Skip to main content
search
Fréttir

Glæsileg hátíðahöld – 40.000 manns á hátíð Hinsegin daga

By 8. ágúst, 2004No Comments

Frettir Glæsilegri hátíð Hinsegin daga ? Gay Pride í Reykjavík er lokið. Talið er að um 40.000 manns hafi sótt hátíðahöldin í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 7. ágúst. Ljóst er að hátíðin er orðin ómissandi þáttur í menningarlífi borgarbúa sem fjölmenntu á götum Reykjavíkur þennan dag.

Hátíðin hófst í leikhúsinu Loftkastalanum á föstudagskvöldi en þar komu fram nokkrir helstu skemmtikraftar hátíðarinnar, draggdrottningin Heklína frá San Francisco ásamt fylgdarliði og glæsilegur hópur skemmtikrafta frá Hommaleikhúsinu Hégóma, en miðpunktur hátíðahaldanna var Maríus Sverrisson sem söng sig inn í hjörtu gestanna sem fylltu húsið þetta kvöld.

Sjálfur hátíðisdagurinn hófst við sólarupprás hjá þeim sem báru hita og þunga af skemmtuninni, og fyrst á vettvang voru þau sem tóku að sér að reisa hátíðarsviðið í Lækjargötu. Um kl. 13 þokuðu svo skartkerrur og skreyttir bílar sér inn á Rauðarárstíg þar sem atriðum hinnar árlegu gleðigöngu var stillt upp. Í fyrstu leit út fyrir rigningu og höfðu sumir orð á því að ef úrhellið frá í fyrra ætti að endurtaka sig yrðu samkynhneigðir að taka það sem skýr skilaboð af himni um að láta af stolti og prakkaraskap og halda sig heima í framtíðinni. En auðvitað stytti upp um leið og gangan lagði af stað og hvergi varð vart við deigan dropa eftir að fylkingin rann niður Laugaveg.

Á meðan sýningarstjóri tónleikanna í Lækjargötu sat ein á útisviðinu sem reist hafði verið um morguninn og naut þagnarinnar í Kvosinni þar sem hún horfði yfir mannlausa Lækjargötu og beið eftir göngufólki, þokaðist gleðiganga ársins af stað á Hlemmi með viðeigandi hávaða og ærslum. Atriðin í þetta sinn voru rúmlega tuttugu og vöktu með vegfarendum allar þær tilfinningar sem ósvikin gleðiganga á að gera. Drottningar Reykjavíkur voru á sínum vísa stað, stríðsmálaðar og léttklæddar, og tvíkynhneigðir renndu sér á þríhjólum niður Laugaveg, en margt óvenjulegt bar líka fyrir augu. Þarna fór til dæmis heilt fótboltalið, ættað úr kvikmyndinni Strákarnir okkar undir merkinu ?Hommar eru líka íþróttamenn?, þjóðlegar lesbíur á íslenskum peysufötum iðkuðu hannyrðir af ákafa á þjóðlegum heyvagni og sjóarar á skútu sinni sigldu gegnum miðborgina í mótmælaskyni við hvers kyns tilraunir til að setja kvóta á homma.

Einstök hátíð í heiminum

Í Lækjargötu hófust útitónleikar eftir gönguna, en kynnir hátíðahaldanna var Ingrid Jónsdóttir leikkona sem framdi hópefli með þessum fyrrnefndu fjörutíu þúsundum og kynnti skemmtikraftana einn af öðrum. Söngvarar og dansarar úr Fame, Skjöldur Eyfjörð, Þuríður Sigurðardóttir og Kristín Eysteinsdóttir ásamt félögum úr Ótukt og Rokkslæðunni, kvennahljómsveitin Homos with tha Homiez að ógleymdum Heklínu og systrum hennar, Hommaleikhúsinu Hégóma og Maríusi Sverrissyni með fyrrnefndu fótboltaliði. Þá heiðraði Tómas Þórðarson, hálfur Íslendingur og hetja Dana í Eurovision sl. vor, samkomuna með söng sínum. Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna ´78, flutti að þessu sinni hátíðarávarp dagsins.

?Það sem gerir þessa hátíð svo spennandi og sérkennilega er þátttaka almennings, þetta er ekki bara hátíð lesbía og homma og vina þeirra, heldur hátíð allra landsmanna,? segir Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri Hinsegin daga. ?Að því leyti er hátíðin einstök í heiminum. Mér þótti það líka merkilegt að gangan er smám saman að taka á síg séríslenskan blæ. Sýningaratriðin sækja í vaxandi mæli í okkar eigin veruleika og kunna að nýta sér íslenska menningu og hefðir. Þetta eigum við að halda áfram að rækta og leita okkar eigin leiða. Ég er sannfærður um að sjóararnir og peysufatakonurnar sem tóku þátt í göngunni eru bara upphafið á langri hefð slíkra uppátækja.?

