Skip to main content
Fréttir

Samkynhneigð í menningu samtímans – Vinsælli fyrirlestraröð er lokið

By 12. apríl, 2003No Comments

Frettir Hinn 11. apríl lauk fyrirlestraröðinni Samkynhneigð í menningu samtímans sem Samtökin ´78 efndu til á afmælisári í samvinnu við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, FSS, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta, og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þessi nýbreytni hefur mælst óvenju vel fyrir og aðsókn var óvenju góð. Þegar fæst var sóttu um 50 manns fyrirlestur en á tveimur hinum fjölmennustu voru um 110 manns viðstaddir.

Fjölbreytt fræði

Sex fræðimenn miðluðu þekkingu sinni og rannsóknum á fyrirlestrunum. Fyrst talaði Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfræðingur og lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri, en fyrirlestur sinn nefndi Sigrún Samkynhneigð, sálfræði og samfélag: Ungt fólk í háska. Þá fjallaði Þóra Björk Hjartardóttir, dósent, um orð og orðanotkun tengd samkynhneigð frá sjónarhóli félagslegra málvísinda og nefnist erindi hennar Orð á hreyfingu. Tveir bókmenntafræðingar komu fram. Birna Bjarnadóttir talaði um sköpunarkraft hvatalífsins í samfélagssýn Guðbergs Bergssonar í erindi sem hún nefndi Óræði kynhvatar í óútreiknanlegum persónum og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor, flutti erindið ?Ég er að norðan . . . mig hefur alltaf dreymt um tvær í einu?: Um íslenska lesbíudrauminn í auglýsingum og bókmenntum. Það var fjölsóttasti fyrirlestur vetrarins. Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrum formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands, ræddi um mannréttindi og hvað mannréttindasáttmálar heimsins rúma í erindinu Mannleg göfgi: Verða sumir hópar manna sviptir hinum jafnborna rétti til mannlegrar virðingar? Loks er að nefna Ólaf Þ. Harðarson, prófessor, sem í merkum fyrirlestri fjallaði um Samkynhneigð og breytingar á gildismati almennings á Vesturlöndum, en þar greindi hann frá því hvernig nýjar þjóðfélagsgerðir hafa áhrif á skoðanamótun og viðhorf manna.

Norðlendingar taka upp þráðinn

Fyrirlestur Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur Samkynhneigð, sálfræði og samfélag: Ungt fólk í háska, var síðan fluttur aftur miðvikudaginn 9. apríl í Háskólanum á Akureyri. Fyrirlesturinn nyrðra var á vegum Háskólans á Akureyri í samstarfi við S78N, Norðurlandshóp Samtakanna 78. Það var þétt setinn bekkur á fyrirlestrinum, undirtektir afar góðar og nokkrar umræður spunnust að honum loknum. Stefnt er að því á vegum Háskólans á Akureyri og S78N að fá Ólaf Þ. Harðarson til að flytja sinn fyrirlestur í þessari afmælisfyrirlestraröð í Háskólanum á Akureyri 7. maí nk.

Til framtíðar litið

Ljóst er að mikill og góður grundvöllur er að fyrirlestrahaldi og málþingum af því tagi sem boðið hefur verið upp á í vetur. Eins og kunnugt er bauð Félagsvísindadeild Háskóla Íslands í fyrsta sinn upp á námskeið um menningu og sögu samkynhneigðra sem nefnist Hinseginlíf og hinseginbarátta undir leiðsögn kennaranna Þorgerðar Einarsdóttur, lektors í kynjafræðum, og Rannveigar Traustadóttur, dósents í uppeldis- og menntunarfræðum. Um 25 manns tóku þátt í námskeiðinu og vonir standa til að boðið verði upp á það við Háskóla Íslands annað hvert ár. Eftir því sem hinni opinberu fyrirlestraröð vatt fram gafst nemendum á námskeiðinu kostur á að hlýða á fyrirlestrana, velja nokkra til umfjöllunar og fjalla um þá í greinargerð sem gaf þeim viðbótareiningar á námskeiðinu. Þessi samtvinnun námskeiðsins og hinna opinberu fyrirlestra mæltist svo vel fyrir meðal þeirra að Samtökunum ´78 þykir freistandi að endurtaka leikinn og efna aftur til fyrirlestraraðar næst þegar boðið verður upp á námskeiðið Hinseginlíf og hinseginbarátta við Félagsvísindadeild. Einnig mætti í framtíðinni hyggja að skipulegu samstarfi við aðra háskóla hér á landi um slíkt fyrirlestrahald.

Við horfum fram á nýja tíma í rannsóknum, kennslu og fræðum sem lúta að samkynhneigðum á Íslandi, fyrsti Íslendingurinn hefur hafið doktorsnám í hinsegin fræðum, Queer Studies, við South Bank University í London. Það er Anna Einarsdóttir, en hún nam félagsfræði, uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands og vann á námsárum sínum merka rannsókn um lesbíur og fjölskyldulíf. Annar aðalleiðbeinandi hennar við South Bank University er Jeffrey Weeks, einn af fremstu fræðimönnum heimsins á því fræðasviði sem um ræðir og höfundur margra glæsilegra ritverka um sögu og vitundarlíf homma. Fleiri íslenskir náms- og fræðimenn hafa sinnt samkynhneigðri menningu og veruleika við erlenda háskóla, til dæmis Guðbjörg Ottósdóttir, en MA-rannsóknarritgerð hennar við Western Michigan University í Bandaríkjunum 1991 fjallaði um lesbíur. Heyrst hefur af fleiri Íslendingum í svipuðum rannsóknarerindum úti í heimi og æskilegt væri að þeir hefðu samband við kollega sína á fræðasviði heima á Íslandi svo og við Samtökin ´78. Það er eitt af verkefnum félagsins að stuðla að þekkingu og fræðastarfi um samkynhneigð málefni og leiða saman þá sem slíkum vísindum sinna. En því hlutverki getur félagið illa sinnt nema menn skrifi okkur lítið lettersbréf og segi fréttir af iðju sinni.

Leave a Reply