Skip to main content
search
Fréttir

Samtökin ´78 hljóta Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar

By 22. október, 2005No Comments

Frettir Þann 21. október veitti Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi Samtökunum ´78 húmanistaviðurkenningu ársins 2005 fyrir baráttu félagsins fyrir almennum mannréttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Siðmennt veitir þessa viðurkenningu sem ætlunin er að veita árlega eftirleiðis.

Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn á Kaffi Reykjavík en auk viðurkenningarskjals færði Siðmennt félaginu veglega bókagjöf auk þriggja ára áskriftar að tímaritnu Gay and Lesbian Humanist sem gefið er út af félagi samkynhneigðra húmanista í Bretlandi (Gay and Lesbian Humanist Association). Í rökstuðningi Siðmenntar fyrir valinu segir meðal annars:

Barátta Samtakanna ´78 hefur ætíð einkennst af æðruleysi, hógværð og festu. Æðruleysi Samtakanna hefur birtist í því hvernig félagið hefur tekið á þeim ótrúlegu fordómum sem þrifust hér fyrir ekki svo mörgum árum síðan án þess að hafa gripið til óþarflega ?róttækra? ráða. Hógværðin birtist í því að Samtökin hafa ætíð haft skýra stefnu og barist fyrir henni án hamagangs. Festan lýsir sér í því hvernig Samtökin hafa ætíð staðið á sinni skoðun en aldrei vikið þrátt fyrir oft mikla fyrirstöðu og fordóma sem þau hafa mætt frá háum sem lágum…Við í Siðmennt teljum að Samtökin 78 hafi gert meira til að gera íslenskt samfélag umburðarlyndara og víðsýnna en nokkur annar aðili síðastliðin aldarfjórðung! Samtökin ´78 hafa sýnt almenningi fram á það að það er allt í lagi að vera öðruvísi, að það auðgar samfélagið að hafa fólk sem er með aðra kynhneigð og sýn á lífinu.

Löng hefð er fyrir því að félög húmanista út um allan heim styðji mannréttindakröfu samkynhneigðra. Þetta er vegna þess að húmanistar hafa í gegnum tíðina lagt áherslu á umburðarlyndi og telja þar með að fullorðið fólk eigi að hafa fullt frelsi til að fylgja kynhneigð sinni að eigin vild. Húmanistar hafa því alls staðar stutt baráttu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra með ótvíræðum hætti og án skilyrða.

Stjórn Samtakanna ´78 þakkar Siðmennt viðurkenninguna sem og falleg orð í garð félagsins og góðar gjafir.

Leave a Reply