Skip to main content
search
Fréttir

Norðurlandsdeild FAS – Vel heppnaður stofnfundur á Sigurhæðum

By 12. nóvember, 2004No Comments

Frettir Stofnundur Norðurlandsdeildar FAS, Samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, var haldinn á Sigurhæðum á Akureyri, í húsi skáldsins Matthíasar Jochumssonar, á 179 ára afmælisdegi hans, 11. nóvember 2004.

Fundarboðendur kynntu lög FAS, en til deildarinnar er stofnað með vitund og í samráði við Samtökin FAS, og tillögu að sérstökum lögum Norðurlandsdeildarinnar, sem samþykkt var einu hljóði. Var gengið til dagskrár samkvæmt þessum nýju lögum og kosinn formaður og tveir stjórnarmenn með honum. Formaður Norðurlandsdeildar FAS er Brynjar Ingi Skaptason, en með honum í stjórn eru Guðrún Ásta Guðjónsdóttir og Sverrir Páll Erlendsson.

Stofnfundarmönnum bárust glæsilegar veitingar í boði Norðurlandsdeildar Samtakanna 78, S78N, en sterkt samband hefur verið milli þessara hópa frá því starf í foreldrahópi hófst fyrir um það bil einu ári.

Reglulegir fundir Norðurlandsdeildar FAS verða í vetur annan fimmtudag hvers mánaðar að Sigurhæðum. Akureyrarbær ljær deildinni það húsnæði til funda. Fundirnir hefjast klukkan 20 en einhverjir úr stjórn eru til viðtals, til dæmis við nýja félaga, frá klukkan 19.30.

Á fundinum var meðal annarra mála fjallað um skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið um réttarstöðu samkynhneigðra og stjórn falið að vinna ályktun deildarinnar um þau mál. Þá var og gerð grein fyrir því að Norðurlandshópur Samtakanna 78, S78N, hefði á undanförnum árum staðið fyrir göngu til að minnast alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember og yrði nú sem áður gengið frá Ráðhústorgi að Akureyrarkirkju klukkan 18.00 þann dag. Lýstu félagar áhuga sínum á að taka þátt í þeirri göngu.

-SPE

Leave a Reply