Skip to main content
search
Fréttir

MANNRÉTTINDAVERÐLAUN SAMTAKANNA ´78 VEITT Í FYRSTA SKIPTI

By 24. júní, 2007No Comments

Á hátíðarsamkomu í Iðnó föstudaginn 22. júní sl. veitti stjórn Samtakanna ´78 viðurkenningar vegna framlags einstaklinga, fyrirtækja eða stofnanna til mannréttinda og jafnréttis. Að þessu sinni hlutu viðurkenningu Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Pála Ólafsdóttir og Reykjavíkurborg. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd borgarinnar.

Á hátíðarsamkomu í Iðnó föstudaginn 22. júní sl. veitti stjórn Samtakanna ´78 viðurkenningar vegna framlags einstaklinga, fyrirtækja eða stofnanna til mannréttinda og jafnréttis. Að þessu sinni hlutu viðurkenningu Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Pála Ólafsdóttir og Reykjavíkurborg. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd borgarinnar.

Áður hafa á vettvangi Samtakanna ´78 verið heiðraðir þeir sem sátu í fyrstu stjórn félagsins, þeir Guðni Baldursson, Heimir Jónsson og Þórir Björnsson, auk þeirra Harðar Torfasonar og Sjafnar Helgadóttur fyrir brautryðjendastarf í þágu samkynhneigðra á Íslandi. Samtökin ´78 munu hér eftir árlega heiðra einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir fyrir framlag í þágu mannréttinda og jafnréttis og er það von stjórnar félagsins að viðurkenningin verði mönnum hvatning til góðra verka.

Sem fyrr segir hlutu Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Pála Ólafsdóttir og Reykjavíkurborg viðurkenninguna í ár. Reykjavíkurborg hlaut viðurkenningu fyrir yfir 20 ára stuðning sinn við mannréttindi og jafnrétti samkynhneigðra. Þá sögu má rekja aftur til ársins 1986 þegar Davíð Oddson sýndi þá framsýni að veita fjárstuðningi til reksturs og til þess að sinna fræðslumálum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir viðhélt þeim stuðningi af rausnarskap í borgarstjórnartíð sinni svo og aðrir kjörnir borgarfulltrúar. Nýverið lagfærði Reykjavíkurborg jafnréttishugtakið sem áður var einungis skilgreint sem jafnrétti kynjanna en nær nú til allra borgara án tillits til aldurs, fötlunar, heilsufars, kyns, kynhneigðar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, uppruna, litarháttar og menningar. Telur stjórn Samtakanna ´78 það afar farsælt skref og öðrum bæjarfélögum til fyrirmyndar.

Guðrún Ögmundsdóttir hefur starfað ötullega að réttindamálum lesbía, homma og transgender fólks á undanförnum áratugum. Á síðasta ári var stórt skref stígið með lögum sem tryggja jafnrétti samkynhneigðra á við aðra þegna og var þáttur Guðrúnar í þeirri vinnu ómetanlegur.

Í gegnum tíðina hafa margir verið kallaðir til starfa innan hreyfingaar samkynhneigðra og fjölmargir lagt af mörkum mikla og óeigingjarna vinnu. Margrét Pála Ólafsdóttir er vel þekkt fyrir störf sín á vegum Samtakanna ´78. Hún stóð lengi í eldlínunni og vann ötullega að bættum réttindum lesbía og homma á Íslandi. Það þarf sterk bein að standa af sér þær ágjafir sem gengu yfir á þeim tíma sem hún var formaður félagsins og fyrir starf hennar að mannréttindum á Íslandi og fyrir það er stjórn Samtakanna ´78 Margréti þakklát.

Guðrún, Margrét Pála og Reykjavíkurborg hafa með verkum sínum sýnt frumkvæði og þor sem nú er þakkað.

-HG & HTS

Leave a Reply