Skip to main content
search
Fréttir

Danmörk – Lesbíur sækja fram í næturlífinu

By 24. mars, 2001No Comments

Frettir Um árabil hefur verið fremur dauft yfir opinberu skemmtanalífi lesbía í Danaveldi. Þær yngstu í hópnum hafa ratað á sameiginlega staði samkynhneigðra, en spennandi vettvangur fyrir samkynhneigðar konur, sem vilja skemmta sér á eigin forsendum án þess að hafa stráklinga endalaust í sjónmáli, hefur verið næsta rýr til þessa. Með tilkomu Kitty Club vonast danskar lesbíur til þess að skemmtanalíf eigi eftir að gjörbreytast í sumar en þar mun vera ætlunin að halda kvennadansleiki reglulega.

Það eru þær Lena Thurmann og Helle Nielsen ? Diva og Touch ? sem standa að rekstri Kitty Club í glæsilegum húsakynnum við Park Café á Austurbrú í Kaupmannahöfn. DJ hússins opnunarkvöldið 30. mars verður sótt til Malmö og hún lofar danshæfri músík fyrir stúlkur á öllum aldri. Ekki verður unnt að bjóða upp á reglulega opnunartíma í framtíðinni ? til þess er skemmtanaþörfin ekki nægjanlega meðal stúlkna í Kaupmannahöfn að mati þeirra Divu og Touch, en þær lofa engu að síður að standa fyrir kvennaböllum reglulega í klúbbnum við Park Café.

Um árabil höfðu lesbíur í Kaupmannahöfn í fá hús önnur að venda en Jeppes Club, ?stedet hvor pigerne mødes? eins og það heitir í auglýsingunni. Klúbburinn hennar Jeppe er við Allégade á Frederiksberg og þar hafa reyndar margar íslenskar stúlkur átt sín ógleymanlegu ævintýri, en í hittifyrra gafst Jeppe endanlega upp á rekstrinum og lýsti því yfir opinberlega ekki þýddi að reka stað fyrir gesti sem kæmu með drykkjarföngin með sér að heiman! Engu að síður er enn opið á Jeppes fyrir konur eingöngu fyrsta og síðasta föstudag í mánuði og stemmningin þykir engu lakari þó að Jeppe sé horfin til síns heima.

Engin borg Evrópu er eins vinsæl meðal íslenskra túrista og Kaupmannahöfn að því er tölur sýna. Vert er að vekja athygli íslenskra lesbía á nýjum möguleikum í næturlífinu þar í borg þegar þær lenda næst í Kaupmannahöfn. Hægt er að fá nánari upplýsingar um Kitty Club og næstu dansleiki hjá þeim Divu og Touch með því að skrifa til: kittyclub@ofir.dk

PAN

Leave a Reply