Skip to main content
Fréttir

Hégómi?

By 26. apríl, 2006No Comments

Er það einhver plús fyrir fólk í dag þótt Alexander mikli, Michelangelo eða Greta Garbo hafi verið samkynhneigð? Þetta virkar eins og barnalegt grobb: Sjáðu hvað ég á fína vini – eða þannig! Spurt: Ég hef tekið eftir því að í sumum viðtölum segja hommar og lesbíur frá því að hin eða þessi manneskjan í mannkynssögunni hafi líklega verið samkynhneigð. Mér finnst þetta hálfasnalegt. Er það einhver plús fyrir fólk í dag þótt Alexander mikli, Michelangelo eða Greta Garbo hafi verið samkynhneigð? Þetta virkar eins og barnalegt grobb: Sjáðu hvað ég á fína vini – eða þannig!

Svarað: Sammála, þetta er öðrum þræði ósköp kjánalegt. Baráttan fyrir betra lífi stendur hér og nú og engin samkynhneigð manneskja er bættari fyrir frægt fólk í þeim hópi. Samt hefur málið ýmsar spennandi hliðar. Þegar á það er bent að hinn eða þessi listamaðurinn til dæmis hafi verið samkynhneigður þá fær maður stundum dýpri skilning á list hans og æviferli. Oft skrifa rithöfundar um tilfinningar sínar undir rós. Sé á það bent að þeir eru sennilega að skrifa um ást til eigin kyns koma verk þeirra öðruvísi fyrir sjónir og í þeim má jafnvel greina ákveðinn undirtexta sem er oft mjög merkilegur og spennandi. Eins er það með alla kvikmyndaleikarana sem gegnum tíðina hafa verið neyddir til að leyna kynhneigð sinni. Ferill þeirra, stíll og verkefnaval tekur á sig nýja mynd þegar vitað er að sennilega slógu samkynhneigðar tilfinningar djúpt í hjartanu. Fræg dæmi um þetta eru Greta Garbo sem þú nefnir, og svo til dæmis Rock Hudson eða James Dean. Saga samkynhneigðra fyrr á tímum er nefnilega ákaflega vel falin og saga feluleiksins sem samkynhneigðir hafa iðkað er bæði átakanleg og lærdómsrík fyrir okkur sem lifum frjálsu lífi í dag. Þekkirðu til dæmis kvikmyndina The Celluloid Closet sem segir frá hómófóbíu og kúgun samkynhneigðra listamanna í Hollywood? Þessi meistaralega kvikmynd segir margt um þessa leyndu sögu og hvaða afleiðingar laumuspilið hefur á líf okkar og tilfinningar. Hana ættu sem flest okkar að þekkja.

Þorvaldur Kristinsson

Leave a Reply