Skip to main content
search
Fréttir

Reykjavík – Regnbogamessur festa sig í sessi

By 25. maí, 2005No Comments

Frettir Önnur regnbogamessan hér á landi var haldin í Laugarneskirkju sunnudagskvöldið 22. maí síðastliðinn. Að henni stóðu söfnuðirnir þrír umhverfis laugardalinn, þ.e Langholtskirkja, Áskirkja og Laugarneskirkja en einnig tóku félagar í ÁST, Áhugahópi samkynhneigðra um trúarlíf, virkan þátt í messunni og fóru með bænir, ritningarlestur og hugleiðingu. Prestar í messunni voru þrír að þessu sinni, þeir Bjarni Karlsson, Jón Helgi Þórarinsson og Þórhildur Ólafsdóttir. Kór Laugarneskirkju undirstjórn organistans Gunnars Gunnarssonar söng í messunni og meðhjálpari var Sigurbjörn Þorkelsson. Sérstaka prédikun flutti Hildur Eir Bolladóttir og hefur hún verið birt í heild sinni á heimasíðu Samtakanna ´78 í greinasafni.

Hugmyndin að sérstakri regnbogamessu er sprottin úr því gróskumikla starfi sem unnið hefur verið á vettvangi ÁST. Slík messa undirstrikar mikilvægi réttindabaráttu samkynhneigðra innan kirjunar og sýnir um leið að kirkjan er öllum opin, samkynhneigðum jafnt sem öðrum. Ekki verður annað sagt en að glæsilega hafi tekist til og ljóst að messur af þessu tagi eru komnar til að vera.

-HTS

Leave a Reply