Skip to main content
Fréttir

Árið 2004 gert upp – Staðfest samvist um víða veröld

By 13. janúar, 2005No Comments

Frettir Á árinu 2004 var víða um heim tekist á um réttindi samkynhneigðra til þess að ganga hjónaband. Skemmst er að minnast forsetakosninganna í Bandaríkjunum en færa má sterk rök fyrir því að þær hafi ráðist vegna andtöðu íhaldsamra kjósenda við aukin réttindi lesbía og homma. Í öðrum löndum, einkum í Vestur Evrópu, þokuðust mál hins vegar í rétta átt.

EVRÓPA

Í fjölda Evrópuríkja hefur staðfest samvist verið lögleidd. Árið 1989 varð Danmörk fyrsta landið í heiminum til þess að lögleiða staðfesta samvist. Sú löggjöf varð fyrirmynd annarra norrænna ríkja sem settu lög um um sama efni nokkrum árum síðar, þar á meðal Ísland, Noregur og Svíðþjóð. Í öllum aðalatriðum veita þau sömu réttindi og hjónabönd gagnkynhneigðra með þeim undantekningum helstum að þau veita ekki rétt til kirkjulegrar vígslu eða réttindi til þess að frumættleiða börn. Árið 2002 voru sænsku lögin rýmkuð og geta nú pör í staðfestri samvist þar í landi frumættleitt börn jafnt innanlands sem og erlendis frá, og í Danmörku gata lesbíur nú einnig fengið tæknifjóvgun. Norska þingið hafnaði á nýliðnu ári frumvarpi um breytingar á lögum sem hefðu veitt samkynhneigðum sama rétt og gagnkynhneigðum til þess að ganga í hjónaband. Með þeim hefði samkynhneigðum verið leyft að ættleiða börn og lesbíum að gangast undir tæknifrjóvgun. Finnland fylgdi í kjölfar hinna sjálfstæðu norðurlandaþjóðanna og lögfesti staðfesta samvist árið 2002.

Með lögum, sem samþykkt voru í Hollandi í desember árið 2000 og tóku gildi 1. apríl 2001 stigu Hollendingar skrefi lengra en Norðurlöndin og heimiluðu samkynhneigðum pörum að ganga í hjónaband. Samkvæmt þeim geta gift samkynhneiðg pör þó ekki frumættleitt börn erlendis frá líkt og í Svíþjóð og er það eina lagalega mismununin sem eftir stendur. Belgía fylgdi í fótspor nágranna sinna árið 2003 og lögleiddi hjónabönd samkynheigðra.

Með óvæntum sigri jafnaðarmanna í þingkosningum á Spáni á síðasta ári urðu þáttaskil í réttindamálum samkynhneigðra þar í landi. Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkistjórnar var að leggja fyrir þingið frumvarp um giftingar samkynheigðra sem þegar það öðlast gildi mun veita samkynhneigðum pörum sama rétt og gagnkynhneigðum. Í Frakklandi urðu einnig tíðindi á árinu þegar borgarstjórinn í Bègles, Noel Mamere, heimilaði samkynhneigðu pari að giftast í ráðhúsinu. Síðar ógilti dómstóll í Bordeaux þann gjörning með þeim úrskurði að hann stangaðist á við lög. Staðfest samvist hefur verið við líði í Frakklandi síðan 1999 en lögin ganga mun skemur en almennt tíðkast í Evrópu.

Í Bretlandi voru á árinu 2004 samþykkt lög um staðfesta samvist. Að frátöldum rétti til ættleiðinga og kirkjulegrar vígslu mun staðfest samvist veita flest þau sömu réttindi og hjónabönd gagnkynhneigðra í landinu. Lögin munu taka gildi á árinu 2005 en þau eru algjör nýmæli á Bretlandseyjum. Á Írlandi eru þó jákvæð teikn á lofti um rýmkun og aukin réttindi til handa samkynhneigðum þó svo að forsætisráðherrann hafi ítrekað að ekki komi til greina að taka nein þau skref sem leitt geti til lögleiðinga hjónabanda samkynhneigðra.

Í Þýskalandi tóku samvistarlög til handa samkynheigðum gildi árið 2002 með takmörkuðum réttindum. Í öðrum löndum álfunnar eru slík réttindi mjög takmörkuð eða alls engin. Í Austurríki, Luxemburg, á Grikklandi og á Ítalíu njóta óvígð pör engra sambúðarréttinda og því ólíklegt að samkynhneigðir muni á næstunni geta staðfest samvistir sínar þar.

