjá leikverkið!

Lesa umfjöllun Heimis Más Péturssonar um leikverkið á nýrri vefsíðu hans


Úr dagskrárriti “Johnny Casanova”:

Hugleiðingar um fordóma

“Þegar Jón Gunnar var á Englandi kynntist hann manni að nafni Francois Evans. Í gegnum hann kynntist Jón Gunnar að einhverju marki heimi samkynhneigðra og hvernig það er að átta sig á því að maður sé öðruvísi. Francois ólst upp í litlu samfélagi á Norður-Írlandi. Þar sem meirihluti íbúa eru kaþólskrar trúar. Hann áttaði sig á því að hann hreifst af karlmönnum þegar hann var ellefu ára en kom ekki út úr skápnum fyrr en 13 árum síðar, 24 ára að aldri. Öll þessi ár gat hann ekki tjáð tilfinningar sínar. Í dag líður honum vel. Hann er 38 ára gamall og býr ásamt kærasta sínum í London þar sem hann starfar sem tónskáld. En hvað með Ísland? Íslensk börn alast upp í landi þar sem gert er ráð fyrir því að allir séu gagnkynhneigðir. Kynfræðsla í skólum miðast við gagnkynhneigða og lítil sem engin umræða er um samlíf samkynhneigðra para og engin um kynlíf þeirra.

Unglingsárin eru erfiður tími í lífi allra. Þá lærir fólk að þekkja sjálft sig. Margar spurningar vakna meðal annars um kynhneigð. Er maður “gay” eða “straight”? Flestir koma út úr skápnum á aldrinum 16 til 25 ára. Sú reynsla er auðvitað miserfið en auðveld er hún aldrei.

Trú hefur mikil áhrif á ímynd samkynhneigðra. Í flestum trúarbrögðum er samkynhneigð ekki viðurkennd. Á Íslandi er kristin þjóðkirkja. En hefur kirkjan jafnmikil völd og áður? Er meðalmaðurinn sammála öllu sem kirkjan stendur fyrir og predikar? Hvar standa þá samkynhneigðir og aðstandendur þeirra? Þeir fá ekki sömu réttindi og aðrir. Þeir mega ekki giftast í trúnni né ættleiða börn. Er það af kirkjunnar völdum? Á vegum Krossins, sem er kristinn sértrúarsöfnuður, starfar “Sókn gegn sjálfsvígum” en þar er starfrækt opin símalína fyrir fólk í sjálfsmorðshugleiðingum. Þar sem þessi samtök starfa undir verndarvæng Krossins neita þau hinsvegar að hjálpa samkynhneigðum. Því miður er staðreyndin sú að hátt hlutfall þeirra sem fremja sjálfsmorð eru samkynhneigðir.”

Leave a Reply