Skip to main content
Fréttir

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum – Rabbfundur um kirkjuna, kynlífið og hinsegin hjónabönd.

By 10. september, 2003No Comments

Tilkynningar Fyrsti rabbfundur haustmisseris verður fimmtudaginn 18. september kl. 12:05-13:00 í stofu 301 í Árnagarði (3. hæð).

Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur rabbar um hjónabandið, kirkjuna, kynlífið og hinsegin hjónabönd.

Sólveig Anna Bóasdóttir lauk doktorsprófi í guðfræðilegri siðfræði frá Uppsalaháskóla árið 1998. Sólveig Anna er fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni og hefur undanfarin tvö ár notið styrks úr Kristnihátíðarsjóði við rannsókn sína: Réttlæti og ást. Til móts við nýja kynlífssiðfræði. Rabb Sólveigar Önnu er innan þessa verkefnis.

Nánari lýsing á rabbinu: Hjónaband í hættu! Um kynlíf, kirkju og hinsegin hjónabönd.

Víða í veröldinni hafa kristnir, sjálfráða, fullveðja einstaklingar af sama kyni farið fram á það við kristnar kirkjur að þær blessi opinberlega ástarsambönd þeirra. Þessari bón hefur hvarvetna verið hafnað. Í umræðunni um möguleika samkynhneigðra einstaklinga til þess að öðlast opinbera blessun kirkjunnar á samböndum sínum hafa kristnar kirkjur undirstrikað að hjónabandið sé einungis mögulegt milli karls og konu. Þannig skrifar biskup Íslands í hirðisbréfi sínu Í birtu náðarinnar (2001): ?Staðfest samvist er skráð sambúð, en ekki hjónaband. /. . ./ Hjónavígsla er annað og meira en staðfesting á ást og sambúð einstaklinga. Það á sér forsendu í gagnkvæmni kynjanna.? (bls 161)

Hvaða forsendur og hverskonar rök liggja til grundvallar þeim skilningi að hjónabandið útiloki einstaklinga af sama kyni? Hvað er hjónabandið að kristnum, skilningi? Hvað segja lútherskir guðfræðingar að hjónabandið sé? Við þessum spurningum er mikilvægt að fá svör áður en reynt verður að svara því hvað útiloki samkynhneigða frá hjónabandi.

Í erindinu verður komið inn á tvær mikilvægar forsendur sem gengið er út frá í hinni guðfræðilegu umræðu um hjónabandið. Þetta eru annars vegar fjölgunarforsendan – boðið um fjölgun mannskyns (Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina 1.Mós.1.28) og hins vegar andstæðuforsendan eða betri-helmingsforsendan ? sem undirstrikar mikilvægi þess að andstæðir eiginleika kynjanna komi saman í hjónabandinu, og myndi þar eina fullkomna heild (complementarity). Kaþólskir guðfræðingar hafa haldið fjölgunarforsendunni mun ákveðnar fram en mótmælendur en hinir síðarnefndu hafa gert meira úr mikilvægi ?gagnkvæmni kynjanna?, eins og það er orðað í hirðisbréfi biskups Íslands (sem merkir í raun hið andstæða eðli kynjanna).

Í erindinu er rætt um mikilvægi þess að dýpka og endurnýja hina guðfræðilegu og siðfræðilegu umræðu varðandi þessa spurningu. Að vefa saman af næmni orð Nýja testamentisins, siðferðileg gildi, mannlega reynslu og staðreyndir málsins.

Leave a Reply