NORÐUR AMERÍKA

Í Kanada hafa giftingar samkynhneigðra verðið lögleiddar í sex fylkjum og í einu sjálfstjórnarsvæði frumbyggja. Hæstiréttur landsins úrskurðaði undir lok ársins að stjórnvöldum sé heimilt að endurskilgreina hugtakið ?hjónaband? þannig að það nái einnig til samkynhneigðra. Eftir sem áður þarf að samþykkja lagafrumvarp þess efnist í þinginu enda var úrskurður hæstaréttar aðeins ráðgefandi, en það var ríkisstjórn landsins sem fór fram á það við hæstarétt að hann gæfi álit sitt á breytingunni áður en nokkuð yrði aðhafst eða alríkislögunum breytt. Talið er að meiri hluti sé fyrir breytingu á kanadíska þinginu.

Hjónabönd samkynhneiðgra voru mikið hitamál á árinu í Bandaríkjunum og má með sterkum rökum halda því fram að úrslit forsetakosninganna þar vestra hafi ráðist vegna andstöðu kjósenda við þau. Í ellefu fylkjum var um það kosið hvort banna ætti hjónabönd samkynhneigðra í stjórnarskrám viðkomandi fylkja. Með því vildu menn reyna að komast hjá málaferlum og dómsniðurstöðum eins og þeirri í Massachusetts þegar hæstiréttur úrskurðaði að lög sem bönnuðu slík hjónabönd stönguðust á við alríkisstjórnarskránna. Þetta einstaka atriði er talið hafa aukið kjörsókn á mikilvægum stöðum um 3-4% og að mikill meirihluta þeirra kjósenda hafi stutt Bush. Vilji forsetans stendur til þess að banna slík hjónabönd í stjórnarskrá landsins en hann hefur hingað til ekki haft árangur sem erfiði. Eftir sem áður hefur slík breyting nú þegar verið gerð á stjórnarskrám fjölmargra fylkja landsins og var hún til að mynda samþykkt með miklum meiri hluta atkvæða í þeim ellefu fylkjum þar sem um þau var kosið í nóvember.

Í upphafi ársins 2004 gaf borgastjórinn í San Francisco leyfi til þess að samkynhneigðir fegngju að ganga í hjónabönd. Taldi hann að bann við slíku stangaðist á við stjórnarskrá fylkisins. Í ágúst sama ár úrskurðaði hæstiréttur Kaliforníu að gjörningurinn væri ólöglegur og afturkallaði þar með giftingavottorð yfir 3.400 samkynhneigðra para. Í Portland í Oregonfylki giftu þúsundir samkynhneigðra sig einnig áður en viðauki í stjórnarskrá fylkisins sem bannar slíkt tók gildi í nóvemger og eru þau hjónabönd því dauð og ómerk. Í Massachusetts urðu hins vegar öllu ánægjulegri tíðindi á árinu þegar fylkið varð hið fyrsta í Bandaríkjunum til þess að lögleiða hjónabönd samkynhneiðgra. Nú liggur fyrir tillaga um stjórnarskrárbundið bann við slíku sem þó mun veita heimild til staðfestrar samvistar með takmörkuðum réttindum líkt og nú er í gildi í Vermont.

ASÍA OG ÖNNUR LÖND

Í desember voru samþykkt umdeild lög á Nýja Sjálandi um staðfesta samvist og munu þau taka gildi á árinu 2005. Voru þau samþykkt á þingi landsins með 65 atkvæðum gegn 55 en skoðanakannanir sýna meiri hluti landsmanna er þeim hlynt. Koma þau í kjölfar mannréttindaákvæða sem tekin voru inn í stjórnarskrá fyrir rúmum tíu árum og banna mismunun. Í Taiwan fer nú einnig fram endurskoðun á mannréttindalögum landsins og hugsanlegt talið að réttur samkynhneigðra til þess að ganga í staðfesta samvist verði hluti af þeirri endurskoðun. Í Ástralíu geta samkynhneigðir hins vegar hvorki gifst né ættleidd börn og vilji forsætisráðherra landsins stendur til þess að banna slíkt í stjórnarskrá.

Sú bylting sem orðið hefur í réttindamálum samkynhneigðra víða um heim hefur á undanförnum árum snúist upp í andhverfu sína í öðrum löndum. Hómófóbía, sem meðal annars birtist í auknu ofbeldi, hatursglæpum og ofsóknum ríkisstjórna, hefur aukist um heim allan á undanförnum árum. Þeim löndum sem beita dauðarefsingum gegn samkynhneigð hefur jafnframt fjölgað. Svo virðist sem árangur mannréttindabaráttunnar á Vesturlöndum, einkum í Evrópu, hafi sett málefnið í sviðsljósið í öðrum heimshlutum með mjög neikvæðum a
fleiðingum. Hópar sem áður hlutu litla athygli verða nú víða fyrir auknu aðkasti almennings sem og kerfisbundnum ofsóknum yfirvalda. Svipaða strauma má einnig greina í sumum vestrænum ríkjum, svo sem í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir þær mikilvægu réttarbætur sem orðið hafa í tiltölulega fáum löndum heimsins þá eiga samkynheigðir enn langt í land með að öðlast viðurkenningu og jafnrétti fyrir lögum víðast hvar í veröldinni.

-HTS

Leave a Reply