Varðveitum þjóðarsáttina

Í ávarpi sínu á sviðinu í Lækjargötu gerði Þorvaldur Kristinsson þakklætið að umræðuefni sínu. og sagði m.a.:

?Styrkurinn og öryggið sem við hommar og lesbíur skynjum svo sterkt í dag grundvallast einkum og sér í lagi á virkum stuðningi ættingja okkar og vina, á virku heimavarnarliði, fólkinu sem svaraði kallinu og fannst það ekki svo erfitt eftir að hafa kannski átt í smávegis vandræðagangi í byrjun. Þetta er fólkið sem svarar fullum hálsi þegar að okkur er vegið, fólkið sem lítur á okkar hamingju sem sína eigin hamingju. Og þessi hópur er ekki smár, skoðanakannanir benda til þess að við eigum vísan stuðning og velvilja 85% íslensku þjóðarinnar. Það er meira en samkynhneigðir í flestum öðrum löndum fá notið. Fimmtán prósentin sem eftir eru sitja nú og hugsa málið. Það er ekki flumbruganginum fyrir að fara á þeim bænum.

Fyrir allan stuðninginn vil ég þakka í dag, þakka fyrir foreldra okkar, vini, frændur og frænkur, þakka fyrir góða granna og vinnufélaga, þakka fyrir allan þann stóra flokk sem svaraði smám saman kalli og gerði Ísland byggilegt samkynhneigðu fólki. Eftir samræðu okkar við samfélagið í aldarfjórðung ríkir nú góð þjóðarsátt um líf og tilvist homma og lesbía.

Það kostaði heilan aldarfjórðung að ná því marki og þess vegna heiti ég á ykkur öll að varðveita þessa þjóðarsátt.?

Fáninn hefur ennþá merkingu

Það vekur sérstaka athygli að fjölmiðlar hafa yfirleitt gert hátíðahöldunum ágæt skil að þessu sinni. Frábærasta framlag ársins í þeim efnum er grein Andra Snæs Magnasonar rithöfundar í Fréttablaðinu á hátíðisdaginn, en þar segir hann:

?Það var mjög merkilegt að fylgjast með Gay Pride skrúðgöngunni ganga niður Laugaveginn í fyrra í grenjandi rigningu. Karnivalfílingurinn var ekki það merkilegasta, heldur miklu frekar baráttuandinn og sigurtilfinningin sem lá í loftinu. Þetta er eitthvað annað en 17. júní hugsaði ég með mér, en þá áttaði ég mig skyndilega: Svona VAR 17. júní! Svona var sigurtilfinningin þegar aldamótakynslóðin fór stolt og nýfrjáls í skrúðgöngu árin eftir 1944. Ein og ein gömul kona í þjóðbúningi minnir á stemningu sem var, en á 60 árum hafa allir gleymt að 17. júní var sigurhátíð en ekki hefð.

Gay Pride ber með sér flest einkenni þjóðhátíðar en hefur yfir sér brag sem 17. júní hefur löngu týnt. Þarna eru ekki einhverjir skátar að norpa með fánann í þegnskylduvinnu heldur hefur einhver gripið fána til að bera hann ef hreinu stolti. Í göngunni er einmitt hópur sem hefur barist fyrir málstað og unnið sigur og veit að frelsi eða sjálfstæði eru alls ekki sjálfgefin fyrirbæri eða útþvæld orð í munni stjórnmálamanna.

Eins og í allri sjálfstæðisbaráttu notar hópurinn ýkt tákn til að skilgreina sig. Þarna er regnbogafáninn sem tákn umburðarlyndis og fjölbreytileika. Í stað fjallkonunnar birtist draggdrottningin og þjóðsöngvar ómar eftir Gloriu Gainor. Í stað karlmennskutákna sjómannsins og bóndans kemur leður og latex og frelsishetjurnar eru lifandi en ekki steyptar í eir.

Á Gay Pride eru margir sem hafa bælt tilfinningar sínar, farið í felur með þær, goldið þeirra og mætt fordómum, sætt mismunun og jafnvel ofbeldi. Þarna eru jafnvel menn sem hröktust úr landi. Í þessum hópi hefði átt að vera fólk sem tók líf sitt af ótta við útskúfun samfélagsins. Þarna eru ættingjar og vinir að stíga fram og sýna ástvinum sínum samstöðu. Mikil þátttaka almennings gerir gönguna að stórsigri enda snýst baráttan ekki síst um viðurkenningu samfélagsins.

Kynslóðin sem nú fagnar veit fyrir hverju var barist og því drukknar merkingin ekki í blöðrum, pylsum eða brjóstsykurssnuðum og aldrei myndi þeim detta í hug að skipta út regnbogafá
nanum fyrir rauðar Vodafone-veifur eins og gerðist á 17. júní 2003. Fáninn hefur ennþá merkingu.

Með hliðsjón af 17. júní eru það eflaust óhjákvæmileg orlög Gay Pride að drukkna í pylsum og gasblöðrum. Þeir sem vilja upplifa alvöru sjálfstæðisstuð ættu því að drífa sig í bæinn. Yngri kynslóðir munu taka frelsi og umburðarlyndi sem sjálfsögðum hlut og jafnvel berjast gegn staðalímyndum frá dögum baráttunnar. Ein og ein gömul draggdrottning eða aldraður leðurhommi munu minna á stemningu sem var.?

Svo mörg voru orð Andra Snæs ? áskorun til um að varðveita þær tilfinningar sem voru kveikjan að Hinsegin dögum og skila þeim áfram til næstu kynslóða.

Leave a Reply